ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur ÍMR 2022

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar árið 2022 var haldinn í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla, 28. apríl 2022 kl. 20. Fyrir fundinn lék Ólafur Briem á harmoniku. Í lok fundar fór Pétur H. Jónsson með gamanmál. Sigrún Tryggvadóttir, starfandi formaður, hóf fundinn og lagðti til að Einar Örn Thorlacius sæi um fundarstjórn og að Ásdís Káradóttir ritaði fundargerð. Var það samþykkt. Aðalfundur var löglega boðaður.

Gengið var til dagskrár:

1. Skýrsla stjórnar: Sigrún Tryggvadóttir, starfandi formaður, gerði grein fyrir tilgangi og markmiðum íbúasamtakanna, stjórn og störfum frá síðasta aðalfundi, m.a. ályktunum og störfum samtakanna. Sjá skýrslu stjórnar.

2. Reikningar: Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram. Samþykktir samhljóða. Sjá rekstrarreikning.

Boðið var upp á fyrirspurnir úr sal eftir 1. og 2. lið og sköpuðust umræður um íbúaráðið gæti ef til vill sótt frekari þjónustu og ráðgjöf til Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða að Laugavegi 77. Einnig var ræddur hávaði af skemmtanahaldi í miðborginni og ónæði sem íbúar verða fyrir af því.

3. Formannskjör: Arnar Guðmundsson sem hafði verið kjörinn til tveggja ára sagði af sér formennsku. Sigrún Tryggvadóttir bauð sig fram og kynnti sig. Hún var sjálfkjörin.

4. Stjórnarkjör: Kynnt var að nú ljúki kjörtímabili Einars Arnar Thorlaciusar, Evu Huldar Friðriksdóttur, Páls Hilmarssonar, Margrétar Einarsdóttur (gjaldkera) og Magnúsar Skúlasonar.

Margrét Einarsdóttir bauð sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu og auk hennar voru kosin í stjórn Birna Eggertsdóttir og Óttarr Makuch og sem varamenn Holberg Másson og Matthildur Skúladóttir.

Stjórn skipa: Sigrún Tryggvadóttir (formaður), Ásdís Káradóttir, Birna Eggertsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Óttarr Makuch og Pétur H. Jónsson. Varamenn: Holberg Másson, Matthildur Skúladóttir og Sigurður Sigurðsson.

Skoðunarmenn reikninga voru samþykktir; Guðlaug Björnsdóttir og Einar Örn Thorlacius.

6. Önnur mál:

A. Holberg Másson gerði að tillögu sinni að vísa því til stjórnar að lög íbúasamtakanna yrðu tekin til endurskoðunar. Var það samþykkt samhljóða.

B. Sigrún Tryggvadóttir lagði fram tillögu um viðbrögð við ónæði íbúa í miðbænum vegna hávaða frá skemmtistöðum. Tillagan var samþykkt samhljóða. Hún er svohljóðandi:

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) lítur hávaða og ónæði vegna veitinga- og skemmtistaða í miðbænum alvarlegum augum. Aðalfundurinn skorar á borgarstjórn að verja rétt íbúanna til þess að hafa svefnfrið um nætur en skv. 4. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg er bannað að hafast nokkuð það að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Samkvæmt 26. gr. lögreglusamþykktarinnar ber þeim sem reka veitinga- eða skemmtistaði að sjá um að allt fari þar vel fram og valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði. Íbúasamtökin óska eftir samtali um hvað er til ráða.

C. Fram kom tillaga um að vísa því til stjórnar að fjalla um aðgengi íbúa við göngugötur að heimilum sínum og jafnvel að íbúar fá einhvers konar skilríki til að færa sönnur á búsetu sína. Tillagan var samþykkt.

D. Pétur H. Jónsson tók til máls og greindi frá því að skólaminjasafn Austurbæjarskóla yrði opið í tengslum við skólahátíð í lok maí en Hollvinasamtök skólans reka skólamunastofuna. Samtökin hafa að auki það hlutverk að skrásetja sögu skólans.

E. Óttarr Makuch flutti tillögu um ályktun um að áfram yrði regnbogi á Skólavörðustíg. Eftirfarandi tillaga var samþykkt samhljóða:

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur 28. apríl 2022 skorar á Reykjavíkurborg að halda í heiðri loforð frá 2019 um að varanleg staðsetning regnbogans yrði á neðanverðum Skólavörðustíg. Regnboginn er stuðningur við hinsegin fólk og réttindabaráttu þess, ekki aðeins í Reykjavík heldur um land allt. Auk þess er regnboginn nú eitt mest þekkta kennileiti Reykjavíkur. Þótt ákveðið hafi verið að útbúa torg á þessu svæði er ekkert því til fyrirstöðu að regnboginn fái áfram að vera á sínum stað og liðast upp Skólavörðustíginn öllum til ánægju.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is