|
Skýrsla Stjórnar ÍMR 2022
Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla 28. apríl 2022 kl. 20:00.
ÍMR er félag íbúa í Miðborginni og hverfið afmarkað á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallarvegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þessu svæði og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins. Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur voru stofnsett á fundi í Iðnó 11. mars 2008 og íbúar á svæðinu eru nú 10.637.
Tilgangur samtakanna og markmið er að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins og starfa með Íbúaráði Miðborgar og Hlíða og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess, sem og íbúasamtökum annarra hverfa.
Síðasti aðalfundur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur 2. mars 2021. Þá var Arnar Guðmundsson kjörinn nýr formaður. Sökum persónulegra ástæðna starfaði hann stutt. Varaformaðurinn, Sigrún Tryggvadóttir, hefur því í vetur gegnt embætti formanns. Á síðasta aðalfundi voru kjörin í stjórn þau Ásdís Káradóttir, Pétur H. Jónsson og Guðrún Erla Geirsdóttir, sem er ritari stjórnar. Varamaður var kjörinn Sigurður Sigurðsson. Samkvæmt lögum félagsins eru stjórn og varamenn kjörnir til tveggja ára og því lýkur nú tveggja ára kjörtímabili þeirra Evu Huldar Friðriksdóttur meðstjórnanda og Margrétar Einarsdóttur gjaldkera, sem og varamannanna Einars Thorlacius, Magnúsar Skúlasonar og Páls Hilmarssonar.
Ályktanir og starf stjórnar ÍMR
Stjórnin hélt 10 fundi á árinu og allar fundargerðir er að finna á heimasíðu félagsins: Miðbærinn.is.
Heimsfaraldurinn setti svip sinn á störf ÍMR annað árið í röð og gerði að verkum að ekki tókst að halda neina almenna fundi, málþing eða skemmtanir fyrir íbúa hverfisins, en Spennistöðin var ekki tiltæk fyrir ÍMR frá því í september fram í mars. Stjórnin hélt þó sína fundi, ýmist á netinu eða í raunheimum.
Stjórnin hefur sent frá sér ályktanir um ýmislegt sem betur má fara í hverfinu og lagt fram tillögur að ýmiss konar nýbreytni.
Þar má nefna ályktun til stuðnings því að sökum menningarsögulegs gildis skólaminjasafns í Austubæjarskóla ætti það að vera áfram í skólanum. Ánægjulegt er að segja frá því að borgin hefur samþykkt að safnið verði áfram í núverandi húsnæði.
Bréf var sent til borgarinnar og hönnuða sem vinna að hönnun göngugatna í miðborginni þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að hönnunin væri í samræmi við það að um væri að ræða elsta og viðkvæmasta svæði borgarinnar.
Haft var samband við Bílastæðasjóð vegna vandræða íbúa göngugatna við búferlaflutninga og með aðföng, sem og með aðgengi fatlaðra.
Enn einu sinni var haft samband við borgina vegna vanhirtra húsa. Í framhaldi af fréttaflutningi um hús í niðurníðslu var haft samband við nágranna húss við Óðinsgötu og erindi sent á borgina og fjölmiðla og bent á skýrslu um hús sem látin eru grotna niður sem íbúasamtökin tóku saman í fyrra.
Ályktanir voru sendar til borgarinnar um að planta sígrænum gróðri í almannarými hverfisins. Lítið er að finna af honum, sbr. nýuppgert Óðinstorg sem er grátt stóran hluta ársins. Eins var send ályktun til borgarinnar vegna Hallargarðarins um að laga hellur og snyrta gróður.
Þá var send ályktun til Fræðslusviðs Reykjavíkur vegna skýrslu starfshóps um framtíðarskipan grunnskóla- og frístundastarfs í Austurbæjarskóla, Háteigsskóla, Hlíðaskóla og Vörðuskóla. Í ályktuninni er óskað eftir því að Vörðuskóli taki við því hlutverki að vera unglingskóli en Austurbæjarskólinn verði áfram fyrst og fremst barnaskóli.
Rætt var um þjófnaðarfaraldur í miðbænum og hvað væri til ráða.
Hækkun gjaldskrár Bílastæðasjóðs var mótmælt og ályktun um það send Bílastæðasjóði og fjölmiðlum.
Ályktanir voru sendar fjölmiðlum vegna lokunar Domus Medica og harmað að læknisþjónusta færi úr miðbænum. Að auki var flutningi á ÁTVR úr miðbænum mótmælt. Nú hefur verið ákveðið að hafa búðina áfram í Austurstræti og verið að skoða að opna aðra litla vínbúð við Hlemm.
Rætt var um bílastæði í miðbænum sem lokað er með slá sem standa oft auð að kvöldlagi og um nætur, t.d. við BSÍ, efst á Vatnsstíg og víðar. Þessi bílastæði þyrftu að vera opin íbúum um kvöld og nætur.
Til stendur að leggja niður leikskólann Lindarborg við Lindargötu. Íbúasamtökin lögðu til að gera lóðirnar að svæði fyrir íbúa með grenndargámum, hleðslustöðvum, gróðri og aðstöðu sem nýtist íbúum til að hittast. Hugmyndin var rædd við formann Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og borgarstjórann.
Tekið var fyrir efni fundar umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis 22. febrúar sl. um frumvarp til laga um loftferðir. Í frumvarpinu er lagt til að skipulagsvald verði í auknu mæli fært frá sveitarfélögum til ríkisins. Fundinn sátu fulltrúar ríkis og borgar. Fulltrúi íbúasamtakanna kom m.a. á framfæri á fundinum að æskilegt væri að austur-vesturbraut Reykjavíkurflugvallar verði gerð að aðalbraut en norður-suðurbrautin verði varabraut. Ef þetta verður að veruleika mun flug yfir miðborginni minnka verulega. Í svari frá flugvallarstjóra er því hafnað að hægt sé að skilgreina „aðalbraut“. Svar hans er á þessa leið:
„Á alþjóðaflugvellinum Reykjavíkurflugvelli erum við með tvær aðalflugbrautir.
Þ.e.a.s. ekki er skilgreind ein braut fram yfir aðra sem „aðal“ heldur er ákvörðun flugumferðastjóra í turni um hvaða flugbraut skuli nota að langmestu leyti byggð á vindátt. Loftför fara í loftið og lenda með vindinn á móti sér. Einnig þarf þó að hafa í huga brautarskilyrði, lengd brauta, skyggni, skýjahæð og aðflugsbúnað á braut. Náttúruöflin sjá því að mestu um þetta fyrir okkur og er öryggi loftfarsins, farþega og starfsmanna ávallt í forgangi.
Á sumrin er oft norðan- eða vestanátt og þá eru brautir 01 eða 31 mikið notaðar (flugtak og lending til norðurs og til vesturs). Á veturnar þá er oft austan- eða sunnan átt og þá eru brautir 13 eða 19 mikið notaðar (flugtök og lendingar til suðurs og austurs).“
Umferð strætisvagna um Barónsstíg er oft heldur hröð niður brekkuna. Eins fara vagnarnir hratt í beygjunni við Egilsgötu og þurfa stóran radíus til að ná henni. Hraðakstur vagnanna er hættulegur bæði gangandi og hjólandi vegfarendum sem og ökumönnum. Ályktun um málið var send Strætó bs. og farið fram á að brýnt væri fyrir bílstjórum að virða hámarkshraða.
Stjórn barst erindi frá íbúum sem búa nálægt hávaðasömustu krám og skemmtistöðum í miðbænum. Til hefur staðið að ÍMR haldi málþing um sambýlið við skemmtistaðina í miðborginni en sökum takmarka vegna kóvid-faraldursins hefur það ekki komið til framkvæmda. Ákveðið hefur verið að fjalla um þetta málefni á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
Íbúaráð
Íbúaráð voru innleidd í Reykjavík haustið 2019. Sú breyting var þá gerð að í stað þess að Hlíðar og Miðborg hefðu hvort sitt hverfisráð voru þau sameinuð í Íbúaráð Miðborgar og Hlíða. Íbúðaráðin eru samstarfsvettvangur kjörinna fulltrúa, íbúsamtaka og foreldrafélaga hverfanna. Formenn íbúasamtakanna skiptust á að eiga sæti í ráðinu, þ.e. sitthvort árið hvort félag. ÍMR hafði ekki átt sæti í ráðinu frá því í desember 2020. Þessu mótmælti stjórnin og var tekið tillit til þeirra athugasemda. Frá því í febrúar hafa því formenn íbúasamtaka beggja hverfa átt sæti í ráðinu.
Starfandi formanni var boðið að sitja fundi Íbúaráðs sem áheyrnarfulltrúi frá því í október. Ákveðið var á fundi í nóvember að óska eftir kynningu á Íbúaráði Miðborgar og Hlíða fyrir stjórninni. Ákveðið var að hittast í raunheimum og því varð ekki af þessum fundi fyrr en í byrjun febrúar. Þá fengum við Margréti Norðdahl, formann Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða, á fund með stjórninni og hún kynnti fyrir okkur starfið.
Margrét greindi frá því að sérstakur starfsmaður tæki við fyrirspurnum og erindum frá íbúum og samtökum. Fundargerðir ráðsins mætti nálgast á netsíðu Reykjavíkurborgar og þar birtist dagskrá fundar viku fyrir hvern fund. Fundirnir væru opnir íbúum og streymt á netinu. Þau sem fylgdust með á netinu hefðu tækifæri á að taka þátt með spurningum. Því var komið á framfæri við formanninn að samtökin væru góður farvegur fyrir upplýsingar frá borginni til íbúanna. Í framhaldi af fundinum voru fundir ÍMR færðir með tilliti til dagsetninga funda Íbúaráðs. Nú fundum við fyrsta fimmtudag í mánuði til að tími vinnist til að koma málum okkar á dagskrá hjá ráðinu.
Í framhaldi af kynningunni á Íbúaráðinu hefur stjórn ÍMR sent erindi til meðferðar ráðsins fyrir hvern fund. Erindin eru eftirfarandi:
1. Djúpgámum sé fjölgað í hverfinu og að þeir gámar sem þegar eru til staðar séu tæmdir oftar. Til stendur að nýjum djúpgámi verði komið fyrir í Grjótaþorpinu.
2. Gangstéttar sem þvera hverfið austur/vestur og norður/suður verði upphitaðar. Þegar færð er slæm kæmust börn og unglingar örugga leið í skólann, sem og ferðamenn, eldri borgar og aðrir íbúar. Margir íbúanna hafa valið sér bíllausan lífsstíl og hér er fjöldi ferðamanna. Því er í miðborginni meiri þörf á snjólausum gangstéttum en annars staðar í borginni. Umhverfis- og skipulagssvið svaraði því til að þegar gangstéttar verði lagaðar muni verða sett snjóbræðslukerfi en ekki farið í fyrirbyggjandi aðgerðir. Það þykir of dýrt.
3. Hleðslustöðvar verði settar upp þar sem á mörgum stöðum í hverfinu er ekki möguleiki fyrir íbúa að koma sér upp einkahleðslustöðvum. Samkvæmt svari umhverfis- og skipulagssviðs hafa verið settar upp 164 hleðslustöðvar í borgarlandinu. Að auki verða settar upp 20 nýjar stöðvar á ári næstu þrjú árin.
4. Hreinsun gatna. Þegar íbúar færi bíla sína fyllist þau stæði gjarnan af bílum gesta og starfsfólks í miðborginni svo lítið verður úr götuþrifum. Mögulegt úrræði er að þrífa 3-5 götur einn daginn og aðrar 3-5 götur næsta dag og svo koll af kolli.
5. Rútuferðir í miðbænum. Borgarstjórn hefur fjallað um málið og munu samtökin taka þátt í mótun þeirrar stefnu í vor.
Í kynningu borgarstjóra á opnum hverfafundi fyrir íbúa miðborgar 6. apríl sl. kom ýmislegt jákvætt fram sem telja má að sé meðal annars að þakka baráttu ÍMR fyrir bættu hverfi. Þar má nefna lækkun umferðarhraða í nokkrum götum hverfisins og að borgin mun vinna að því að draga enn frekar úr akstri langferðabíla í hverfinu.
Fjármál
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) fengu tvo styrki úr Hverfissjóði, annars vegar 300.000 kr. styrk til að halda síðsumarhátíð, sem til stóð að halda 28. ágúst sl., og hins vegar 450.000 kr. til að halda málþing um sambýlið við næturlífið (september) og börnin í miðbænum (nóvember eða eftir áramót). Umræðuefni þess síðarnefnda skyldi m.a. vera leiksvæði (t.d. lokaðir smábarnaleikvellir), opin svæði, almenningsgarðar, gönguleiðir barna í skóla, hjólaleiðir innan hverfisins og rafskutlur.
Skemmst er frá því að segja að ekki var hægt að halda neinar uppákomur vegna heimsfaraldursins og því hefur styrkurinn ekki verið nýttur. Samkvæmt reglum borgarinnar má ekki færa ónýtta styrki milli ára en stjórninni var bent á að hægt væri að senda beiðni um undanþágu frá reglunni. Beiðnin var send til Hverfissjóðs og hún tekin til umfjöllunar 26. apríl sl. en hefur ekki enn verið afgreidd. Því hefur ekki verið úr því skorið hvort skila þurfi fénu eða hvort nýta megi það í maí eða júní, til fyrirhugaðra verkefna.
Sótt var um rekstrarstyrk til borgarinnar til að halda úti hefðbundinni starfsemi samtakanna og fékkst styrkur að upphæð 100.000 kr. sem er hámarksstyrkur.
Til að bæta upplýsingagjöf við íbúa þarf að uppfæra heimasíðu samtakanna. Síðan er 20 ára gömul og barn síns tíma. Til þess vantar fjármagn sem fæst ekki frá borginni og rekstrarstyrkurinn dugar ekki til.
Lokaorð
Ég vil þakka stjórn íbúasamtakanna fyrir gott og skemmtilegt samstarf í vetur. Loks hvet ég íbúa til að láta vita af því sem betur má fara og því sem vel er gert. Vinnum saman að betri borg.
Reykjavík 28. apríl 2022
Sigrún Tryggvadóttir
Tilbaka
|
Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni
|