ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur ÍMR 2021

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar árið 2022 var haldin í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur 2. mars 2021 kl. 18. Fyrir fundinn lék Kári Egilsson á píanó og Vilborg Halldórsdóttir flutti ljóð. Formaður Benóný Ægisson hóf fundinn og kallaði eftir samþykki fundarins við fundarstjórn Einars Arnar Thorlacius og að ritari yrði Guðrún Erla Geirsdóttir, þau voru samþykkt. Aðalfundur var löglega boðaður.

Gengið var til dagskrár:

1. Skýrsla stjórnar: Formaður, Benóný Ægisson kynnti starfsemi samtakanna frá haustinu 2019 og skýrði frá að ekki hefði verið hægt að halda aðalfund ársins 2020 vegna samkomutakmarkana vegna kóvidfaraldursins. Hann gerði síðan grein fyrir tilgangi og markmiðum Íbúasamtakanna, stjórn og störfum frá síðasta aðalfundi t.d. ályktunum og störfum samtakanna. Að lokum þakkaði formaður öllum sem komið hefðu að starfinu þau 12 ár sem hann hefði setið í stjórn þeirra. Skýrslu stjórnar er að finna hér.

2. Reikningar: Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram. Samþykktir samhljóða. Sjá rekstrarreikning hér.

Boðið var upp á fyrirspurnir úr sal vegna 1. og 2. liðar. Fundarstjóri þakkað fyrrverandi formanni vel unnin störf.

3. Formannskjör: Benóný Ægisson gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Arnar Guðmundsson bauð sig fram og kynnti sig. Hann var sjálfkjörinn.

4. Stjórnarkjör: Kynnt var að nú ljúki kjörtímabili Guðrúnar Janusdóttur (gjaldkeri), Guðrúnar Erlu Geirsdóttur (ritari), Ragnhildar Zoega (varaformaður), Vilborgar Halldórsdóttur og Kára Sólmundarsonar.

Guðrún Erla bauð sig fram til áframhaldandi setu og auk hennar voru kosin í stjórn Ásdís Káradóttir, Pétur H Jónsson, Sigrún Tryggvadóttir og sem varamaður Sigurður Sigurðsson.

Stjórn skipa: Arnar Guðmundsson (formaður), Ásdís Káradóttir, Eva Huld Friðriksdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Pétur H Jónsson og Sigrún Tryggvadóttir. Varamenn: Einar Thorlacius, Magnús Skúlason, Páll Hilmarsson og Sigurður Sigurðsson.

Skoðunarmenn reikninga voru samþykktir; Benóný Ægisson og Ragnhildur Zoega

5. Lagabreytingar: Guðrún Erla Geirsdóttir lagði til að 5. grein samtakanna verði: Aðalfund skal halda í apríl ár hvert. Í stað: Aðalfund skal halda að hausti ár hvert.

Greinargerð: Starfsemi Íbúasamtakanna er mun meiri yfir vetrartímann en að sumri. Með því að breyta 5. grein, þannig að ný stjórn taki við að vori, gefst henni góður tími til að vinna að undirbúningi vetrarstarfsins. Samþykkt samhljóða.

6. Önnur mál:

A. Vilborg Halldórsdóttir flutti tillögu að ályktun um ábyrgð hundaeigenda á úrgang hunda sinna. Hundahald hefur aukist og að sama skapi vandi vegna hundaskíts. Samþykkt samhljóða að senda borginni eftirfarandi ályktun:

Undanfarin misseri hefur hundum fjölgað mikið í Reykjavík. Skiptar skoðanir eru um það en aðalfundur íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við þessa fjölgun. Enda veita hundar eigendum sínum vafalaust mikla ánægju og félagsskap og viðhorf til þessara mála hafa tekið breytingum undanfarin ár.

Fram kemur í 13.gr. gildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík (nr.478/2012) að hundaeigendum sé ávallt skylt að fjarlægja skít eftir hund sinn. Á þessu er því miður talsverður misbrestur og þetta hefur aukist vegna þess að hundum hefur fjölgað.

Fram kemur í samþykktinni að þeir sem brjóta gegn henni geti þurft að sæta afturköllun leyfis. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur geti ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að framfylgja samþykktinni og að hægt sé að dæma hundaeigendur í sektir fyrir brot sín.

Aðalfundur íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur leggur ekki til að svo stöddu að farið verði í strangar lögregluaðgerðir og sektir gagnvart hundaeigendum sem þetta trassa. En fram hefur komið í fréttum að nú standi til miklar breytingar á regluverki í kringum hunda hjá Reykjavíkurborg sem verður sjálfsagt kynnt opinberlega fljótlega. Aðalfundur íbúasamtakanna skorar á borgaryfirvöld til að tækifærið verði notað og efnt jafnframt til áróðursherferðar þar sem hundaeigendur eru hvattir til að fjarlægja ávalt skít frá hundum sínum. Hafa verður í huga að úrgangi frá hundum á gangstéttum borgarinnar og annars staðar getur fylgt sýkingarhætta.

B. Pétur Jónsson lagði til að Íbúasamtökin sendu frá sér ályktun þar sem minnt væri á menningar- og sögulegu mikilvægi Austurbæjarskóla (s.b. auglýsingu borgarinnar um starf skólastjóra fyrir nokkrum árum). Fundurinn fól stjórn að semja ályktun og koma henni á framfæri við borgaryfirvöld og aðra sem málið varðar.

C. Ása Hauksdóttir hvatti nýja stjórn til að halda áfram að vinna að því að finna lausn á því hvernig íbúum við göngugötur væri tryggt aðgengi fyrir bíla með fatlaða og aldraða gesti, sem og vegna búferlaflutninga og aðkomu með stóra hluti að húsum sínum. Nú fylgdi ,,afnotaleyfi” allt of miklar bréfaskriftir.

D. Ása vakti athygli á að tillögur sem nú lægju frammi að útliti göngugatna miðborgarinnar væru í engu samræmi við okkar gamla miðbæjarkjarna. Sumar þeirra væru það nútímalegar að þær hentuðu fremur í Smáralind. Vilborg Halldórsdóttir ræddi um að skilgreina þyrfti ,,Sögulega miðju” borgarinnar og að fagurfræði og samræmis þyrfti að gæta í öllum nýjum framkvæmdum í Miðborginni.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is