ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Skýrsla Stjórnar ÍMR 2021

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar sem var haldinn í Ráðhúsinu 2. mars 2021.

Íbúasamtök Miðborgar
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (skammstafað ÍMR) er félag íbúa í Miðborginni eins og hún hefur verið afmörkuð sem hverfi á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallavegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þessu svæði og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins.

Markmið
Tilgangur samtakanna og markmið er að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins og starfa með Íbúaráði Miðborgar og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess og íbúasamtökum annarra hverfa.

Stjórn ÍMR
Síðasti aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var haldinn 17. október 2019 en ekki var hægt að halda aðalfund árið 2020 vegna sóttvarnarreglna. Eftirtaldir skipuðu stjórn síðasta ár: Benóný Ægisson formaður, Ragnhildur Zoega varaformaður, Guðrún Erla Geirsdóttir ritari, Guðrún Janusdóttir gjaldkeri og Eva Huld Friðríksdóttir, Margrét Einarsdóttir og Vilborg Halldórsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Einar Örn Thorlacius, Kári Sölmundarson, Magnús Skúlason og Páll Hilmarsson. Úr stjórn eiga að ganga í dag Vilborg, Kári, Guðrún Janusdóttir, Guðrún Erla, Ragnhildur og undirritaður sem mun láta af 11 ára stjórnarsetu í samtökunum.

Starfið
Starf ÍMR felst aðallega í því að gæta hagsmuna íbúa miðborgarinnar og felst meðal annars í upplýsingagjöf til þeirra en ÍMR heldur úti Facebook síðu og vefnum www.midbaerinn.is með upplýsingum um fundi, störf stjórnar, uppákomur og fleira. Einnig gáfu Íbúasamtökin út fréttabréf sem borið var út með hverfisblaðinu, Miðborg og Hlíðar síðasta haust. Stjórn ÍMR ályktar og sendir frá sér ábendingar um ýmislegt sem varðar búsetu í miðbænum og stendur fyrir ýmsum verkefnum sem miða að því að bæta miðbæinn sem íbúahverfi. Þá kemur ÍMR að rekstri Spennistöðvarinnar, félags- og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar og ÍMR á fulltrúa og áheyrnarfulltrúa með tillögurétt í ýmsum nefndum og starfshópum Reykjavíkurborgar.

Kófið, kófið!
Það þarf auðvitað ekki að segja neinum hér að síðasta ár hefur verið sérstakt á margan hátt og það hefur komið niður á starfi samtakanna eins og öðru. Spennistöðin hefur verið okkur lokuð í tæpt ár og það hefur verið samkomubann og því höfum við ekki getað staðið fyrir málþingum og öðrum uppákomum eins og við höfum gert mánaðarlega frá því Spennistöðin opnaði 2014 og ekki tókst að halda aðalfund á síðasta ári. Stjórnin hefur þó haldið áfram sínu starfi á fjarfundum en auðvitað hafa tengsl okkar við grasrótina rofnað að einhverju marki vegna þessa ástands. Einungis tvær uppákomur hafa verið á vegum Íbúasamtakanna á tímabilinu, annarsvegar hugflæðifundur um bætta verslun og þjónustu við íbúana í miðbænum í nóvember 2019 en hinsvegar Skammdegisgleði í febrúar 2020 þar sem á annað hundrað manns litu við í Spennistöðinni, hlustuðu á Kára Egilsson og Skólahljómsveit Vestur og Miðbæjar, dönsuðu salsa, bjuggu til teikninmyndabækur og þáðu veitingar.

Ályktanir og starf stjórnar ÍMR
Skipulagsmál eru alltaf fyrirferðarmikill þáttur í starfi stjórnar ÍMR og við höfum ályktað um deiliskipulagsbreytingar á Frakkastígsreit á horni Laugavegar og Vatnsstígs þar sem við höfum mótmælt því að tvö gömul hús eiga að víkja og við höfum mótmælt því að sjö hæða íbúðarhús rísi á horni Frakkastígs og Skúlagötu. Þá hefur stjórn ÍMR gert athugasemd við breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna sértækra búsetuúrræða en stjórninni fannst andi breytingatillögunnar óásættanlegur en hann var sá að auka hraða og sveigjanleika þess að gefa út heimildir, gera það valkvætt fyrir skipulagsyfirvöld að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar og gera það kleift að fara í framkvæmdir án samráðs við nærsamfélagið í ákveðnum tilfellum. Einnig ályktaði stjórnin um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar en hún taldi að spurningin sem leggja átti fyrir kjósendur væri of leiðandi og að tillagan væri aðför að skipulagsvaldi sveitarfélags. Við vöktum athygli á því að í miðborg Reykjavíkur eru tugir húsa sem ekki eru nýtt og hafa sum þeirra staðið auð og vanrækt í áratugi. Ástand margra þessara húsa er með þeim hætti að af þeim stafar hætta, umhverfi þeirra er subbulegt og óheilsusamlegt og ítrekað hefur kviknað í þeim og hefur það sett nærliggjandi byggð í hættu.

Við skoruðum á hlutaðeigendur að finna lausn á vandræðum eina miðbæjarbíóhússins svo því yrði ekki lokað og því máli lauk á farsælan hátt og Bíó Paradís gekk í endurnýjun lífdaga. Í framhaldi af bréfi okkar til borgarráðs var farið í að endurskoða reglur bílastæðasjóðs, rýmka heimildir til að fá íbúakort og gera reglurnar nútímalegri og einnig er verið að vinna í því að finna leið fyrir íbúa göngugatna til að koma aðföngum að húsum sínum. Stjórn ÍMR mótmælti einnig þeim fyrirætlunum að gera Íslenskuver fyrir erlend börn í risi Vitastígsálmu Austurbæjarskóla sem Hollvinasamtök Austurbæjarskóla hafa nú til afnota fyrir skólamunasafn. Aðgengi er slæmt að þessu rými, flóttaleiðir langar og það stenst ekki nútímakröfur um skólahúsnæði barna.

Einnig hefur stjórn verið tíðrætt um garða, leiksvæði og opin svæði í miðborginni og möguleika til að gera þau fjölbreyttari og skemmtilegri. Einkum hefur verið rætt um samstarf íbúa, listamanna, hönnuða og borgarinnar um slík verkefni og er það von mín að framhald verði á þeirri umræðu. Íbúasamtök Miðborgar hafa frá stofnun samtakanna beitt sér fyrir því að bæta aðstöðu barna og unglinga í hverfinu yfirleitt í samstarfi við Foreldrafélag Austurbæjarskóla. Félögin hafa komið því til leiðar að leiksvæðið við Austurbæjarskóla var stórbætt og að fyrsta félagsmiðstöð miðbæjarins var opnuð í Spennistöðinni 2014, fjörutíu árum eftir að fyrsta félagsmiðstöðin í Reykjavík opnaði. Á síðustu fundum stjórnar Íbúasamtakanna hefur mikið verið fjallað um leiksvæði og almenningsrými í miðborginni en á þeim mörgum mætti gera bragarbót. Á sumum þessara svæða skortir viðhald og umönnun og virðist lítið eftirlit með þeim sumum hverjum. Nokkur svæði mætti vel gera skemmtileg með fremur litlum tilkostnaði en miklu ímyndunarafli og sköpunarkrafti.

Íbúaráð
Tíu hverfisráð voru starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og voru þau skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar sátu í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Sú gagnrýni var orðin hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Skipun íbúaráða með jafnmörgum kjörnum fulltrúum og fulltrúum íbúa var því mikið framfaraskref en þrír kjörnir fulltrúar eru í ráðunum, tveir fulltrúar íbúa koma frá grasrótarsamtökum, íbúasamtökum og foreldrafélögum og einn er slembivalinn. En af einhverjum undarlegum ástæðum voru hverfin Miðborg og Hlíðar spyrt saman en höfðu áður sitthvort hverfisráðið. Þá var ekki lengur tryggt að íbúasamtök sem störfuðu með lýðræðislegum hætti í hverfunum ættu sæti í íbúaráðunum. Tvenn stór íbúasamtök starfa í þessum hverfum, Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur og Íbúasamtök 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar og mótmæltum formenn þeirra beggja þessari breytingu því hverfin væru ólík og ættu mismunandi hagsmuna að gæta. Staðan var því sú að síðasta ár sat ég í ráðinu sem fulltrúi íbúasamtaka en um áramótin vék ég og formaður íbúasamta 3. hverfis tok við. Við eigum því ekki lengur fulltrúa í íbúaráðinu sem er afleit staða og við höfum mælst til þess að þessu verði breytt þannig að íbúaráðin verði tvö því núverandi fyrirkomulag er ótækt. Við höfum átt gott samstarf við Íbúasamtök 3. hverfis í gegnum tíðina og gerum ráð fyrir að svo verði áfram en þessi félög eiga óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Ókostir fyrirkomulagsins eru margir, við getum illa fylgt eftir málum og við erum ekki lengur umsagnaraðilar um ýmis mál eins og til dæmis hvaða verkefni verða valin í verkefnið Hverfið mitt.

Fjármál
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) fengu tvo styrki úr Hverfissjóði, 750.000 króna styrk í upphafi árs til að standa straum af kostnaði við verkefnið Heil brú og til reksturs samtakanna og 450.000 kr síðsumars til að halda haustblót. Til þessara verkefna fóru 648.068 kr en eftirstöðvunum 551.932 kr var skilað að kröfu Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Vegna ástæðna sem öllum eru kunnar hefur starfsemi ÍMR verið hálflömuð þetta árið. Ekki var hægt að halda úti starfsemi í Spennistöðinni, félags- og menningarmiðstöð miðborgarinnar vegna samkomubanns og því ekki hægt að halda nema eina uppákomu í Heilli brú en reynt var að bæta ástandið með öflugari upplýsingagjöf til íbúanna. Þegar stjórn ÍMR sá í hvað stefndi á árinu fór hún fram á það við Íbúaráð Miðborgar og Hlíða að fá að breyta notkun á hluta styrkfjárins á þann hátt að það yrði notað til að nútímavæða vef samtakanna midbaerinn.is, endurskipuleggja hann og gera hann snjalltækjavænan en vefurinn var gerður 2009 og því barn síns tíma. Vefurinn er Íbúasamtökunum sérstaklega mikilvægur því hann geymir sögu samtakanna, fundargerðir, ályktanir og í raun allt sem ÍMR hefur gert og er án efa einstakur í sinni röð og afar mikilvægur þegar árar eins og núna. Mannréttindaskrifstofan gaf þá umsögn að það að breyta vefnum væri hluti af rekstri samtakanna jafnvel þó þarna væri um einstakt verkefni að ræða en rekstur má ekki styrkja um meira en 100.000 sem er rétt ríflega helmingur af rekstrarfénu sem gömlu hverfisráðin veittu. Á grundvelli umsagnar Mannréttindaskrifstofu hafnaði Íbúaráðið umsókn ÍMR um breytta notkun og í kjölfarið voru Íbúasamtökin krafin um endurgreiðslu styrkjanna en því var einnig hafnað að fá að geyma þá þangað til betur áraði. Undirrituðum finnst það umhugsunarvert að skrifstofa sem kennir sig við mannréttindi og lýðræði skuli með þessum hætti leggja sína dauðu hönd á grasrótarstarf íbúasamtaka.

Undirritaður hefur barist lengi fyrir því að fá fasta fjárveitingu til reksturs Spennistöðvarinnar svo starfsemi Íbúasamtakanna þar þurfi ekki að treysta á styrki úr ýmsum sjóðum. Spennistöðin er eina íbúahúsið í Reykjavík og slíkar stofnanir eru styrktar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Ég hef talað þar fyrir dauðum eyrum borgaryfirvalda og borgarstjóri er hættur að nenna að svara þessu kvabbi mínu en ég vona að næsti formaður taki við keflinu og verði meira ágengt enda er hér ekki um háar upphæðir að ræða.

Lokaorð
Þá er komið að kveðjustund því ég hyggst ekki gefa kost á mér áfram í stjórn enda hef ég setið þar í ellefu ár, næstum allan starfstíma samtakanna. Ég vil því nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem ég hef unnið með í gegnum tíðina, stjórnum, samstarfsaðilum og íbúum og ég óska Íbúasamtökunum velfarnaðar í framtíðinni en Íbúasamtök Miðborgar eru mikilvægt afl til hagsmunagæslu fyrir íbúana. Og hér koma hin frægu lokaorð: Það er gott að búa í miðbænum.

Reykjavík 2. mars 2021
Benóný Ægisson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is