ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Lög Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur

1.grein
Heiti félagsins og varnarþing

Félagið heitir Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur. Varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. grein
Félagssvæðið

Samtökin eru félag íbúa í Miðborginni eins og hún hefur verið afmörkuð sem hverfi á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallavegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á svæðinu og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins.

3. grein
Markmið

Tilgangur samtakanna og markmið er eftirfarandi:

  • Að efla samhug og samkennd íbúa,
  • að vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu,
  • að vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu,
  • að standa vörð um sérkenni hverfisins,
  • að starfa með Hverfisráði Miðborgar og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess og
  • að eiga samstarf við íbúasamtök annarra hverfa.

4. grein
Stjórn félagsins

Stjórn samtakanna skipa sjö menn: formaður, varaformaður, ritari, vararitari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Að auki eru fjórir varamenn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Henni er heimilt að kjósa framkvæmdanefnd úr sínum hópi og skilgreina umboð nefndarinnar.

Stjórn er kjörin á aðalfundi. Stjórnarmenn aðrir en formaður skulu kjörnir sameiginlega og ræður afl atkvæða. Kjör skal óbundið en tilnefningar eru heimilar.

Formaður samtakanna er fulltrúi þeirra og félagsstjórnar út á við.

Stjórn fer með málefni samtakanna á milli félagsfunda.

5. grein
Aðalfundur

Aðalfund skal halda í apríl ár hvert.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Til aðalfundar skal boða alla félagsmenn með tryggilegum hætti. Hann skal einnig boða með auglýsingu í fjölmiðlum eða með bréfi sem dreift er um félagssvæðið með minnst fjórtán daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  • 1. Skýrsla stjórnar um störf samtakanna og nefnda á liðnu starfsári.
  • 2. Endurskoðaðir reikningar samtakanna.
  • 3. Kosning formanns til tveggja ára.
  • 4. Kosning þriggja manna í stjórn og tveggja varamanna til tveggja ára.
  • 5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  • 6. Breytingar á samþykktum samtakanna ef þeirra hefur verið getið í fundarboði.
  • 7. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
  • 8. Vinnuhópar.
  • 9. Verkefni næsta árs.
  • 10. Önnur mál.

6. grein
Félagsfundir

Félagsfundi skal halda þegar ástæða þykir til.

Stjórn félagsins er skylt að boða til félagsfundar ef minnst 25 félagsmenn óska eftir því skriflega og fram kemur dagskrárefni.

Félagsfund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara.

Heimilt er að boða til fundar með skemmri fyrirvara ef nauðsyn krefur.

Félagsfundur er lögmætur og ályktunarfær ef félagsmenn hafa verið boðaðir til hans bréflega eða með öðrum tryggilegum hætti og með auglýsingu í fjölmiðlum.

Dagskrá fundar skal getið í fundarboði.

Ákvarðanir lögmætra félagsfunda um málefni félagsins eru bindandi fyrir stjórn félagsins. Þar ræður afl atkvæða úrslitum með þeim takmörkunum sem samþykktir og reglur félagsins kveða á um.

Heimilt er stjórn félagsins að boða til funda með félagsmönnum á afmörkuðum svæðum þar sem fjallað er sérstaklega um mál þeirra. Við boðun slíkra funda skal gæta ákvæða um fresti og dagskrá hér að framan.

Stjórn samtakanna og félagsfundum er heimilt að skipa starfshópa og fela þeim verkefni eftir nánari fyrirmælum hverju sinni.

7. grein
Fjármál

Samtökin eru ekki rekin í fjárhagslegum tilgangi. Tekjur þess eru gjafir, framlög og styrkir. Kostnað af rekstri samtakanna og starfsemi þess skal greiða úr sjóðum þess. Stjórn samtakanna ber ábyrgð á eignum þess og sér um að ávaxta sjóði þess á sem tryggastan hátt.

Gjaldkeri samtakanna og formaður bera ábyrgð á fjárreiðum þeirra

Reikningsár samtakanna er á milli aðalfunda.

8. grein
Breytingar á samþykktum samtakanna

Samþykktum þessum verður einungis breytt á aðalfundi enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.

9. grein
Slit á samtökunum

Samtökunum verður ekki slitið nema á aðalfundi og að 2/3 hluti fundarmanna samþykki það. Auðir og ógildir seðlar teljast þá ekki með.

Verði samþykkt að leggja samtökin niður skal varðveita eignir þess í banka þar til annað félag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 5. gr. 4. tölul. skal á aðalfundi samtakanna haustið 2008 kjósa þrjá menn í stjórn til eins árs og þrjá til tveggja ára. Einnig skal kjósa tvo varmann í stjórn til eins árs og tvo til tveggja ára.


Samþykkt á aðalfundi Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur sem haldinn var í Iðnó 19. nóvember 2008.
5. gr. um aðalfundartíma breytt á aðalfundi 2. mars 2021.



Gömul mynd

Gamla myndin er af Bankastræti í kringum aldamótin 1900. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is