ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Skýrsla Stjórnar ÍMR 2023

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar í Spennistöðinni við Austurbæjarskóla 27. apríl 2023 kl. 20:00.

ÍMR er félag íbúa í Miðborginni og hverfið afmarkað á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallarvegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þessu svæði og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins. Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur voru stofnsett á fundi í Iðnó 11. mars 2008 og íbúar á svæðinu eru nú 10.637.

Tilgangur samtakanna og markmið er að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins og starfa með Íbúaráði Miðborgar og Hlíða og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess, sem og íbúasamtökum annarra hverfa.

Síðasti aðalfundur var haldinn í Spennistöðinni 28. apríl 2022. Þá var Sigrún Tryggvadóttir kjörinn nýr formaður. í stjórn voru kjörin þau, Birna Eggertsdóttir og Óttar Makuch. Varamenn voru kjörnir, Holberg Másson og Matthildur Skúladóttir.

Stjórn 2022-2023: Sigrún Tryggvadóttir formaður, Ásdís Káradóttir varaformaður, Guðrún Erla Geirsdóttir ritari, Margrét Einarsdóttir gjaldkeri , Óttarr Makuch vararitari, Birna Eggertsdóttir og Pétur H. Jónsson meðstjórnendur. Varamenn: Holberg Másson, Matthildur Skúladóttir, Bjarni Agnarsson og Sigurður Sigurðsson.

Skoðunarmenn reikninga eru Guðlaug Björnsdóttir og Einar Örn Thorlacius.

Samkvæmt lögum félagsins skulu varamenn stjórnar vera fjórir. Vegna mistaka láðist að kjósa þann fjórða á síðasta aðalfundi. Samþykkt að kalla til Bjarna Agnarsson til að fylla það skarð. Óttar og Matthildur sögðu sig úr stjórn á starfsárinu.

Samkvæmt lögum félagsins eru stjórn og varamenn kjörnir til tveggja ára og því lýkur nú tveggja ára kjörtímabili þeirra Ásdísar Káradóttur, Guðrúnar Erlu Geirsdóttur og Péturs H. Jónssonar og varamannsins Sigurðar Sigurðssonar.

Ályktanir og starf stjórnar ÍMR

Stjórnin hélt 10 fundi á árinu og allar fundargerðir er að finna á heimasíðu félagsins: midbaerinn.is.

Stjórnin hefur sent frá sér ályktanir um ýmislegt sem betur má fara í hverfinu og lagt fram tillögur að ýmiss konar nýbreytni.

Ónæði vegna veitinga- og skemmtistaða

Á síðasta aðalfundi var samþykkt tillaga um viðbrögð við ónæði íbúa í miðbænum vegna hávaða frá skemmtistöðum. Hún er svohljóðandi:

Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) lítur hávaða og ónæði vegna veitinga- og skemmtistaða í miðbænum alvarlegum augum. Aðalfundurinn skorar á borgarstjórn að verja rétt íbúanna til þess að hafa svefnfrið um nætur en skv. 4. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg er bannað að hafast nokkuð það að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna.

Samkvæmt 26. gr. lögreglusamþykktarinnar ber þeim sem reka veitinga- eða skemmtistaði að sjá um að allt fari þar vel fram og valdi ekki nágrönnum eða vegfarendum ónæði. Íbúasamtökin óska eftir samtali um hvað er til ráða.

Ályktununin var lögð fyrir Íbúaráð Miðborgar og Hlíða 25. maí 2022. Samþykkt að vísa ályktun íbúasamtaka Miðborgar til Samstarfshóps um málefni Miðborgar.

Samráðshópur stofnaður sem leitar lausna á hávaða í miðborginni með fulltrúum íbúa, borgarfulltrúum og Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT).

Göngugötur

Á aðalfundi kom einnig fram tillaga um að vísa því til stjórnar að fjalla um aðgengi íbúa við göngugötur að heimilum sínum og jafnvel að íbúar fái einhvers konar skilríki til að færa sönnur á búsetu sína. Málið var sent til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og og til samstarfshóps um málefni Miðborga sem fjallaði um málið og vísar á síðuna Göngugötur á vef Reykjavíkurborgar.

Stækkun á bílastæðasvæðum

Ályktun send til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða að fyrirhugaðar stækkanir gjaldsvæða í Miðborginni.

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur mótmæla stækkun gjaldsvæðis og hækkun á verði bílastæða í miðbænum, sem er fjárhagslega íþyngjandi fyrir fjölskyldur í hverfinu. Íbúar í öðrum hverfum borgarinnar þurfa ekki að þola slíkar álögur. Samtökin lýsa því yfir áhyggjum af aukinni gjaldskyldu og óska eftir að komið verði á móts við íbúa miðbæjarins, t.d. með því að lækka verð á bílastæðakortum.

Veggjakrot

Fjallað var um veggjakrot í Miðbænum og erindið sent til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og málin rædd á fundum í september og október. Reykjavíkurborg er með síðu um veggjakrot á netinu þar sem almenningur getur haft samband ef krotað er.

Umferðaröryggi

Málefni barna á leið í skóla og tónlistarskóla voru enn til umræðu hjá ÍMR. Helstu atriði sem fjallað hefur verið um eru öryggi skólabarna á leið í Austurbæjarskóla, lýsing og rútur og aðrir stórir bílar í hverfinu. Málið hefur ítrekað verið sent til til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og í október var fjallað v/umferðarhraða á Hverfisgötu. En mælingar sýndu að 53% ökutækja mældust á hraða yfir 30 km/klst. Íbúaráð fjallaði enn um umferðaröryggi íbúa í kjölfar dauðaslyss á Barónsstíg og á fundi í desember var eftirfarandi sent til umhverfis og skipulagsráðs:

Fundur íbúaráðs Miðborgar og Hlíða 15. desember: Erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða dags. 8. desember 2022 til umhverfis- og skipulagsráðs um umferðaröryggi og akstur stærri ökutækja í miðborginni. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða hefur margsinnis rætt um umferðaöryggi og um akstur stærri ökutækja í miðborginni. Ráðið sendi erindi til skipulags- og samgönguráðs um umferðaöryggi í upphafi árs, þar sem vakin var athygli á hættulegum gatnamótum, þ. á m. ýmis gatnamót við Barónsstíg. Lagt var til að haft yrði samráð við íbúaráðið vegna endurskoðunar á akstursfyrirkomulagi stærri ökutækja í miðborginni. Samráð hefur enn ekki hafist og vill íbúaráðið ítreka mikilvægi þess að sú vinna hefjist án frekari tafa. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur til að stækkun bannsvæðis hópbifreiða afmarkist við Snorrabraut og Gömlu-Hringbraut. Það er einlægur vilji íbúa í Miðborginni og foreldra barna við Austurbæjarskóla, Barónsborg, Grænuborg og Laufásborg. Akstur þessara bifreiða við leiksvæði barna og þar sem börn eru á leið í og úr skóla er stórhættuleg. Þá er mikil hætta þar sem hraðatakmarkanir eru ekki virtar á Barónsstíg. Þann 27. október 2022, barst umsögn frá samgöngustjóra við erindi íbúaráðsins. Í svarinu segir m.a. að ekki hafi verið tilefni til að forgangsraða aðgerðum á þeim stöðum sem íbúaráðið nefndi framar öðrum stöðum. Íbúaráð Miðborgar- og Hlíða telur brýnt að sú afstaða verði endurskoðuð, m.a. vegna nýlegs banaslyss við Barónsstíginn. Miðborgin er ólík öðrum hverfum borgarinnar að því leyti að þar er mikill fjöldi gangandi og hjólandi vegfaranda, í bland við akstur stærri hópferðabifreiða.

Í lok mars var fulltrúum frá ÍMR boðið á fund Reykjavíkurborgar með hagsmunaaðilum þar sem umræðuefnið var akstur hópferðabifreiða í Miðborginni. Auk fulltrúa ÍMR úr miðborg, voru fulltrúar frá Foreldrafélagi Austurbæjarskóla og frá Leikskólanum Grænuborg við Hallgrímskirkju.

Það sem við komum á framfæri er að tryggja öryggi íbúa, og þar ekki síst skólabarna sem eru gjarnan á leið til skóla á háannatíma hópferðabílana. Að akstursleiðum og safnstæðum fyrir hópferðabíla í miðborginni yrðu færð frá Hallgrímskirkju og Ráðhúsinu og akstur hópferðabíla væri ekki leyfð um Barónsstíg og Njarðargötu.

Jafnframt að minni hópferðabílarnir séu minna inni í hverfunum heldur en áður var. „Einnig kom fram áhugaverður punktur um að ferðafólk vilji hitta Íslendinga, en þetta er atriði sem mögulega gleymist oft.“ Fram kom að taka skuli tillit til allra hagsmunaaðila en íbúar eigi þó að vera í fyrsta sæti. Leitað verður liðsinnis fundargesta við frekari úrvinnslu, í minni hópum eða hverjum í sínum lagi, eftir því sem henta þykir.

Snjómokstur

Rætt um að mikil vandræði hafi skapast á síðustu vikum vegna snjókomu og frosts. Starfsfólk Borgarinnar hafi ekki staðið sig í hreinsun gatna og gangstétta. Einnig vanti upp á að fyrirtæki og íbúar leggi sitt af mörkum. Rætt um hálkuslys og kostnað samfélagsins vegna þeirra. Samanburður við nágrannasveitafélögin sé ekki jákvæður. Samþykkt að senda bréf til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og fara fram á að aftur verði komið fyrir sand- og saltkistum í Miðborginni og fjölga þeim frá því sem áður var. Auk þess að spyrjast fyrir um hver sé stefna Borgarinnar varðandi hitavatnslagnir í gangstéttum, svo sem þegar verið er að leggja nýjar stéttar í stað eldri. Á fundi Íbúaráðs var samþykkt að fela formanni í samvinnu við ráðið að koma á framfæri ábendingum um snjómokstur í hverfinu.

Sorphirða

Vandræði hafa verið vegna ónógrar sorphirðu í hverfinu, t.d. sökum þess að að tæma þurfi tunnur oftar í kringum hátíðar. Samþykkt að fara fram á greinargóða kynningu á nýjum lögum og reglum um sorphirðu og flokkun sorps hjá íbúum. Jafnframt að mótmæla ef fækka eigi grenndargámum. Þvert á móti þurfi að fjölga þeim í þessari þéttustu byggð landsins.

Samstarf ÍMR

ÍMR á fast sæti í Íbúaráði Miðborgar og Hlíða sem fundar einu sinni í mánuði frá september til júní. Íbúaráð voru innleidd í Reykjavík haustið 2019. Og eru samstarfsvettvangur kjörinna fulltrúa, íbúsamtaka og foreldrafélaga hverfanna.

ÍMR á fast sæti í Samstarfshópi um málefni Miðborgar.

ÍMR tekur þátt í myndun bakhóps Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Fyrsti fundur verður í maí 2023. Aðilar að bakhópi eru íþróttafélög, Foreldrafélag Austurbæjarskóla, Samtök veitingahúsaeigenda, leikskólar og Vesturmiðstöð Laugavegi 77 (fer meðal annars fram velferðarþjónusta við íbúa, skólaþjónusta við  leik- og grunnskóla auk daggæslu- og frístundaráðgjafar).

Viðburðir ÍMR í Spennistöðinni

Síðsumarhátíð 27. ágúst 2022. Hátíðin var vel mjög sótt og börn, unglingar og foreldrar skemmtu sér vel. Veltibíll, húlla-skemmtiatriði, flugdrekasmíði og ísveisla var allt mjög vinsælt og virk þátttaka í því sem boðið var upp á.

Málþing um „Sambýlið við næturlífið“ 3. nóvember 2022. Þingið var vel kynnt og ágætlega sótt. Nokkrir íbúar og fulltrúar lögreglu og heilbrigðiseftirlits tóku til máls, auk framkvæmdastjóra Betri svefns og sátu í pallborði. Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs

boðaði komu sína en mætti ekki og olli það vonbrigðum. Málefnið er bæði á borði hjá ríki og borg. Útgáfa veitingaleyfa og endurnýjun þeirra er í höndum Heilbrigðiseftirlits borgarinnar (svo virðist sem starfsfólk eftirlitsins starfi aðeins í dagvinnu) en ríkinu, þ.e. lögreglu, ber að sjá um að farið sé að lögum. Í ljós kom að tilfinnanlega vantar samhæfingaraðila sem hefði yfirsýn yfir mál sem varða veitingastaði og veitingaleyfi og að lög um hávaða bæði á veitingastöðum og á götum úti séu ekki brotin.

Fjölmenningarleg vetrarhátíð 5. mars 2023. Fólk af ólíkum uppruna var fengið til að troða upp, dagskráin var fjölbreytt og höfðaði til íbúa á öllum aldri. Ætla má að á annað hundrað manns hafi komið á hátíðina, auk þeirra sem komu fram og stöldruðu svo við til að gæða sér á veitingum og njóta annarra atriða.

Lokaorð

Ég hvet íbúa til að hafa áhrif á hverfið sitt. Margar hendur vinna létt verk.

Reykjavík, 27. apríl 2023.

Sigrún Tryggvadóttir formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is