ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Skýrsla Stjórnar 2017

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar var haldinn í Spennistöðinni þann 29. september.

Síðasti aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var haldinn 30. apríl 2016 og eftirtaldir skipuðu stjórn síðasta ár: Benóný Ægisson formaður, Einar Örn Thorlacius ritari, Guðrún Janusdóttir gjaldkeri, Guðrún Erla Geirsdóttir, Gunnar B. Ólason, Hlynur Johnsen og Ragnhildur Zoega meðstjórnendur. Varamenn voru: Anna Guðrún Björnsdóttir, Birgitta Bára Hassenstein og Hlín Gunnarsdóttir. Einar Örn, Hlynur, Gunnar og Anna Guðrún ganga úr stjórn núna og færi ég þeim þakkir fyrir þeirra störf í þágu Íbúasamtakanna.

Síðasta ár hefur verið all viðburðaríkt og starf Íbúasamtakanna hefur verið öflugt. Fulltrúar samtakanna hafa setið í húsráði Spennistöðvarinnar, í aðventuráði Höfuðborgarstofu, í nefnd um takmörkun á rútuumferð um miðborgina og átt áheyrnarfulltrúa í hverfisráði miðborgarinnar og í nýstofnaðri miðborgarstjórn.

Spennistöðin
Fulltrúar ÍMR hafa setið húsráði Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar frá upphafi  enda börðust samtökin ásamt foreldrafélagi Austurbæjarskóla hvað harðast fyrir því að þessi aflagða spennistöð yrði athvarf barna, unglinga og annara íbúa hverfisins. Húsráðið er notendaráð og í því sitja auk framantaldra, fulltrúar Austurbæjarskóla, frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar, unglinga og ungmenna og einnig er þar fulltrúi skapandi greina. Húsráðið var ráðgefandi og mótandi um allt starf í þessari félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar á upphafsárunum en í nóvember 2016 var lokið tveggja ára tilraunatíma um rekstur Spennistöðvarinnar. Af því tilefni gerði húsráð Spennistöðvarinnar áfangaskýrslu þar sem gerð var úttekt á starfinu auk þess sem horft var til framtíðar en skýrsluna er að finna á vef ÍMR, midbaerinn.is. Þó skýrslunni hafi verið vel tekið voru lítil viðbrögð við henni fyrr en nú í haust en þá ákvað borgarráð að rekstur Spennistöðvarinnar yrði með svipuðum hætti og hingað til og veitt var 25 milljónum til endurbóta á húsnæðinu.

Takmörkun á rútuumferð
Reykjvíkurborg setti á fót stýrihóp til að móta stefnu um akstur með ferðamenn um miðborgina og vinna aðgerðaáætlun. Íbúasamtökunum var boðið að borðinu og tóku þeir Gunnar B. Ólason og Runólfur Ágústsson auk formanns þátt í starfinu. Samtök aðila í ferðþjónustu fóru framá það við ÍMR að samtökin tvö mótuðu tillögur að fyrirkomulagi um rútuakstrur og þáðum við það enda er það ekki á hverjum degi sem önnur hagsmunasamtök miðborgarinnar vilja fá íbúa að borðinu. Sameiginlegar tillögur SAF og ÍMR voru því mótaðar og urðu þær grunnur að því fyrirkomulagi sem nú er komið á. Almenn ánægja er með þetta nýja fyrirkomulag en íbúar við ýmsar götur s.s. Hverfisgötu og Njarðargötu finna þó fyrir auknu álagi. Þeir kvarta einnig yfir því að rútufyrirtækin virði ekki tilmæli um eina aksturstefnu. Að fenginni reynslu af takmörkunum á umferð fólksflutningabíla er enginn vilji hjá íbúum miðborgarinnar til að hverfa aftur til þess ástands sem var áður en þær tóku gildi og því hefur stjórn ÍMR skorað á borgarstjóra að beita sér fyrir því að koma upp biðskýlum við safnstæðin því slík afdrep eru forsenda þess að þessi tilraun geti heppnast.

Aðventunefnd
ÍMR var boðið að senda fulltrúa í aðventunefnd Höfuðborgarstofu og mætti formaður á fundi nefndarinnar. Lítið hafði hann til málanna að leggja um jólaverslun, jólavætti og skautasvelli en gerði að umtalsefni það ófremdarástand sem er á Skólavörðuholti á gamlárskvöld hvert ár. Viðvörunarorðum formanns var þó lítið sinnt í þetta sinn og lá við stórslysi eina ferðina enn þegar skoteldur sprakk í hópi fólks. Vonandi verður unnin bót á þessum galla á áramótagleði Miðborgarbúa og erlendra gesta í miðborginni.

Miðborgarstjórn
Eins og fyrr sagði á ÍMR áheyrnarfulltrúa í hverfisráði miðborgar og miðborgarstjórn og er ekkert nema gott um það að segja að við fáum að vera með í því samráðsferli öllu. Ég mun ekki fara nánar út í starf miðborgarstjórnar en bendi á að Elísabet Ingadóttir verkefnisstjóri mun kynna það að loknum aðalfundarstörfum.

Skipulagsmál
Skipulagsmál hafa alltaf verið fyrirferðamikil í starfi ÍMR. Samtökin hafa beitt sér fyrir því að aukið samráð sé haft við íbúa í skipulagsmálum og að kynning og upplýsingagjöf skipulagsyfirvalda sé aukin. Mikil uppbygging er nú í miðborginni ekki síst til að uppfylla þarfir ferðaþjónustunnar og hefur sú uppbygging á margan hátt verið á kostnað íbúabyggðarinnar. Mikil ásókn er íbúðahúsnæði til að leigja út til ferðamanna og í að fjarlægja eldri hús og byggja ný í stað þeirra oftast í allt öðrum mælikvarða en hinum smágerða sem einkennir gömlu byggðina. Einnig hefur verslun og þjónusta orðið einsleitari fyrir vikið. Stjórn ÍMR hefur haft verulega áhyggjur af þessari þróun því íbúum hefur fækkað og þá sérstaklega ungu fjölskyldufólki. Til marks um það er að nemendum í Austurbæjarskóla hefur fækkað og deildum á leikskólum hefur verið lokað og það þarf svo sem engan reiknimeistara til að sjá að íbúða og leiguverð í miðborginni er ekki við hæfi buddunnar hjá ungu fólki sem er að stofna fjölskyldu og koma undir sig fótunum.

Þá hafa Íbúasamtökin m.a. hvatt til þess að farið verði í að vinna nýtt hverfisskipulag miðborgarinnar og mótmælt túlkun borgaryfirvalda um að rýmri heimildir til gisti- og veitingahúsarekstur séu á svokölluðum aðalgötum. ÍMR mótmælti nýlegu leyfi fyrir íbúðahóteli á Barónsstíg 28 sem var veitt þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna í Reykjavíkurborg um að ekki yrðu gefin út fleiri leyfi fyrir hótelum í miðborginni. Stjórn Íbúasamtakanna lýsti hinsvegar yfir ánægju sinni með að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og Umhverfisstofnun höfnuðu beiðni Ölgerðar Egils Skallagrímssonar um undanþágu frá reglugerð um hávaða til að geta byrjað vörulosun í miðbæ Reykjavíkur klukkan fjögur að nóttu í staðinn fyrir klukkan sjö að morgni. Einnig höfum við ritað Björgólfi Thor Björgólfssyni bréf þar sem við fórum fram á að knattspyrnuvöllur sá sem verið hefur í hestagerðinu austan Fríkirkjuvegar 11 og gengur undir nafninu Drulló hjá börnum hverfisins fái framhaldslíf. Bréfið fengum við endursent með þeirri utanáskrift að viðtakandi væri óþekktur og hljóta þessir starfsmenn póstsins að vera einu Íslendingarnir sem ekki vita hver Björgólfur Thor er.

Miðlun upplýsinga
Ég vil benda á að allar ályktanir ÍMR og upplýsingar um starfsemi samtakanna er að finna á vefnum okkar, midbaerinn.is. Við höldum líka úti öflugri upplýsingagjöf um miðborgarmál á Fb-síðu okkar en hún er mikið heimsótt og hefur fengið yfir 1000 læk.

Samstarf
Þriðjudaginn 28. mars s.l. héldu stjórnir íbúasamtaka þriggja hverfa fund í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar, þar sem rædd voru sameiginleg hagsmunamál hverfanna. Þetta voru Íbúasamtök Miðborgar, Íbúasamtök Vesturbæjar og Íbúasamtök 3. hverfis, en því tilheyra Norðurmýri, Holt og Hlíðar. Hverfin þrjú ná yfir svæðið frá Seltjarnarnesi að Kringlumýrarbraut, þau deila þjónustu- og frístundamiðstöð og heildaríbúafjöldi þeirra er um 35 þúsund. Í hverfunum er elsta byggð borgarinnar og elstu úthverfin. Þetta eru gróin hverfi sem eru eftirsóknarverð að búa í vegna nálægðar við þjónustu, menningu, afþreyingu og sögu en stjórnir íbúasamtakanna þriggja voru sammála um bæta mætti umferðaröryggi, gera götur vistvænni, minnka mengun frá umferð, hætta hótelbyggingum og koma í veg fyrir að meira íbúðarhúsnæði og húsnæði fyrir þjónustu við íbúa verði lagt undir ferðaþjónustu.

Íbúasamtökin þrjú héldu einnig fund með skipulagsstjóra og byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar til að fræðast um það sem til stendur í skipulagsmálum og var það hinn þarfast fundur. Það hefur einnig komið út úr þessu samstarfi að þann 12. október verður haldinn opinn fundur hverfisráða og íbúasamtaka Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og borgarstjóra í Ráðhúsinu. Þar á að ræða hótelvæðingu þessara hverfa.

Heil brú
Verkefninu Heil brú var hleypt af stokkunum til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar og eru einkunnarorð þess: Sköpum, ræðum og leikum okkur saman. Markmiðið með verkefninu er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og er það gert með því að halda smiðjur og málþing á laugardögum í Spennistöðinni og þær eru ætlaðar öllum íbúum í miðbænum. Við höfum haldið þrjú málþing, um sambýlið við ferðaþjónustuna, um börn og unglinga í miðbænum og um nábýlið í miðborginni. Við vorum líka með fræðsluprógamm um landbúnað í 101, leikjadag, blússmiðju, leiksmiðju, danssmiðju og galdrastafa og flugdrekasmiðju. Ég mun fara betur yfir það starf í sérstakri kynningu þegar aðalfundarstörfum er lokið. (Eftirtaldar smiðjur og málþing hafa verið haldin:)

Leikjadagur - 10. september 2016
Verkefnið Heil brú hófst á leikjadegi. Ingimar Guðmundsson, Anna Lilja Björnsdóttir og Gísli Felix Ragnarsson nemar á 3. ári í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands stjórnuðu leikjum og hópefli í Spennistöðinni og á skólalóð Austurbæjarskóla. Um 30 manns litu við á leikjadeginum og lærðu fullt af nýjum leikjum og nutu samverunnar en boðið var upp á kaffi og saft að leikjum loknum

Málþing um miðborgina – Sambýlið við ferðaþjónustuna - 24. september 2016
Á fyrsta málþingi Íbúasamtaka Miðborgar þar sem íbúar höfðu orðið var rætt um sambýli miðborgarbúa við ferðaþjónustuna. Frummælendur voru Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi og félagi í hverfisráði, Anna María Bogadóttir arkitekt og Runólfur Ágústsson íbúi og verkefnastjóri Fluglestarinnar. Benóný Ægisson formaður Íbúasamtaka Miðborgar ávarpaði málþingsgesti og fundarstjóri var Katrín Anna Lund prófessor í land og ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Að framsöguerindum loknum var orðið laust og íbúar gátu tjáð sig um málið eða beint spurningum til frummælenda eða annarra fundargesta. Umræður voru mjög fjörugar en 70-80 manns mættu á málþingið.

Blúsað í Heilli brú - 12. október 2016
Blúsfrömuðurinn Halldór Bragason, íbúi í miðbænum og fyrrum nemendi í Austurbæjarskóla og Pétur Hafþór Jónsson tónmenntakennari í Austurbæjarskóla leiddu blússmiðju en um 30 manns á aldrinum 6-70 ára mættu með hljóðfærin sín og blúsuðu af hjartans lyst.

Galdrastafa og flugdrekasmiðja - 10. nóvember 2016
Flugdrekasérfræðingurinn Arite Fricke stjórnaði galdrastafa og flugdrekasmiðju í Spennistöðinni. Arete er grafískur hönnuður og foreldri í Austurbæjarskóla og kenndi hún fólki að búa til einfalda flugdreka úr símaskrám og bambusstöfum og kyngimagnaða galdrastafi með kartöflustimplum og þekjulitum. 40-50 manns mættu og gerðu galdrastafi eða bjuggu til flugdreka og léku sér með þá fyrir utan Spennistöðina.

Málþing um miðborgina – Börnin í miðbænum - 12. nóvember 2016
Annað málþing vetrarins fjallaði um aðstæður barna og unglinga í miðborginni. Spurt var hvað sé fjölskylduvænt hverfi og hvort miðborgin uppfyllti öll skilyrði til að teljast fjölskylduvæn. Íbúasamtök Miðborgar, Foreldrafélag og Nemendafélag Austurbæjarskóla og foreldrafélög leikskóla í hverfinu stóðu að málþinginu en fundarstjóri var Áslaug Guðrúnardóttir. Málþingið var með þeim hætti að fyrst voru flutt stutt framsöguerindi en síðan var hópavinna. Hóparnir fjölluðu um efni eins og aðstöðu barna og unglinga til tómstundaiðkunnar, leiksvæði, Spennistöðina, umferðaröryggi og almenningssamgöngur. Hóparnir sammæltst um nokkrar hugmyndir og tillögur um úrbætur og beindu spurningum til stjórnmálamanna og embættismanna sem sátu í pallborði. Dagur B Eggertsson flutti framsöguerindi, ungt fólk í hverfinu talaði um hvernig það væriað alast upp í 101 og húsráð Spennistöðvarinnar var með innleggið  Spennistöðin fimm árum síðar. Í pallborði sátu: Dagur B Eggertsson borgarstjóri, Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Austurbæjarskóla, Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar, Skúli Helgason formaður Skóla og frístundaráðs, Þórgnýr Thoroddsen formaður Íþrótta og tómstundaráðs og Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri Umhverfis og skipulagssviðs.  Um 60 manns tóku þátt í málþinginu.
 
Leiksmiðja - 4. febrúar 2017
Leynileikhúsið var með leiksmiðju fyrir alla fjölskylduna í Spennistöðinni og leiðbeinendur voru leynileikhússtjórinn Agnar Jón Egilsson og leikkonan María Heba Þorkelsdóttir. Á þriðja tug foreldra og barna mættu og skemmtu sér við leiklistaræfingar og leikspuna og mörg lítil skemmtileg leikrit urðu til þetta laugardagssíðdegi.

Málþing um miðborgina – Góðir grannar 4. mars 2017
Á málþinginu Góðir grannar var fjallað um nábýlið í miðborginni og var Viðar Eggertsson fundarstjóri.
Bryndís Héðinsdóttir lögmaður hjá Húseigendafélaginu fjallaði um grenndar- og nágrannarétt,
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði um veggjakrot, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn fjölluðu um afbrot í miðborginni og Benóný Ægisson formaður Íbúasamtakanna um nágrannavörslu og hverfisgöngur. Ýmsir reynsluboltar sögðu frá götu- og hverfishátíðum, Stefán Halldórsson sagði frá Skralli í Skaftahlíð, Margrét M Norðdahl frá Norðurmýrarhátíð og Gunnar B. Ólason frá Grettisgötuhátíð. Um 50 manns mættu og umræður voru líflegar.

Vorblót Íbúasamtaka Miðborgar 13. maí 2017
Íbúar í Miðborginni fögnuðu vorkomunni með vorblóti í Spennistöðinni. Kveikt var upp í grillum og grillaðar pylsur handa gestum og gangandi en tveir ungir lúðraþeytarar léku matarmikla músík undir borðhaldinu. Arite Handke kenndi gerð einfaldra flugdreka sem sem óspart voru prófaðir fyrir utan Spennistöðina en einnig var fjallað um vorverkin í okkar ágæta bæjarhluta. Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslustjóri Garðyrkjufélags Ísland fjallaði um hreinsun, beð, mosa, slátt, gróðursetningu o.fl. Bryndís Björk Reynisdóttir verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands fjallaði um ræktun ætra plantna við þröng skilyrði og Hafsteinn Helgason íbúi á Baldursgötu saghði frá hvítlauksrækt sinni. Eftir að þau höfðu lokið máli sínu var orðið laust og upp hófust fjörlegar umræður um landbúnað í 101. 

UmHverfisgöngur
UmHverfisgöngur eru tilraunaverkefni Íbúasamtaka Miðborgar í samstarfi við Hverfisráð Miðborgar. Þetta eru göngur um afmörkuð svæði eða götur í hverfinu og er tilgangur þeirra að vera samráðsvettvangur borgaryfirvalda við íbúa til að bæta umhverfi þeirra. Reykjavíkurborg styrkir verkefnið.
Hverfisgöngur sem þessar eru aðferð til að leita samráðs við íbúa og þá sem eru starfandi í ákveðnu hverfi, götu eða hverfishluta um hvernig þeir upplifi nærumhverfið, t.d. með tilliti til öryggis, útiveru, aðgengi að þjónustu osfrv. Þátttakendur geta auk íbúa verið kjörnir fulltrúar, starfsfólk sveitarfélags á umhverfissviði og aðrir sem bera ábyrgð á hvernig nærumhverfið lítur út. Það felur í sér að fólk gengur saman um hverfið, eftir fyrirfram ákveðinni leið, og skoðar hvernig umhverfið lítur út með tilliti til öryggis og lífsgæða og ræðir hvaða úrbóta sé þörf. Mælt er með því að gangan taki ekki lengri tíma en 1,5 klst. og vegalengdin sé ekki lengri en 3 km.

Iðnaðarmannareitur UmHverfisganga ÍMR 16. ágúst 2017
Fyrsta UmHverfisganga Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var gengin 16. ágúst um Iðnaðamannareit, sunnan Skólavörðustígs neðanverðs. Þarna er blönduð byggð, íbúa og fyrirtækja, borgareignir og eignir í eigu almennings, veitingastaðir og ferðamannagisting svo nokkuð sé nefnt og vegna fjölbreytileikans þótti þetta svæði ákjósanlegt til að gera þessa fyrstu tilraun.

Þátttakendur í göngunni voru auk íbúa og rekstraraðila á svæðinu, fulltrúar frá Umhverfis og skipulagssviði, Bílastæðasjóði, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Miðborgarstjórn og Lögreglustöð 1. Í göngunni var einkum hugað að baklóðum, gönguleiðum milli húsa og bílastæðum og það sem var skoðað var m.a. veggjakrot, lýsing, skemmdarverk, sóðaskapur og slæm umgengni og rætt um hreinsun og lagfæringar, ónæði frá næturlífi og hávaða frá flutningabílum. Ég mun svo fara betur yfir þetta verkefni í sérstakri kynningu þegar aðalfundarstörfum er lokið.

Hreinsun
Gras og illgresi á milli gangstéttarhellna, og rusl í trjábeðum og á opnum svæðum var þónokkuð og hefur hverfamiðstöðin á Njarðargötu þegar brugðist við því og hreinsað það svæði sem telst almannarými auk þess að gera ýmsar smálagfæringar. Þessi skjótu viðbrögð eru afskaplega ánægjuleg og ber að þakka þau. Ástandið er hinsvegar sýnu verst á bílastæði í einkaeigu sem liggur austan Ingólfsstrætis milli húsana 5 og 7. Svæði þetta nota gestir nærliggjandi öldurhúsa mikið til fíkniefnaneyslu og hefur ýmisleg ókræsilegt rusl fundist þarna þar á meðal sprautur og sprautunálar. Heilbrigðiseftirlitinu var gert viðvart í byrjun maí en ástandið hefur ekkert batnað og hefur formaður ÍMR nú ítrekað erindið og til stendur að hafa samband við eigendur verslunarinnar Víðis Express sem bera ábyrgð á svæðinu.

Lýsing
Nágrannar eru orðnir langþreyttir á veggjakroturum og hópum sem stunda fíkniefnaneyslu og sölu á baklóðum við Skólavörðustíg og Ingólfsstræti, á bílastæðum og í bílastæðahúsinu Bergstöðum en lítil lýsing er á svæðinu sem gerir það kjörið til slíkra myrkraverka. Engin lýsing er t.d. á gönguleið milli húsanna Skólavörðustígs 4 og 6 og 6B og lóðar Ingólfsstrætis 7 en hún er mjög fjölfarin enda stysta leið frá Skólavörðustíg að Bónusversluninni í Iðnaðarmannahúsinu. Á bílastæðinu norðan við Iðnaðarmannahúsið eru einungis tveir ljósastaurar og í bílastæðahúsinu er lýsingu ábótavant. Rætt var um að íbúar gættu þess að útidyraljós þeirra væru virk en einnig þyrfti borgin að bæta þarna lýsingu og myndi það án efa hafa ákveðinn fælingarmátt fyrir myrkraöflin.

Gönguleiðir
Við fyrrnefnda gönguleið frá Skólavörðustíg að Iðnaðarmannahúsi var fyrir nokkru reist girðing milli lóðar Skólavörðustígs 6B og bílastæðis á lóð Ingólfsstrætis 7. Þessi girðing er í raun bara grind og hefur aldrei fengið að vera í friði fyrir fólki sem finnst það réttur sinn að geta gengið óhindrað yfir bílaplanið til veisluhalda undir skyggninu á 6B. Þetta gerist með þeim hætti að fyrst er rutt niður hlöðnum kanti undir girðingunni og skriðið undir girðinguna en síðan eru rimar hennar brotnar til að gera greiðari leið. Þarna þarf að koma upp mannheldri girðingu en spurningin er hver á að reisa hana og kosta. Þó gönguleiðin þarna sé almannarými þá er lóðin eign íbúa 6B og var m.a. a rætt um hvort mætti loka gönguleiðinni og virðist svo sem íbúar á 6B hafi fullan rétt til þess. Miðað við fyrri reynslu gæti það reynst örðugt og því var einnig rætt um að kanna hvort borgin vildi styrkja endurgerð girðingarinnar og yrði hún þá úr timbri eða bárujárni eins og nærliggjandi girðingar en auðvitað yrði hún fallegust ef hún væri hlaðin úr holtagrjóti í stíl við steinveggi á Skólavörðustíg 4 og 4C. Ef borgin legði til slíkt grjót væri án efa hægt að fá næga sjálfboðaliða til að reisa slíkan vegg.

Veggjakrot
Veggjakrot hefur verið viðvarandi vandamál á svæðinu um nokkra hríð. Svæðið er svokallað „bombusvæði“ þ.e.a.s. að hópar krotara telja sér nánast skylt að setja merki sín (tögg) þar og hefur það kostað húseigendur stórfé að hreinsa burt eða mála yfir óhroðann og margir hafa hreinlega gefist upp á því. Rætt var um að gera sameiginleg átak og hreinsa svæðið og reyna svo að halda því í horfinu. Bílastæðasjóður mun á næstunni láta mála yfir krot á Bergstöðum og var rætt um að aðrir húseigendur myndu þá hreinsa sína veggi á svipuðum tíma svo allt svæðið yrði hreint. Myndi það senda kroturunum skýr skilaboð. Einnig var rætt um hvort hægt væri að koma upp eftirlitsmyndavélum til að ná myndum af skemmdarvörgunum en einnig var kvartað yfir því að lítið væri gert með slíkar myndir sem þegar hafa náðst af kroturum við iðju sína á Skólavörðustíg. Fólk var einnig undrandi yfir því að ekki sé litið á eignaspjöll eins og veggjakrot sem refsivert hátterni heldur þurfi húseigendur að standa í kærumálum og veseni vilji þeir að eitthvað sé gert í málunum en margir nenna ekki að standa í slíku.

Skólavörðustígur
Þessi hluti Skólavörðustígs hefur undanfarin ár verið lokaður fyrir bílaumferð á sumrin og er götunni lokað með reiðhjólahliðum. Þessi hlið hafa meðal annars valdið sjúkraflutningamönnum vandræðum og þarf að finna betri lausn á þessum lokunum eigi að halda lokunum áfram því eins og nú er þá er öryggi ábótavant og íbúar, rekstraraðilar og vegfarendur í hættu. Svo má benda á að enginn brunahani er á neðsta hluta Skólavörðustígs en þar eru timburhús sem byggð voru í kringum aldamótin 1900 og teljast til menningarverðmæta. Einnig er óánægja með myndlistarsýningar sem hafa verið í götunni, þær spilla götumyndinni, skyggja á verslanir, gömul falleg hús og útsýnið upp eftir Skólavörðustíg að Hallgrímskirkju sem ferðamenn þreytast aldrei á að mynda. Einnig eru viðargrindurnar sem myndirnar standa á handónýtar svo auðvelt er að skemma þær og engin festa er í malbikinu svo þær losna ef eitthvað hreyfir vind. Ef framhald á að vera á slíkum sýningu er það krafa íbúa og rekstraraðila að þær verði haldnar einhversstaðar þar sem þær fara betur með umhverfið.

Ónæði
Allmikið ónæði hefur orðið vegna fíkniefnaneyslu á baklóðunum en þar stundar fólk á nærliggjandi veitingastöðum þá iðju. Þá er einnig talsvert ónæði vegna vöruflutningabíla sem koma með vörur í Bónus. Margir bílstjóranna bakka yfir allt bílastæðið norðan við Bónus með tilheyrandi viðvörunarhljóðum og ónæði fyrir íbúa og einkum er þessi umferð snemma á morgnana. Formaður ÍMR tók að sér að hafa samband við eigendur verslunarinnar til að freista þess að finna betra fyrirkomulag á þessum flutningum.

Hvað svo?
Skipað var þriggja manna teymi sem tók að sér að fylgja þeim úrbótum eftir sem nauðsynlegar eru. Teymið skipa Benóný Ægisson, fulltrúi íbúa, Jóhann Jónsson, fulltrúi rekstraraðila og Elísabet Ingadóttir, fulltrúi Reykjavíkurborgar. Til að halda fólki vel upplýstu var gerður netfangalisti og lokaður hópur hefur verið stofnaður á Facebook. Fb-hópurinn heitir Iðnaðarmannareitur og þurfa áhugasamir að finna hann og óska eftir inngöngu. Nú liggur fyrir að gera aðgerðaáætlun og í raun er hreinsunarstarf þegar byrjað og einnig eru íbúar byrjaðir að bæta lýsingu. Það sem helst knýr á er að ákveða dag til að mála yfir og hreinsa burt veggjakrot en til að sú aðgerð verði sem áhrifaríkust er sameiginlegt átak nauðsynlegt þannig að allt veggjakrot verði fjarlægt á sama tíma.

Lokaorð
Tilgangur Íbúasamtakanna og markmið er samkvæmt lögum þeirra að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins, starfa með Hverfisráði Miðborgar og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess og eiga samstarf við íbúasamtök annarra hverfa.

Ég fæ ekki betur séð en að við séum að starfa samkvæmt öllum þessum markmiðum og er það vel. Í hverfum eins og miðborgum eru íbúarnir afar mikilvægur þáttur og svo tekin sé fremur kaldranaleg samlíking þá eru þeir eins og kanarífuglinn í kolanámunni, ef miðborg er ekki lífvænlegt umhverfi fyrir íbúa er hætt við að hún sé það ekki heldur fyrir aðra. Því er afar mikilvægt að halda miðborginni í byggð en það verður einungis tryggt með því að hún sé lífvænleg fyrir fólk. Ábyrgð stjórnmálamanna og skipulagsyfirvalda er mikil en við íbúarnir berum líka ábyrgð, við verðum að vera samtaka og láta rödd okkar heyrast. Til þess höfum við Íbúasamtök Miðborgar; þau eru það sem við gerum þau að, það er okkar að sjá til þess að þau lifi og dafni.

26. september 2017
Benóný Ægisson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is