ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 30. janúar 2017

Fundur í stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn á Vesturgötu 3 mánudaginn 30. janúar 2017.

Mætt Ragnhildur, Gerla, Benni, Gunnar, Guðrún & Einar. Sérstakur gestur fundarins Bjartur Thorlacius. Fundurinn hófst kl. 19:10. Kl. 19:38 bættist Birgitta í hópinn. Ragnhildur yfirgaf fundinn kl. 19:46.

Þetta gerðist:

1) Fundargerð síðasta fundar borin upp og samþykkt.

2) Bjartur sem er kerfisfræðingur sagði frá tölvupóstkerfi félagsins og félagaskrá. Hann hefur unnið að endurbótum á þessu og voru stjórnarmenn ánægðir með það. Bjartur yfirgaf síðan fundinn.

3) Kynnt erindi frá Birnu Þórðardóttur varðandi söfnunargáma fyrir pappír og plast á gatnamótum Freyjugötu, Óðinsgötu og Bjargarstígs. Umgengnin er slæm, bæði hjá þeim verktökum sem tæma gámana og eins hjá sumum íbúum. Rætt um að e.t.v. væri heppilegra að staðsetja þessa gáma við hliðina á barnaleikvelli við Freyjugötu. Formanni falið að ræða málið við skipulagsfulltrúa Reykjavíkur Björn Axelsson og afla frekari upplýsinga. Það er skoðun stjórnar að kynningu á málum sambærilegum þessum fyrir íbúum sé ábótavant hjá Reykjavíkurborg.

4) Gunnar kynnti ónæði vegna hlaupahóps sem hleypur upp og niður Frakkastíginn eldsnemma á föstudagsmorgnum. Gunnar býr þarna sjálfur og verður fyrir ónæði af þessum sökum. Gunnar hefur kvartað við lögregluna en það hefur ekki borið árangur. Gunnar hvattur til að kæra málið til lögreglu.

5) Heil brú, dagskráin framundan kynnt. Hugmyndin var að næsta laugardag (4. febrúar) yrði leiksmiðja (Leynileikhúsið), síðan málþingið „Góðir grannar“ 4. mars, þá smiðja 25. mars, 22. apríl málþingið „Vorverkin“ eða „landbúnaður í 101“ og 13. maí smiðja. Þessi áætlun þótti of þétt. Ákveðið að fresta málþinginu 22. apríl um eina viku. Ákveðið að hafa tvær smiðjur og tvö málþing. Sleppa smiðjunni 13. maí. Birgittu falið að þróa málið frekar.

6) Málþingið „Góðir grannar.“ Benni kynnti málið. Kynnt verður hvernig hægt er að standa að nágrannavörslu. Sérstakur verkefnisstjóri umhverfisátaks miðborgarinnar gæti m.a.komið að málum. Einnig fulltrúi frá þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og fá jafnvel líka fulltrúa Húseigendafélagsins. Líka rætt um að fá þá sem hafa staðið fyrir vel heppnuðum hverfishátíðum (t.d. nýlega í Norðurmýri). Formanni falið að fylgja málinu eftir.

7) Tillögur íbúasamtakanna og samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) um rútuumferð í miðborginni. Gunnar og Runólfur Ágústsson sátu fundi bæði hjá Reykjavíkurborg og hjá SAF. Frumkvæðið kom frá SAF og voru stjórnarmenn mjög ánægðir með framtakið sem þeir töldu til fyrirmyndar, óskuðu eftir að borgin tæki mark á þessum tillögum og að áfram yrði unnið að úrbótum í samráði við aðra hagsmunaaðila. Stjórnin treystir því að þetta samráð sé komið til að vera og haldi áfram. Þessi afstaða stjórnarinnar verður kynnt borgaryfirvöldum.

8) Öryggi í miðborginni í ljósi síðustu atburða. Birgitta hafði setið fund hverfisráðs í síðustu viku. Þar lagði hún áherslu m.a. nauðsyn aukinnar lýsingar í miðborginni (eins og kom fram á nýlegu málþingi) og þá mættu íbúahverfi miðborgarinnar ekki gleymast í því sambandi.

9) Sameiginlegur fundur íbúasamtaka. Rætt um að Íbúasamtök Miðborgar haldi fund með Íbúasamtökum Vesturbæjar og Íbúasamtökum Hlíðahverfis. Rætt um að halda sameiginlega fundi vor og haust og finna sameiginleg baráttumál. Bjóða jafnvel hverfisráðinu með.

10) Loftmengun í Reykjavík. Einar kynnti málið og lagði fram gögn sem sýndu að loftmengun (svifryk) í Reykjavík laugardaginn 10. desember sl. var sextánfalt yfir heilsuverndarmörkum. Einari falið að hafa samband við formann heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og fá hann til fundar með stjórninni við hentugt tækifæri.

11) Í lok fundar afhendi formaður ritara tvö bréf sem borist höfðu:

a) Bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Rvíkur dags. 6. desember 2016. Um er að ræða verklýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi vegna heimilda um veitinga- og gististaði. Um er að ræða uppfærslu vegna breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

b) Bréf siðanefndar sambands íslenskra sveitarfélaga til íbúasamtakanna. Tengist ráðstöfun fjármuna og áliti umboðsmanns borgarbúa.

Fundi slitið kl. 20:38

Einar Örn Thorlacius ritaði fundargerð


Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is