ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Stjórnarfundur 24. nóvember 2008Hinn 24. nóvember 2008 kom stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur saman til fundar. Fundurinn var haldinn í Félagsmiðstöðinni að Skúlagötu 21, 101 Reykjavík. Fundurinn hófst kl. 17.00. Mætt eru: Halla, Gylfi, Benóný, Kári Halldór, Magnús, Kristinn og Lilja. Auk þess mætt Anna Þórisdóttir Laugavegi 44. Á fundinum gerðist eftirfarandi: 1. Stjórn skiptir með sér verkum. Á fundinum var lagt til að Hlín Gunnarsdóttir haldi áfram starfi gjaldkera, Lilja taki að sér hlutverk ritara og Kári Halldór verður varaformaður. Þessi verkaskipting er samþykkt. 2. Fundargerð aðalfundar Íbúasamtakanna. Fyrir fundinum lágu drög að fundargerð frá aðalfundi Íbúasamtaka miðborgar en hann var haldinn í Iðnó 19. nóvember 2008. GK var falið að senda fundarstjóra, Sigurmari K. Albertssyni, og fundaritara, Lútheri Jónssyni, fundargerðina til athugunar. Þegar þeir hafa farið yfir fundargerðardrögin og komið að athugasemdum sínum ef einhverjar eru verði fundargerðin gerð aðgengileg á heimasíðu íbúasamtakanna. 3. Bygging Listaháskóla Íslands. Rætt um fyrirhugaða byggingu LHÍ á Frakkastígsreit. Magnús kynnir málið og segir frá undirskriftalista Önnu Þórisdóttur, íbúa á Laugavegi þar sem safnast hafa 300 undirskriftir sem mótmæla framkvæmdinni. Anna segir frá söfnun undirskriftanna. Rætt er hvernig koma á listanum til skila, KH bendir á að það hefur aukið vægi að undirskriftir eru handskrifaðar og hvernig staðið var að söfnun þeirra. Ákveðið er að afhenda undirskriftirnar í þríriti, frumeintak til formanns skipulagsráðs og auka eintök til borgarstjóra og rektors LHÍ. Magnús kynnti tillögu að samþykkt Íbúasamtaka miðborgar, smávægilegar breytingar voru gerðar á henni og hún síðan samþykkt. Rætt er að samþykktin og undirskriftirnar þurfi að komast til skila sem fyrst. 4. Skipulag Slippfélagsreitsins. Magnús segir frá Slippa-skipulagi og leggur til að Íbúasamtökin í félagi við Íbúasamtök Vesturbæjar skrifi bréf og leggi til að svæðið verði tekið með í fyrirhugaðri samkeppni um svæðin vestan Tónlistarhúss. 5. Borgar- og húsverndarskýrslan. Magnús kynnir stuttlega skýrsluna ,,Borgar og húsverndarstefna Reykjavíkur” og lofar að senda frekari upplýsingar svo allir geti kynnt sér efnið fyrir næsta fund. 6. Breytingar á reglum um bílastæðiskort. Benóný segir frá nýju reglunum um bílastæðakort(íbúakort). Nýju svæðin eru lítil og flest stæði í notkun á kvöldin svo íbúum reynist erfitt að finna stæði innan svæðis. Samþykkt var að fela Benóný og Kristni semja drög að bréfi þar sem athugasemdum stjórnarinnar við þetta nýja kerfi er komið á framfæri. 7. Umræður um ýmis mál. Kári Halldór lýsti þörf á að mynda samtök íbúasamtaka í Reykjavík. Stjórnin fól honum að vinna að undirbúningi málsins. Rætt var um fyrirhugaða verslun Bónus við Hallveigarstíg. Einnig var rætt um ástandið í miðborginni á kvöldin og næturnar um helgar einkum hávaða frá veitingahúsum og börum. KH sagði frá hugmyndum um hlutverk Hverfisgötu sem þróunargötu/sprotagötu. 8. Fastir fundartímar stjórnar. Ákveðið var að stjórnin komi saman til funda annan hvern mánudag og er næsti fundur boðaður 8. desember. Fundi var slitið um kl. 18.45. Fundargerð skrifaði Lilja Gunnarsdóttir. |
Gömul myndGamla myndin er af Skólavörðustígnum um 1900. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |