ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 19. janúar 2009

Þann 19. janúar 2009 kom stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur saman til fundar. Fundurinn var haldinn í Félagsmiðstöðinni að Skúlagötu 21, 101 Reykjavík. Fundurinn hófst kl. 17.00.

Mætt eru: Hlín, Magnús, Kristinn, Kári Halldór, Halla, Benóný, Gylfi og Lilja. Auk þess eru mættir Kormákur Geirharðsson og Skjöldur Sigurjónsson (fulltrúar kráareigenda), Heiður Gestsdóttir (lögfræðingur hjá Lögreglustjóra) og Fríða Björk Ingvarsdóttir sem boðuð voru sérstaklega til að ræða um ástand miðborgarinnar um helgar.

Á fundinum gerðist eftirfarandi:

1. Ástand miðborgarinnar um helgar. Byrjað er á að ræða gamla opnunartímann og hópamyndun eftir lokun skemmtistaða. Kormákur segir frá vinnuhóp sem hann tók þátt í og að gefin var út skýrslan ,,Betri miðborg”. Rætt er um mikilvægi samvinnu íbúa og kráareigenda, samstaða er um að ástandið hafi farið úr böndunum.

Rætt er um leyfisveitingar vínveitingahúsa, oft byrjar leyfið í litlu kaffihúsi en er svo sífellt hnikað til með nýjum eigendum og slík kaffihús enda oft í fullu vínveitingaleyfi fram undir morgun. Rætt er um að veitingahúsaeigendum sé jafnvel ráðlagt að byrja smátt og auka síðar við opnunartímann. Heiður greinir frá því að ábyrgðin á leyfisveitingunum liggi hjá Reykjavikurborg, byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirliti. Heiður segir einnig að tilraunin um lengri opnunartíma hafi aldrei borið árangur, kvartanir hafa aukist og hagur væri í færri og dreyfðari stöðum.

Fram kemur að opnunartími skemmtistaða skiptist við Klapparstíg, ofan við Klapparstíg hafa kráareigendur leyfi til kl. 3 en neðan Klapparstígs gildir leyfið til kl. 6. Rætt er um að sniðugt væri að kortleggja svæðið og merkja inn staði og leyfisveitingar og kvartanir sem borist hafa. Heiður segir að slík úttekt hafi verið gerð hjá lögregluembættinu og að hugsanlegt væri að íbúasamtökin gætu fengið afrit af henni. Kormákur segir frá því að slíkar úttektir séu ekki alltaf marktækar því oft sé kvartað yfir röngum stað þar sem veitingastaðir eru nokkrir saman í hnapp, þá sé oft kvartað yfir þeim stað sem sýnilegastur eða stærstur er þó ónæðið gæti verið meira frá öðrum stað.

Gylfi stingur uppá að íbúasamtökin fái senda skýrsluna ,,Betri miðborg” til að kynna sér.

Rætt er um möguleg úrræði. Talað er um að þegar fólk hyggst kvarta yfir ónæði eða leita réttar síns gagnvart yfirgangi aðila sem virða ekki reglur þá er sífellt vísað á annan aðila og enginn telur sig bera ábyrgð. Kormákur segir að erfitt sé að fækka fjölda skemmtistaða því reksturinn sé lifibrauð fólks.

Spurt er um fíkniefnaneyslu, hnífsstungur og ofbeldi í miðborginni þegar líður á nóttina. Heiður svarar að það sé líklegt að ofbeldi hafi aukist og vísbendingar séu um aukna fíkniefnaneyslu.

Magnús lýsir áhrifum ferðamanna af Reykjavík og svefnfriði á hótelum og gistihúsum í miðborginni.

Rætt er um gatnahreinsum og ábyrgð húseigenda. Hlín les úr lögum um veitingahús þar sem fram kemur að veitingahúsaeigendum er skylt að þrífa stétt og allan sóðaskap í kringum staði sína. Skjöldur segir frá því að þeir reyni að hreinsa til eftir lokun en svo sóði fólk á rúntinum heim strax aftur. Hann segir einnig frá því að veitingahúsaeigendum sé óheimilt að bjóða upp á plastglös fyrir gesti til að taka með sér drykkinn út. Kormákur talar um að stórt vandamál við óþrifnaðinn séu matarumbúðir frá skyndibitastöðum sem fólk hendir frá sér á götuna.

Rætt eru um hvort rekstaraðilar eigi rétt á bótum fyrir skertan opnunartíma.

Rætt er um að ástandið sé betra þegar lögreglan er sýnileg á götum úti og að auka þurfi löggæslu í miðborginni aftur.

Kári Halldór ítrekar að úrræði vanti fyrir íbúa. Heiður segir að lögreglan sé bara umsagnaraðili og beri því ekki ábyrgð.

Rætt eru um að dreyfa skemmtistöðunum yfir stærra svæði borgarinnar og Fríða Björk stingur uppá að veitinga- og skemmtistaðir ættu að vera með vínveitinga og opnunartímaleyfi tengt starfssemi, þá ættu eigendur einnig að missa leyfið ef þeir fara út fyrir það. Heiður segir frá núgildandi þrískiptu kerfi um leyfisveitingar, veitingahúsaleyfi án vínveitingaleyfis, svo er vínveitingaleyfi til kl 23 og í þriðja lagi er vínveitingaleyfi til 3 eða 5.30 eftir staðsetningu. Eðlismunur þessara leyfa er hinsvegar enginn hvort um er að ræða kaffihús eða næturklúbb. Fram kemur að lögin eru nýleg en nokkuð óheppileg.

Halla segir að Reykjavíkurborg fari ekki eftir þróunaráætluninni.

Niðurstaða er að regluverkið sé gallað, samstaða er um að það væri afar óæskilegt ef skemmtistöðum í miðborginni yrði fjölgað frekar og nauðsynlegt sé að framfylgt verði reglum um hávaða og umgengni.

Kári Halldór stingur uppá fundi með fulltrúum borgar og lögfræðingum þeirra.

Þá er rætt um hávaða frá skemmtistöðum, rætt er um að heilbrigðiseftirlitið geri skýrslur um hávaðamælingar en ekkert sé gert. Gylfi bendir á að Vinnueftirlitið ætti að fylgja þessu eftir. Kormákur segir frá aðferðum sem nota má til að draga úr hávaða s.s. sílíkonmottum sem dempa högg frá bassaboxum, stefnu hátalara og reglum fyrir plötusnúða. Hann segir einnig frá útsláttarmælum sem fást og eru notaðir til að fylgjast með hávaðamörkum, hann segir frá því að þeir hafi notað slíka mæla á Domo. Talað er um að hávaðamengun frá skemmtistöðum sé mjög breytileg og stærð og gerð húsa spili þar stóran þátt, þá er styrkur hjóðkerfis líka þáttur svo og hópar af reykingafólki úti. Margir skemmtistaðir eru reknir í illa einangruðum timburhúsum og er hljóðmæling utan við slíkan stað ólík annarskonar stað þrátt fyrir að spilað sé á sama styrk. Stundum hefur íbúum verið boðið að einangra betur hjá sér en ekki hugsað um að einangra eða lækka í skemmtistöðum. Fríða Björk segir frá reglum í Berlín þar sem allur hávaði eftir kl 22 er bannaður utandyra, þá er öllum gestum sópað inn af stéttinni og tónlistin svo lækkuð kl 24.

Fram kemur að það vantar aðila til að framfylgja regluverkinu, borgin ætti að hafa fulltrúa sem sæi um slíkt, ljóst er að margir veitingahúsaeigendur eru ekki færir um að framfylgja reglum án eftirlits og íbúum er ekki bjóðandi að hringja og kvarta alla daga.

Magnús vill nýjar og skýrari reglur um hávaðatakmörk. Gylfi tekur að sér að hafa samband við Vinnueftirlitið.

Talað er um að mynda vinnuhóp og opna fyrir samskipti, fá þá klúbbeigendur líka með og skýrsluna áðurnefndu senda.

Kl. 18.30: Kormákur, Skjöldur og Heiður víkja af fundi.

Fríða Björk segir frá samstarfshópi sem Vilhjálmur Kristinsson hélt utan um og samstarfi við SÁÁ.

Fram kemur hvers vegna hóteleigendur kvarta ekki yfir hávaða, þeir missa gesti ef fréttist að hjá þeim er ekki svefnfriður.

Stungið er uppá að heildarreglur ættu að gilda um rekstrar- og veitingahúsaleyfi á hverjum reit.

Fundi var slitið kl. 18.50.

Fundargerð skrifaði Lilja Gunnarsdóttir.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Lækjargötu á tímabilinu 1907-1911. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is