ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 3.maí 2010

Þann 3.maí kom stjórn Íbúasamtaka miðborgar saman til fundar á Klapparstíg 1a og hófst fundurinn kl. 17.00.

Mætt voru: Magnús Skúlason, Guðrún Janusdóttir, Benony´ Ægisson, Halla Bergþóra Pálmadóttir, Sigurður Sigurðsson, Sigríður Gunnarsdóttir og Hlín Gunnarsdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Dagsektir - beðið viðbragða við meðfylgjandi erindi til Borgarstjóra. Málið rætt á Hverfisráðsfundi og samþykkt þar. Mun verða óskað eftir fundi með Júlíusi Vífli til að ræða málið frekar.

Reykjavík, 25. febrúar 2010.
Skipulagsráð Reykjavíkur,
b.t. Júlíusar Vífils Ingvarssonar formanns, Borgartúni 12 – 14, 105 Reykjavík.

Efni: Samþykkt stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur um framkvæmd byggingareftirlits.

Á fundum stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur hefur verið fjallað um framkvæmd á ákvæðum 61. gr. byggingarreglugar nr. 441/1998. Fram hefur komið megn óánægja með framkvæmd á ákvæðum þessarar greinar. Hún beinist fyrst og fremst að aðgerðarleysi stjórnvalda byggingarmála í borginni og ómarkvissum vinnubrögðum. Afleiðingin hefur birst borgurum í ýmsum myndum. Íkveikjur í auðum húsum sem hafa valdið mannskaða og eignartjóni eru of algengir atburðir. Hrörlegt ástand útkrotaðra húsa veldur verðfalli fasteigna í næsta nágrenni. Sú hryggðarmynd sem mætir borgurunum á hverjum degi sviptir þá þeim lífsgæðum sem þeir eiga rétt á og borgaryfirvöld eiga að tryggja þeim samkvæmt framgreindri byggingarreglugerð. Nýjustu tíðindi virðast benda til þess að borgaryfirvöld séu að rumska og hafi í einhverjum tilvikum sent verstu slóðunum aðvörunarbréf og krafist úrbóta að viðlögðum dagsektum eins og byggingarreglugerðin heimilar.

Á grundvelli framangreinds samþykkti stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur á fundi sínum 22. febrúar 2010 að krefjast þess að stjórnvöld byggingarmála í Reykjavík framfylgi ákvæðum í 61. gr. byggingarreglugerðarinnar. Sérstök áhersla verði lögð á ákvæði í 6. mgr. greinarinnar sem fjallar um húsnæði sem er í þannig ástandi að ásigkomulag þess er ábótavant eða af því stafi hætta eða það sé heilsuspillandi og eða óhæft til íbúðar. Ekki verði hikað við að beita heimild til dagsekta til að knýja húseigendur til að halda íbúðahúsnæði í ástandi sem sé í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og um það verði mynduð heildstæð stefna. Ef ekki verður brugðist við af hendi húseigenda gæti borgin eignast viðkomandi húseignir og síðan úthlutað þeim til þeirra sem áhuga hafa á að eignast þær og lagfæra að settum ströngum skilmálum um frágang og tímasetningu.

F. h. stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur,

Magnús Skúlason formaður.

Afrit: Borgarstjórinn í Reykjavík,
Hverfisráð miðborgar Reykjavíkur.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík.

2. Gjaldskylda - Fundur í Hverfisráði Miðborgar og Hlíða með Kolbrúnu Jónatansdóttur frá Bílastæðissjóði. Meðal þess sem spurt var varðaði jafnræði íbúa í Rvk á að leggja bílum sínum við heimili sín. Svarið við þeirri spurningu var að, deiliskipulag takmarkar rétt íbúa í miðborginni. Aukinn réttur íbúa miðborgar til notkunar bílastæðahúsa sem og endurskoðun á hólfaskiptingu mun verða skoðað.

Helsti ávinningur fundarins með fulltrúa frá Bílastæðissjóð er að loksins eftir ítrekaðar óskir þess efnis, var talað við okkur.

3. Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur á lóð Austurbæjarskóla.Þann 3. maí komu saman til fundar, Ómar Einarsson sviðstjóri ITR, Magnús Skúlason formaður íbúasamtakanna og Birgitta Bára formaður foreldrafélags Austurbæjarskóla. Voru lögð fram ýmis gögn varðandi mögulega nýtingu á húsnæðinu fyrir tómstunda og félagslíf, þ.á.m. kostnaðaráætlun og drög að skipulagningu húsnæðissins. Ómar mun leggja tillögurnar fyrir stjórnarfund ITR í næstu viku.

4. Heilsuverndarstöðin. Hugmyndir um nýtingu, heilsutengt / hótel eru ennþá til skoðunar hjá Borgarskipulagi.

5. Hávaðamál - Viðvarandi ófremdarástand sem enginn virðist hafa vilja eða þor til að taka á. Stjórn Íbúasamtakanna heldur áfram að leita leiða.

Fundi slitið klukkan 19:00

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is