ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 2. febrúar 2009

Þann 2. febrúar 2009 kom stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur saman til fundar. Fundurinn var haldinn í Félagsmiðstöðinni að Skúlagötu 21, 101 Reykjavík. Fundurinn hófst kl. 17.00.

Mætt eru: Kári Halldór, Benóný, Magnús, Hlín, Gylfi, Kristinn og Lilja. Auk þess mættur Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri sem var sérstaklega boðið á fundinn.

Á fundinum gerðist eftirfarandi:

1. Brunar í miðbænum og auð hús. Jón Viðar sýnir blaðaúrklippur og segir frá hættunum sem auð hús bjóða uppá, bæði fyrir útigangsfólk sem leitar í húsin og fyrir slökkiliðsmenn sem þurfa að vinna við mjög erfiðar aðstæður. Jón Viðar segir frá því þegar Slökkviliðið gerði úttekt á ólöglegu íbúðarhúsnæði í borginni en undanfarið hafa iðnaðarhúsnæði verið leigð út sem íbúðir í auknu mæli.

Kynnt og rædd var úttekt Slökkviliðsins ,,Skoðun og kortlagning auðra bygginga” frá apríl 2008. Í skýrslunni voru nefnd 57 hús sem mörg voru í verulega slæmu ástandi og dróu að sér bæði útigangsfólk og forvitin börn. Í skýrslunni eru tveir flokkar, flokkur A -hús sem eru hættuleg í núverandi ástandi, sem slökkiliðsstjóri sér um úrvinnslu á og flokkur B -sem eru síður hættuleg sem skipulagsyfirvöld sjá um. Þá kynnir Jón Viðar aðra skýrslu frá í ágúst 2008 þar sem farið var yfir sömu hús aftur og staða þeirra metin á ný. Þá hafði verið hugað að einhverjum jákvæðum breytingum við flest húsanna, byrgt fyrir hættulegar inngönguleiðir, rusl fjarlægt eða málað yfir krot, sjaldnast var breytingin þó mjög mikil. Áhyggjuefni er hvað er framundan, því undanfarna daga hefur t.d. auðu verslunaplássi við Laugaveg fjölgað mjög mikið.

Rætt er um byggingareglugerð og dagsektir, hvað eru raunhæfar upphæðir í slíkum sektum svo innheimta beri árangur. Það er ljóst að byggingafulltrúi hefur ekki staðið við kröfur gagnvart eigendum auðra húsa og sektir eru ekki innheimtar. Í raun væri sjálfsagt að borgin gerði kröfu í hús þar sem eigendur standa ekki í skilum.

Rætt er stuttlega um eldvarnir á skemmtistöðum og breytingar í kjölfar reykingabanns, en þá höfðu eigendur staða stundum komið sér upp reykingaaðstöðu utandyra sem hindraði greiða neyðarútgönguleið. Fram kom að slökkviliðið fer reglulega í leiðangur og athugar ástand og öryggi á slíkum stöðum. Einnig kemur fram að mörg útköll verða þegar að morgni til þegar hungraðir næturhrafnar snúa heim og hyggjast elda sér máltíð.

Rætt er stuttlega um ástandið hér í samanburði við erlendar borgir og þá eru helst nefndar til skandinavískar borgir þar sem mikið er um timburhús og byggð mjög þétt.

Rætt er um að sérstök krafa ætti að vera um eldvarnir í friðuðum húsum.

Jón Viðar kveður kl. 18.22.

2. Umræður um ýmis mál. Magnús segir frá fundi með Hverfisráði. Hverfisráð samþykkti að beina þeim tilmælum til Faxaflóahafna og Skipulagsráðs að Slippareitur verði innan þess svæðis sem hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag gömlu hafnarinnar tekur til.

Þá hafði menningarstefnan einnig verið rædd í Hverfisráði, en athuga þarf einhverja hluta hennar betur, td skipulagsmál og menningu barna.

Kristinn segir frá því að nýju reglurnar um bílastæðakortin séu í endurskoðun í kjölfar fjölda athugasemda sem bárust Bílastæðasjóði. Málið verður kynnt betur á næsta fundi.

Benóný segir fólki mismunað með reglum um hundabann á Laugavegi og í kjarna miðbæjar, íbúum á svæðinu er gert illmögulegt að eiga hunda og neyðast þeir til að brjóta lög oft á dag.

Benóný les upp tilkynningu um breytingu á aðalskipulagi sem auglýst var í blaðinu í dag, frestur til athugasemda er 16 mars og ákveðið er að mikilvægt sé að málið verði skoðað betur.

Magnús sýnir breytingar á bréfi varðandi snjómokstur og söltun gatna, bréfið er samþykkt.

Kristinn tekur að sér að skrifa tillögu að bréfi varðandi tímabundna víxllokun gatna svo gatnaþrif gangi auðveldar fyrir sig.

Rætt er um mikilvægi þess að virkja íbúa í þrifum, snjómokstri og öðru sem bætir hverfið, með greinarskrifum, fréttatilkynningum og öðru slíku.

Ákveðið að boða Áslaugu Friðriksdóttur frá Miðborg Reykjavíkur á næsta fund 16. febrúar.

Fundi var slitið kl. 19.00.

Fundargerð skrifaði Lilja Gunnarsdóttir.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Lækjargötu á tímabilinu 1907-1911. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is