ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 26. nóvember 2013

Aðalfundur íbúasamtaka miðborgar, haldinn í Iðnó 26. nóvember 2013, kl. 20:00

Sérlegur gestur fundarins, Guðjón Friðriksson.

Fyrir utan stjórn voru 12 fundargestir mættir.

Einar Karl Haraldsson var kosinn fundarstjóri.

Fundarstjóri kynnti dagskrá fundarins. Fyrsti liður á dagskrá var skýrsla stjórnar sem formaður Íbúasamtakanna Sverrir Sverrirsson flutti og sýndi jafnframt glærur máli sínu til stuðnings.

1 - Breyting á stjórn. Sagt frá þeirri breytingu sem orðið hafði á stjórn frá síðasta aðalfundi, en Magnús Skúlason sagði af sér formennsku þegar hann tók við embætti hjá Húsafriðunarnefnd. Magnúsi voru þökkuð vel unnin störf fyrir samtökin.

2 -Skipulagsmál. Kynntar athugasemdir sem samtökin hafa gert við aðalskipulag borgarinnar m.a. rýmkað leyfi á rekstri veitingahúsa í flokki III í nálægð við íbúðabyggð.

3 - Deiliskipulagstillögur. Landssímareitstillagan, sem nú hefur verið samþykkt í kerfinu.

4 - Sameining lóða, sem oft er undanfari þess að stórar byggingar rísa.

5 - Óleyfisframkvæmdir.

6 - Veitingaleyfi í miðborginni.

Umhverfismál

1 - Friðun húsa- Í byrjun árs tóku í gildi lög um Minjastofnun, sem hefur m.a. með friðun og affriðun húsa að gera. Töluvert virðist vera um að umsóknir berist um affriðun eldri húsa.

2 - Betri hverfi, íbúakosning. Hugmyndin að auknu íbúalýðræði góð en fjármunir allt of takmarkaðir til að láta góð verkefni í framkvæmd.

3 - Laugavegur göngugata, Íbúasatökin hafa stutt lengri sumarlokun.

4 - Útisundlaug við Sundhöllina. Búið að setja fjármuni í framkvæmdina fyrir næsta ár.

5 - Hávaði frá veitingahúsum.

6 - Akstur hópferðabíla um miðborgina. Ekki hafa gilt neinar reglur en Íbúasamtökin óskuðu eftir því við borgaryfirvöld að settar yrðu reglur. Borgin átti í framhaldi fund með fyrirtækjum í ferðaþjónustu og kynnti akstursleiðir hópferðabíla um gamla bæinn. Ekki eru enn komnar skýrar reglur en þær eru í bígerð.

7 - Félagsmiðstöð fyrir ungmenni. Íbúasamtökin í samstarfi við foreldrafélag Austurbæjarskóla hafa unnið ötullega að því markmiði að fá gömlu Spennistöðina á lóð Austurbæjarskóla sem félagsmiðstöð fyrir ungmenni í hverfinu.

8 - Sorphirða í miðborginni.

9 - Snjómokstur.

10 - Framkvæmd laga og reglugerða. Íbúasamtökin hafa fylgt eftir erindum sem berast varðandi misbrest á samráði milli íbúa og yfirvalda.

11 - Umboðsmaður borgara.

 

Starf Íbúasamtakanna

1 - Stjórnarfundir haldnir tvisvar sinnum í mánuði.

2 - Fjöldi skráðra félaga í samtökunum er 154.

3 - Fundir Hverfisráðs Miðborgar og Hlíða eru haldnir mánaðarlega. Fundirnir hafa gengið vel en sá galli er á regluverkinu að þau hafa engin formleg völd. Hægt að koma málum á dagskrá.

Mismunandi hversu mikil aðkoma íbúasamtaka sem starfa innan borgarinnar eru að viðkomandi hverfisráðum. Mörg hverfi hafa litla aðkomu en Íbúasamtök Miðborgarinnar telja sig hafa skýra aðkomu.

 

Umræða um skýrslu Stjórnar

Erlingur Gíslason tekur fyrstur til máls. Hann hefur ekki áður mætt á fund Íbúasamtakanna. Hann lýsti miklum áhyggjum yfir ástandinu við Tjörnina í Reykjavík, þar sem svartbakur og máfur dafna vel og éta upp alla andarungana, krían er hætt að sjást en hún varði lífið við Tjörnina. Hann lagði til að komið verði upp máfagildrum.

Erlingur sagði einnig sína skoðun á flugvellinum í Vatnsmýrinni og sagði að það vantaði kríu á dreifbýlisvarga.

Pétur Ármann og talar um Landssímahúsið. Sverrir svaraði og tók undir mikilvægi þess að íbúum gæfist tækifæri til að segja sína skoðun. Reyndin væri hinsvegar því miður sú að það virðist ekkert tillit vera tekið til þess.

Gunnar Ólafsson vakti máls á hópmálsókn, sem möguleika íbúa til að knýja á um málefni einkum þegar byggt er eða framkvæmt á þann hátt að það rýri verðmæti nærliggjandi eigna.

Þóra Andresdóttir. Valtað yfir borgarbúa og ekki hlustað á athugasemdir. Sjarmi Reykjavíkur liggur í gamla borgarhlutanum og lágreistri byggð. Tveir spænskir arkitektar hafa mælt með því að Reykjavík fari á heimsminjaskrá Unesco. Þá yrði friður í borginni.

 

Ársreikningur Íbúasamtakanna kynntur af gjaldkera Guðrúnu Á Janusdóttur.

 

Kosning stjórnar

Kosning formanns. Sverrir Þ. Sverrisson tekur formlega við embætti formanns.

Í stjórn eru kosnir tveir nýir aðalmenn, Einar Örn Thorlacíus og Gunnar B. Ólason og þrír varamenn, Magnús Skúlason, Birgitta Bára Hassenstein og Eggert Feldskeri.

Skoðunarmenn reikninga frá upphafi eru þér Þorsteinn Haraldsson og Björn Líndal, munu þeir sinna því áfram.

 

Sérlegur gestur fundarins Guðjón Friðriksson rekur sögu Laugavegarins

Laugavegurinn var í upphafi ekki hugsaður sem verslunargata, en reyndin er sú að verslanir við Laugaveginn skipta þúsundum frá upphafi vega. Upphaflega byggður fyrir lauga-konurnar sem fóru með þvott inn í þvottalaugarnar í Laugadal.

Leið þeirra sem komu til borgarinnar var um Bústaðaveginn og Skólavörðustiginn.

Upphaf Laugavegar má rekja til ársins 1885, en þann 17. september það ár var ákveðið að ráðast í atvinnubótavinnu á vegum fátækranefndarinnar. Verslun var á þessum tíma aðallega í Hafnarstræti. Laugavegurinn verður fullmótaður sem verslunargata upp að Hlemmi árið 1930. Þá bjuggu 3.000 manns við Laugaveginn.

Fundi slitið um kl. 22:00

 

Skýrsla stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar starfsárið 2012 – 2013
Skýrsla sú sem hér er flutt um störf stjórnar á liðnu starfsári er hvoru tveggja kynning á megin verkefnum stjórnar Íbúasamtakanna á liðnum misserum og á helstu verkefnum liðins starfsárs. Í upprifjun á starfi liðins árs er einnig fjallað um einstök mál sem stjórnin hefur unnið að á liðnu ári.

Á starfsárinu sem hófst í þann 26. nóvember 2012 og lýkur hér á þessum fundi var Magnús Skúlason endurkjörinn formaður Íbúasamtakanna. Breytingar urðu hins vegar á stjórninni þegar þáverandi menntamálaráðherra skipaði Magnús Skúlason formann Húsafriðunarnefndar í janúar 2013. Í kjölfarið óskað Magnús eftir að láta af störfum formanns og víkja úr stjórninni til að tryggt væri að ekki gæti komið til vanhæfis vegna starfa í stjórn Íbúasamtakanna og formennsku Húsafriðunarnefndar. Varaformaður stjórnar Sverrir Þórarinn Sverrisson tók við formennsku í febrúar 2013. Magnúsi eru hér þökkuð áralöng heilladrjúg störf sem formaður samtakanna og einnig þess velvilja að hafa með góðum ráðum stutt núverandi stjórn eftir að hann lét af stjórnarformennsku. Á starfsárinu voru að jafnaði haldnir 1til 2 stjórnarfundir í mánuði og er hér drepið á nokkur þeirra mála sem til umfjöllunar voru á fundum stjórnarinnar á starfárinu.

Skipulagsmál
Að venju voru skipulagsmál fyrirferðamikil á liðnu ári. Fjallaði stjórnin um tillögur að nýju aðalskipulagi og deiliskipulagstillögur og sendi inn athugasemdir sínar vegna Aðalskipulags Reykavíkur 2010 – 2030, deiliskipulags Landsímareitar og deiliskipulag Njálsgötureitar.

Þann 16. september sendi stjórn Íbúasamtakanna inn athugasemdir við kynnta tillögu að Aðalskipulagi áranna 2010 – 2030. Athugasemdir voru gerðar við nýja skilgreiningu á Miðborgarsvæði 1c þar sem gert er ráð fyrir að heimila megi rekstur veitingastaða í flokki þrjú á svæðum sem ekki hefur verið opnað fyrir rekstur slíkra staða áður. Veitinghús í flokki þrjú eru skv. ákvæðum í lögum um veitinga- og gististaði vínveitingastaðir sem leyft er að séu opnir eftir klukkan 23:00. Eins gerði stjórnin athugasemdir við þéttingu byggðar væri að mestu leyti fundinn staður í vesturhluta borgarinnar á svæði miðborgarinnar og vesturbæjarins. Í nýja Aðalskipulaginu er nú skilgreint að hæðir húsa á skilgreindu svæði miðborgarinnar megi mest vera 5 hæða byggingar. Íbúasamtökin lögðu m.a. til á undirbúningsfundi við gerð Aðalskipulagsins að í miðborginni innan Hringbrautar yrði hæðir hús yrðu almennt miðaðar við núverandi byggð sem að mestu eru 2 til 3 hæða byggingar. Ekki var tekið tillit til þeirra sjónarmiða. Nú hefur Aðalskipulagið verið samþykkt í Umhverfis- og skipulagsráði og er ekki að sjá að í neinu sé tekið tillit til framkominna athugasemda Íbúasamtakanna.

Á árinu var kynnt nýtt deiliskipulag Njálsgötureitar og fjallaði stjórnin um það skipulag í athugsemdabréfi til Skipulags- og umhverfisráðs. Um var að ræða endurgert skipulag á svæðinu. En áður kynnt skipulag hafði verið kært og það fellt úr gildi. Í umsögn stjórnar var almenn verndunarsjónarmið reifuð og m.a. tekið fram að stjórnin sæi ekki að sérstök þörf væri á hækkun húsa við Njálsgötu yfirleitt en leggðist ekki gegn heimildum fyrir byggingum á baklóð húsa enda geta slíkar byggingar komið sér vel til endurbóta húsa við götuna.

Sundhöllin við Barónsstíg.
Nú hefur Reykjavíkurborg ákveðið að farið verði í byggingu útilaugar við Sundhöllina og var í liðinni viku tilkynnt úrslit í samkeppni arkitekta um útfærslur á nýrri laug sem byggð verður á næstu árum. Til verksins eru áætlaðar 150 mkr. á næsta ári og verður þá hafist handa við hönnun á grundvelli þeirrar tillögu sem veitt voru 1. verðlaun í samkeppninni. Stjórn Íbúsamtakanna fagnar þeim áfanga að nú skuli hafist handa við byggingu útlaugar í miðborginni.

Spennistöðin við Austurbæjarskóla
Um langt árabil hafa Íbúasamtökin leitað leiða til að bætt verði úr nánast algjöru aðstöðuleysi barna og unglinga í miðborginni til frístunda- og félagstarfs. Í ljósi þeirra aðstæðna og þess að Íbúasamtök Miðborgar, Foreldrafélag Austurbæjarskóla og Hverfisráð Miðborgar hafa um árabil barist fyrir nauðsynlegum úrbótum skorað stjórn samtakanna með opnu bréfi á borgarfulltrúa að bæta nú úr þeim ójöfnuði sem hefur verið látinn viðgangast með því  að tryggja með raunhæfum hætti nauðsynlegt fjármagn á árinu 2014 til verkefnisins "Spennistöðin við Austurbæjarskóla„

Umboðsmaður borgarbúa.
Stjórn óskaði borgarráði og nýráðnum umboðsmanni borgarbúa velfarnaðar þegar tilkynnt var um ráðningu Inga B. Poulsen á vordögum. Hugmynd um nauðsyn þess að koma á embætti umboðsmanns borgarbúa hafði oft komið fram og var m.a. ein margra hugmynda sem ræddar voru á íbúaþingi Miðborgar sem haldið var í Iðnskólanum haustið 2011. Það var því full ástæða til að fagna þeim breytingum sem stofnun umboðsmanns borgarbúa getur haft í för með sér til að tryggja betur góða stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Um miðjan júní leitaði stjórn Íbúasamtakanna síðan til umboðsmanns borgarbúa vegna stjórnsýslu borgarráðs sem ekki hafði sinnt erindi Íbúasamtakanna frá marsmánuði vegna upplýsinga um sérstakan styrktarsamning borgarráðs við samtökin Miðborgin okkar. Álit umboðsmanns borgarbúa liggur enn ekki fyrir en skv. upplýsingum er þess að vænta á næstu dögum.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is