ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Aðalfundur 25. nóvember 2009Annar aðalfundur Íbúasamtaka miðborgar var haldinn á 2. hæð Iðnó þann 25. nóvember 2009 og hófst fundurinn kl 20.00. Til fundarins var boðað með auglýsingu í Fréttablaðinu 11. nóvember og tölvupóstum til félagsmanna. Mættir voru tæplega 20 manns að meðtalinni stjórn. Formaður íbúasamtakanna, Magnús Skúlason, lýsti fundinn settan og stakk uppá Sigurmari K. Albertssyni sem fundarstjóra og Lilju Gunnarsdóttur sem fundarritara, engar athugasemdir voru gerðar við það og kynnti Sigurmar að því búnu fyrsta dagskrárlið. 1. Skýrsla stjórnar um störf á liðnu ári.. Magnús kynnti helstu viðfangsefni stjórnar á liðnu ári. Þar kom fram stuðningur við undirskriftasöfnun íbúa í hverfinu gegn fyrirhugaðri byggingu LHÍ við Laugaveg, bílastæðamál íbúa, bréfaskrif um snjómokstur og gatnahreinsun. Tekist var á við hávaðann sem fylgir skemmtistöðum í miðborginni og fundað bæði með lögreglustjórum, embættismönnum og íbúum og reynt að finna lausn á vandanum. Í kjölfarið settu borgaryfirvöld nefnd á laggirnar sem var falið að vinna að þessum málum, nefndin hefur þó ekki skilað skýrslu sem átti að vera tilbúin í október. Ýmis skipulagsmál komu á borð stjórnar, svo sem skipulag um Slippareit, Grundarstíg 10 en einnig var fjallað um jákvæðar breytingar eins og til dæmis á Hljómalindarreit. Þá var fundað með slökkviliðsstjóra vegna auðra húsa, fjallað um aðstöðuleysi barna og unglinga í hverfinu og vefsíða íbúasamtakanna endurbætt. Orðið var gefið laust en engar athugasemdir gerðar. 2. Endurskoðaðir reikningar samtakanna. Hlín Gunnarsdóttir gjaldkeri kynnti ársreikning og gerði grein fyrir þeim mun sem er á reikningum síðustu ára. Eiginfjárstaða samtakanna er 4.858 krónur en gefið hefur verið vilyrði fyrir nýjum styrk frá Reykjavíkurborg sem væri að öllum líkindum sama upphæð og 2008. Kostnaður á árinu hefur verið vegna auglýsingar um fundarboð í Fréttablaðinu og væntanlegur er reikningur vegna hýsingar á léni samtakanna. Reikningarnir samþykktir einróma. 3. Lagabreytingar. Ekki voru lagðar til lagabreytingar að þessu sinni svo hlaupið var yfir þennan dagskrárlið. 4. Kjör formanns. Formaður situr til tveggja ára í senn svo ekki var þörf á kjöri þetta árið. 5. Kosning stjórnar. Óskað var eftir framboðum í stjórn og stungið var upp á Benóný Ægissyni, Bryndísi Jónsdóttur og Guðrúnu Janus í stjórn til tveggja ára. Til eins árs í stjórn var stungið upp á Arnari Kristjánssyni og varamenn til tveggja ára voru kjörnir Sigurður Sigurðsson og Sigríður Gunnarsdóttir. Kosning var samþykkt einróma með lófaklappi. 6. Kosning skoðunarmanna reikninga. Skoðunarmenn reikninga verða þeir sömu í tvö ár og því var dagskrárliðurinn ekki til umræðu. 7. Fjárhagsáætlun næsta árs. Stuttlega var rætt um fjárhagsáætlun næsta árs. Hlín greindi frá því að vilyrði fyrir styrk frá Reykjavíkurborg hafi aðeins legið fyrir frá því fyrr um daginn svo lítill tími hafi gefist til að undirbúa hvernig því fé verði varið. Hinsvegar er fjárhagur samtakanna mjög takmarkaður svo reiknað er með að styrkurinn gangi líkt og áður í auglýsingar og viðhald vefsíðu. 8. Vinnuhópar. Ákveðið er að ný stjórn taki að sér mótun vinnuhópa á næstunni svo ekki var málið rætt frekar á fundinum. 9. Verkefni næsta árs. Magnús kynnti verkefni næsta árs en meðal annars verður fylgt eftir hávaðamálunum, hugað að fegrunarmálum í hverfum og húsverndarstefnu Reykjavíkur ásamt öðrum málum sem koma upp með nýrri stjórn. 10. Önnur mál. Magnús Skúlason bar upp tillögu til samþykktar, hún var svohljóðandi: Lokunartími allra veitingastaða í miðborginni verði til kl. 3.00 aðfaranótt laugardaga og sunnudaga. Rætt var um hvort gera mætti auknar kröfur um hljóðeinangrun á skemmtistöðum. Gerð var athugasemd við orðalag þriðja liðar og hvort æskilegt væri að taka út ,,fjarri íbúabyggð” úr tillögunni. Borin var upp tillagan með þeirri breytingu en töldust fleiri samþykkir því að halda henni óbreyttri, tillagan var því samþykkt. Kári Halldór sagði frá þeim vanda sem hverfið hefur þurft að takast á við með auknum umsvifum íbúðahótela í hverfinu og sífellt fjölgandi umsóknum og deiliskipulagsbreytingum vegna slíkrar starfssemi. Hann sagði frá slæmum vinnubrögðum skipulagsyfirvalda og hvernig leyfi eru sífellt teygð íbúum í óhag. Gerla sagði frá því að í skipulagsráði hafi verið fjallað um málið og ákveðið að skoða stöðu svipaðra mála á norðurlöndunum. Magnús sagði frá því að íbúasamtökin hafi óskað eftir úttekt á gistirýmum í miðborginni og þarfagreiningu áður en ný leyfi eru veitt. Úlfar spurði hvort samþykkt liggi fyrir um hótel í Skuggahverfis turni og Magnús svaraði að samþykkt væri ekki fyrir hendi að svo stöddu. Sigurður minntist á að slíkri starfssemi fylgi aukinn bílastæðavandi. Kári Sölmundarson minnti á að athygli pólitíkusa er með betra móti núna fyrir kosningar. Að því búnu kynnti Magnús Skúlason gestafyrirlesara kvöldsins, Hjálmar Sveinsson. Hjálmar flutti erindi um lífsgæði borgarinnar og áhrifavalda þeirra. Magnús þakkaði fyrir erindið og minntist á hvernig eignarétturinn er oft notaður sem réttlæting fyrir breytingum sem skerða oft lífsgæði annarra. Fundi var slitið kl. 21.35 Fundargerð skrifaði Lilja Gunnarsdóttir. |
Gömul myndGamla myndin er af Lækjargötu á tímabilinu 1907-1911. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |