ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 19. nóvember 2008

Fyrsti aðalfundur Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur var haldinn miðvikudaginn 19. nóv. 2008 í Iðnó uppi. Fundurinn hófst kl. 20:00. Á fjórða tug félagsmanna sótti fundinn.

Formaður Íbúasamtakanna, Eva María Jónsdóttir (EMJ), bauð félagsmenn velkomna og sagði fundinn settan. Hún lagði til að Sigurmar K. Albertsson yrði fundarstjóri. Ekki komu fram aðrar uppástungur og tók Sigurmar við stjórn fundarins. Lúther Jónsson var kosinn fundarritari. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins. Boðað var til fundarins í samræmi við lög félagsins með tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn var auglýstur í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Hann var einnig boðaður þrisvar sinnum með tölvubréfi. Fundarstjóri úrskurðaði að aðalfundurinn væri löglegur þar sem löglega hafi verið boðað til hans. Að því mæltu var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla stjórnar um störf samtakanna og nefnda. Formaður EMJ flutti skýrslu bráðabirgðastjórnar sem starfað hefur frá stofnun samtakanna í mars síðastliðnum. Meðal annars kom fram í máli hennar að stjórnin hafi lagt upp með margvísleg verkefni en árangur hafi verið misjafn, sumt tókst vel en annað miður. Fundir hafa verið haldnir með tveimur borgarstjórum. Þeir hafa tekið erindum vel, en minna hefur orðið úr framkvæmdum. Samstarfi hefur verið komið á við íbúasamtök, tekin afstaða til ýmissa framkvæmda á svæðinu og komið upp heimasíðu samtakanna.

Fulltrúi íbúasamtakanna hefur verið áheyrnarfulltrúi í hverfisráði borgarinnar en það er skipað fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Stjórnarmenn hafa einnig tekið þátt í fundum samtaka sem láta sig varða umhverfi og aðstæður í miðborg Reykjavíkur. Sóttur var fundur Hollvinasamtaka Hallargarðsins og ráðstefna Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um skipulagsmál. Stjórnin átti fund með forsvarsmönnum Listaháskóla Íslands.

Að aflokinni skýrslu formanns lagði fundarstjóri til að gjaldkera yrði gefið orðið um reikninga samtakanna. Þegar gjaldkeri hefði lokið máli sínu um reikninganna yrði orðið gefið frjálst um skýrslustjórnar og fjármál samtakanna. Fundurinn samþykkti þessa tilhögun.

2. Endurskoðaðir reikningar samtakanna. Gjaldkeri íbúasamtakanna, Hlín Gunnarsdóttir, kynnti reikninga samtakanna fyrstu átta mánuðina. Fram kom að samtökin fengu 186 þúsund kr. styrk frá Reykjavíkurborg. Helstu útgjöld voru vegna hönnunar á heimasíðu og vegna auglýsinga á aðalfundi samtakanna. Útistandandi skuld að upphæð kr. 12.450 er vegna kaupa á léni fyrir heimasíðuna. Rekstrarútgjöld voru 139 þúsund kr. Tekjuafgangur er rúmar fjörutíu og sex þúsund krónur.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslur formanns og gjaldkera.

Fyrst tók til máls Anna Atladóttir sem þakkaði stjórninni vel unnin störf og benti á nauðsyn þess að minna á fundi og aðrar samkomur á vegum samtakanna með sendingu á tölvubréfum til félagsmanna. Þetta væri nauðsynlegt til að tryggja mætingu á fundina.

Guðrún Ásmundsdóttir, sem er fulltrúi í hverfisráði miðborgarinnar, þakkaði formanni EMJ fyrir störf hennar sem formanns Íbúasamtakanna og fyrir þátttöku hennar í fundum hverfisráð miðborgarinnar. Hún sagði formanninn hafa einstaka hæfileika til að vekja athygli á málum og örva fólk til dáða.

Ekki óskuðu fleiri eftir því að taka til máls undir þessum dagskrárlið. Formaður bar reikninganna upp til samþykktar fundarins. Ekki komu fram athugasemdir við reikninganna sem voru samþykktir einróma.

Þegar hér var komið fundarstörfum kom fram rökstudd dagskrártillaga. Fundarstjóri gaf Gylfa Kristinssyni (GK) orðið um tillöguna. Með tillögunni var lagt til að dagskrárliðurinn lagabreytingar yrði tekinn til afgreiðslu á undan kosningu formanns og stjórnar. Þetta væri nauðsynlegt vegna þess að í tillögum um breytingar á lögum félagsins væri gert ráð fyrir breyttri tilhögun við kosningu formanns og stjórnar. Nauðsynleg væri að fá niðurstöðu í það hvort fundurinn samþykkti lagabreytinguna á undan kosningunni.

Fundarstjóri bar dagskrártillöguna undir fundinn og var hún samþykkt án mótatkvæða. Við samþykkt tillögunnar breyttist röð dagskrárliða fundarins.

3. Lagabreytingar. GK gerði grein fyrir tillögum stjórnar um breytingar á lögum félagsins. Í máli hans kom fram að á stofnfundi íbúasamtakanna hafi komið fram gagnrýni á þær tillögur að lögum sem lágu frammi á fundinum. Niðurstaða stofnfundarins var að samþykkja lágmarksbreytingar á lögunum en jafnframt var stjórninni falið að endurskoða lögin og leggja fram á aðalfundinum tillögur um breytingar. Að þessu hafi stjórnin unnið ötullega og árangurinn mætti sjá á fjölrituðu blaði sem lá frammi á fundinum. Þess var einnig getið að lagabreytingatillögurnar hafi verið aðgengilegar á heimasíðu íbúasamtakanna frá 4. nóvember sl. GK fór yfir helstu breytingar sem lagt var til að gerðar væru á lögunum.

Nokkrar umræður áttu sér stað um lagabreytingarnar.

Anna Atladóttir spurði hvort ekki þyrfti að orða nákvæmlega hvað átt væri við með “fundarboð með tryggilegum hætti”. GK svaraði því til að átt væri við að boðun fundarins væri bréfleg eða með tölvubréfi.

Gestur Ólafsson fagnaði lagabreytingunum einkum 1. punkti í 3. gr. þar sem rætt er um að tilgangur og markmið samtakanna sé “að efla samhug og samkennd íbúa”. Þetta sagði hann vera mjög mikilvægt atriði og beindi því til stjórnar að ræða með hvaða hætti væri hægt að ná þessu markmiði.

Fundarstjóri lagði til að lagabreytingarnar yrðu bornar upp í einu lagi. Þetta samþykkti fundurinn. Fundurinn samþykkti enn fremur lagabreytingarnar einróma en samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að í stað laga komi samþykktir Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur.

4. Kjör formanns til tveggja ára. Gengið var til kosningu stjórnar samkvæmt nýjum samþykktum íbúasamtakanna. Samkvæmt þeim bar fyrst að kjósa formann til tveggja ára. Lagt var hart að EMJ að gefa kost á sér til endurkjörs. Hún baðst eindregið undan því og bar við vinnuálagi. Fram kom tillaga um Magnús Skúlason. Hann var kosinn einróma.

5. Kosning stjórnar.

a. Kosning þriggja manna í stjórn til tveggja ára. Kosning í stjórn fór fram í fernu lagi sbr. bráðabirgðaákvæði í samþykktum félagsins. Fyrst voru kjörnir þrír menn í stjórn til tveggja ára. Kosningu hlutu Kári Halldór, Hlín Gunnarsdóttir og Ólafur Egill Egilsson.

b. Kosning þriggja manna í stjórn til eins árs. Þar næst voru kosnir þrír menn í stjórn til eins árs. Stungið var upp á Kristni Erni Jóhannessyni, Benóný Ægissyni og Lilju Gunnarsdóttur. Samþykkt samhljóða.

c. Kosning tveggja varamanna í stjórn til tveggja ára. Fram komu tillögur um að Gylfi Kristinsson og Halla Bergþóra Pálmadóttir verði varamenn í stjórn til tveggja ára. Tillögurnar voru samþykktar einróma.

d. Kosning tveggja varamanna í stjórn til eins árs. Loks var lýst eftir uppástungum um tvo varamenn í stjórn til eins árs. Fram komu tillögur um Evu Maríu Jónsdóttur og Hjörleif Stefánsson. Þær voru einnig samþykktar einum rómi.

6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Fundarstjóri lýsti eftir tillögum um skoðunarmenn reikninga íbúasamtakanna. Fram komu tillögur um Björn Líndal og Þorstein Haraldsson. Þar sem kjósa átti tvo skoðunarmenn töldust þeir sjálfkjörnir.

7. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs. Fundarstjóri lagði til að hlaupið yrði yfir þennan dagskrárlið þar sem stjórn hafi ekki gefist færi á að undirbúa fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár. Þetta var samþykkt.

8. Vinnuhópar. Kristinn Örn Jóhannesson var frummælandi undir þessum dagskrárlið. Hann greindi frá hugmyndum sínum um það hvernig koma mætti á hópastarfi innan íbúasamtakanna. Kristinn lagði til stofnun fjögurra hópa:

Skipulagshóps, hópur sem fjallaði um umhverfis- og framkvæmdamál, mennta- og tómstundahóps og félags- og velferðarhóps.

Tekið var vel í tillögur Kristins og ákveðið að stjórnin eigi frumkvæði að stofnun hópanna. Enn fremur verði þeir kynntir á heimasíðu samtakanna þar sem íbúum gefst kostur á að skrá sig til þátttöku.

8. Verkefni næsta árs. Nýkjörinn formaður Íbúasamtaka miðborgar, Magnús Skúlason, kvaddi sér hljóðs undir þessum dagskrárlið. Hann þakkaði það traust sem sér hafi verið sýnt með kosningu í embætti formanns. Hann þakkaði fráfarandi formanni EMJ fyrir vel unnin störf í þágu samtakanna. MS gerði síðan stuttlega grein fyrir því sem hann taldi brýnustu viðfangsefni samtakanna næsta starfsárið. Þar nefndi hann sérstaklega hverfisvernd.

Gestur Ólafsson þakkaði fráfarandi stjórn og óskaði hinni nýju heilla. Hvatti til þess að stjórnmálamenn komi og kynni þeirra sýn á framtíðarskipulagið.

Anna Atladóttir vildi vita hvernig allt fólkið ætti að komast leiðar sinnar ef Vatnsmýrin byggist upp og Skuggahverfið.

9. Önnur mál – erindi gestafyrirlesara. Síðasti liðurinn á dagskrá aðalfundarins var önnur mál. Þar sem enginn óskaði að taka til máls undir þeim lið var gestafyrirlesara Hjörleifi Stefánssyni gefið orðið. Hann flutti erindi um fagurfræði byggingarlistar og skyld efni og kynnti jafnframt tillögur vinnuhóps um skipulagsmál sem starfaði fyrir borgina, en án sýnilegs árangurs.

Magnús Skúlason þakkaði erindi Hjörleifs og hvatti menn til að kaupa bók hans, Andi Reykjavíkur.

10. Fundarlok. Þar sem dagskrá fundarins var tæmd gaf fundarstjóri fráfarandi formanni EMJ orðið. Hún bauð nýja stjórn velkomna og óskaði henni velfarnaðar. Hún lauk máli sínu með því að þakka fundarstjóra fyrir skörulega fundarstjórn og tók undir með Hjörleifi að stjórnmálamenn séu ekki heppilegir til að taka ákvarðanir um skipulagsmál.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 22:25.

Fundargerð skrifaði Lúther Jónsson.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Skólavörðustígnum um 1900. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is