ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðalfundur 15. október 2018

Aðalfundur íbúasamtaka Miðborgar haldinn í Iðnó 15. október 2018 kl. 20.

Mættir voru 26 íbúar. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf. Formaður stakk upp á Einari Thorlacius sem fundastjóra og Guðrún Erla Geirsdóttur sem fundarritari. Samþykkt.

1. Skýrsla stjórnar:
Formaður, Benóný Ægisson, flutti skýrslu stjórnar. Skýrslan er hér.

Boðið var upp á fyrirspurnir úr sal. Formaður gerði sérstaklega grein fyrir eftirfarandi: Samskiptum við eiganda Fríkirkjuvegar 11 vegna Hestagerðisins. Rútuakstri í hverfinu, t.d. að a.m.k. eitt fyrirtæki færi ekki að tilmælum borgarinnar varðandi að ,,pikka” ekki upp ferðamenn hér og þar um hverfið. Fundargestur ræddi  um ,,rauðaskrímslið” (Hop onm hop off) og að sá farþegaflutningabíll keyrði í ,,vitlausa” átt þ.e. upp Njarðargötu.  Vilborg Halldórsdóttir og fleiri tjáðu óánægju sína með rútuakstur í miðborginni, útsýnisflug þyrla yfir borginni og dróna.

Nokkrir fundargesta tjáðu sig um hve ,,dónalegt” hefði verið af þingmönnum okkar (Reykjavík norður) að taka annað fram yfir opinn fund Íbúasamtaka Miðborgar sem halda átti í Ráðhúsinu með þingmönnunum í síðustu kjördæmaviku. Menn voru sammála um að gera ætti aðra tilraun; í næstu kjördæmaviku.

Spurt var um framkvæmd við Umhverfisgöngur og útskýrði formaður hvernig standa ætti að þeim. Umræða var um hvernig haga beri samskiptum íbúasamtaka/íbúa við borgaryfirvöld í framtíðinni.  

2. Ársreikningur
Gjaldkeri, Guðrún Janusdóttir, kynnti ársreikning 27. sept. 2017 - 14. okt. 2018 (fylgiskjal II).  Helstu tölur; tekjur 2.331.120.-, gjöld 1.442.437.-. Í sjóði eru 1.463.073.-. Fundargestur tjáði ánægju yfir að samtökin væru vel rekin. Reikningar samþykktir samhljóða.

3. Stjórnarkjör
Benóný Ægisson gaf kost á sér áfram sem formaður og var kosin. Vilborg Halldórsdóttir gaf kost á sér í stjórn og skilaboð bárust frá Kára Sölmundarsyni.

Nýja stjórn skipa: Benóný Ægisson, Birgitta Bára Hassenstein, Eva Huld Friðriksdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Guðrún Janusdóttir, Ragnhildur Zoega og Vilborg Halldórsdóttir. Varamenn: Aðalsteinn Jörundsson, Birna Þórðardóttir, Einar Thorlacius, og Kári Sölmundarson. Félagslegur skoðunarmaður reikninga var kosinn Gestur Ólafsson.

4. Framtíðarsýn
Formaður gerði grein fyrir að mörgu sem unnið hefi verið að væri enn ólokið - ný stjórn mundi halda áfram þeirri vinnu. Auk þess óskaði hann eftir að undir liðnum önnur mál legðu fundargestir fram hugmyndir að því hverjar helstu áherslur ættu að vera.

5. Önnur mál
Umræða um veitingahúsarekstur. Mikil óánægja kom fram með nýjan bar sem búið væri að samþykkja i kjallara ,,Bónushússins“ við Hallveigastíg og hann væri með útsvæði til norðurs við húsið. Ása Hauksdóttir kom með hugmynd: Að farið væri í hóplögsókn og athugað væri með gjafsókn. Samþykkt að senda borgaryfirvöldum ályktun (með greinagerð) vegna skipulagsbreytinga. Ályktunin er hér.

Fundargestur sagði erfitt fyrir, venjulega” íbúa að gera athugasemdir og mótmæla því sem borgin hygðist gera og óskaði eftir að til boða stæði aðstoð við að ,,stíla” slík bréf.  Einar Thorlacius (lögfræðingur og varmaður í stjórn) bauðst til að aðstoða við slíkt - svo framalega sem það væri ekki veigamikið.

Fundargestur benti á að allt starf, formanns og stjórnar, væri sjalfáboðavinna. Þar af leiðandi væru takmörk fyrir því hvað stjórn og formaður gætu tekið að sér.

Ásrún Kristjárndóttir og fleiri kvörtuðu yfir stefnubreytingu hjá borginni. Eftir að embætti borgarinnar hefðu verið flutt í Borgartún væri ,,ómögulegt” að ná sambandi við embættismenn. Hvorki væri hægt að fá viðtöl, né ná í þá í síma og algengt væri að þeir svöruðu ekki tölvupóstum - efnislega. Farið var fram á að stjórnin kæmi þessum kvörtunum á framfæri.

Vilborg Halldórsdóttir ræddi um bílastæðavanda. Nú væri hann sérstaklega mikill suð-austan í hverfinu vegna starfsmanna Landspítalans. Einnig var bent á bílastæðavanda  vegna ökutækja námsmanna MR og Kvennó. Fram kom að ef fólk hefði huga á að sett væri gjaldskylda á götu teldi borgin að íbúar ættu að hafa frumkvæði af því - þ.e. safna undirskriftum þeirra sem búa við götunni og send þær á borgina. 

Ásrún Kristjánsdóttir mæltist til að borgin kæmi upp litlum róluvöllum í hverfinu. Annar fundargestur vildi að borgin gerði átak í að setja hita í stéttar og fór fram á að stjórn fylgi því eftir.

Enn annar ræddi um að bæta þurfi rafmagnsvæðingu fyrir rafmagnsbíla í hverfinu enda sé aðstaðan hér allt önnur en í öðrum hverfum. Stjórn falið að koma því á framfæri við borgaryfirvöld.

Fundi slitið kl 22.15

Guðrún Erla Geirsdóttir

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is