ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 21. júní 2016

Stjórnarfundur Íbúasamtaka Miðborgar í Spennistöðinni
Mætt: Benóný, Gunnar, Guðrún Erla, Birgitta, Einar

1) Rætt um nýlegt álit umboðsmanns borgarbúa (3. júní 2016) á samstarfssamningi bílastæðasjóðs Reykjavíkurborgar og samtakanna "Miðborgin okkar." Í álitinu kemur fram að bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hafi verið óheimilt að ráðstafa tekjum sjóðsins með þeim hætti sem samningar hans við samtökin "Miðborgin okkar" fólu í sér. Einnig með hliðsjón af áliti borgarlögmanns og svörum bílastæðasjóðs til umboðsmanns að brotið hafi verið í bága við reglur Reykjavíkurborgar um styrkveitingar.

Stjórnarmenn voru mjög ánægðir með þetta álit umboðsmanns, enda í samræmi við kvörtun samtakanna til umboðsmanns 5. júní 2013 og í samræmi við fyrra álit umboðsmanns í málinu (frá 10. janúar 2014).

Jafnframt voru stjórnarmenn undrandi á viðbrögðum forsætisnefndar Reykjavíkurborgar á fundi sínum 16. júní sl. þar sem nefndin lýsti því yfir að ekki væri hægt að fallast á að þeir kjörnu fulltrúar sem áttu hlut að umræddri ákvarðanatöku sem væri "tímabundin ráðstöfun sem ætlað er að draga úr óvissu í málaflokknum" hafi á nokkurn hátt átt þátt í því að misnota almannafé né hafi farið á svig við siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. "Þvert á móti er verið að bregðast við ábendingum umboðsmanns með skipulögðum og markvissum hætti og breytt fyrirkomulag miðborgarmála mun taka gildi eigi síðar en um næstu áramót" segir m.a. í bókun forsætisnefndar.

Sérstaka athygli hefur vakið að hlutverk forsætisnefndar er að hafa umsjón með starfsemi umboðsmanns borgarbúa, ekki að leggja mat á álit umboðsmanns. Við samþykkt bókunarinnar 16. júní voru að auki þrír af þeim sex fulltrúum sem stóðu að bókuninni sömu fulltrúar og tóku þá ákvörðun sem álit umboðsmanns beindist að sem verður að teljast harla vafasamt með hliðsjón af almennum hæfisreglum sveitarstjórnarlaga.

Einari falið að semja drög að ályktun stjórnar í málinu.

2) Rætt um samþykkt síðasta stjórnarfundar (ályktun til borgarstjórnar). Formanni falið að kynna málið borgarfulltrúum og umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.

3) Sumargötur: Fram komu áhyggjur vegna verslunarrekstrar á Laugvegi sem ætti undir högg að sækja eftir að lokunartími hefði hafist í maí-byrjun. Rætt um að boða til fundar með hagsmunaaðilum, jafnvel opinn stjórnafund, á komandi hausti enda vill enginn að verslun hnigni í miðborginni þótt margt sé jákvætt við lokun gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann.

4) Erindi Bjarna Þorsteinssonar vegna Njálsgötu 37: Málið kynnt.

5) Lagt fram erindi Baldurs Þorsteinssonar. Málið kynnt

6) Rætt um ráðstöfun styrks úr Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar upphæð 400.000 kr. til verkefnisins Heil brú. Verkefnið gengur út á það að byggja brýr milli notenda Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstöðvar Miðborgarinnar. Féð verður notað til að ýmsra verkefna í Spennistöðinni, til að hafa smiðjur og málþing fyrir alla íbúa miðborgarinnar á laugardögum og mun starfsemin hefjast í haust.

Fleira gerðist ekki.

Einar Örn Th.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is