ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Tillaga og greinargerð StýrihópsReykjavík, 31. ágúst 2010 Borgarráð Reykjavíkur Efni: Umsögn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur um tillögu og greinargerð Stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða. Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur fjallaði á fundi sínum 5. júlí 2010 um greinargerð stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða, sem lögð var fram á fundi í borgarráði 21. maí sl. Á sama fundi lagði borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna einnig fram tilögu um sama mál þar sem tekið er undir tillögur íbúasamtakanna. Í greinargerðinni kemur fram að stýrihópurinn leggur til að opnunartími vínveitingastaða verði styttur í tveimur áföngum um eina klukkustund um helgar. Stjórn Íbúasamtakanna telur að framangreind greinargerð gæti verið betur unnin, tillögurnar um breytingar opnunartíma ófullnægjandi og lítt rökstuddar. Stjórnin átelur það sýndarsamráð sem haft var við Íbúasamtökin um þetta málefni. Einn lítið undirbúinn fundur haldinn degi áður en stýrihópurinn skilaði tillögum sínum til Borgarstjórnar sýnir hug þáverandi meirihluta Borgarstjórnar til virks íbúalýðræðis og samráðs um umbætur á umhverfi borgarbúa. Stjórnin heitir á nýjan meirihluta í Borgarstjórn að taka upp aðra og betri starfshætti. Stjórn Íbúasamtaka miðborgar vill nota þetta tækifæri til að minna Borgarstjórn á áralanga baráttu samtakanna við að vekja athygli Borgarstjórnar og annara hlutaðeigandi aðila á vaxandi hávaða frá auknum fjölda veitingahúsa í miðborg Reykjavíkur. Þessi þróun er íbúum til mikils ama og ónæðis. Iðulega keyrir um þverbak í þessum efnum um helgar þegar hljómsveitir og plötusnúðar stilla hljómflutningstæki þannig að húsnæði og innbú íbúa í næsta nágrenni leikur á reiðiskjálfi vegna hávaða þannig að fólki er vansvefta nótt eftir nótt. Um árabil hefur staðan verið sú að skilyrði sem sett eru til reksturs veitingastaða hafa verið átölulaust þverbrotin og lögregla og aðrir eftirlitsskyldir aðilar hafa látið hjá líða að framfylgja lögum og reglum sem gilda um hávaða og að mál sé að linni. Ástandið er þannig að það stofnar heilsu nágranna, gesta og starfsmanna þessara staða í hættu ásamt því að nálægar fasteignir falla í verði eða eru lítt seljanlegar. Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur minnir Bogarstjórn á ítarlega og vandaða úttekt á þessum málum frá árinu 2008 sem ber heitið Betri miðborg allan sólarhringinn. Stjórnin krefst þess að tillögum í þessari úttekt verði án tafar hrundið í framkvæmd. Því til viðbótar er sérstök áhersla lögð á kröfuna um að vínveitingastöðum verði lokað eigi síðar en kl. 3 eftir miðnætti um helgar og klukkustund að hámarki til að rýma staðina. Þetta þýðir ekki að veitingastöðum skuli öllum lokað á sama tíma, heldur gætu lokunartímar breyst viku til viku milli húsa. Þessi krafa Íbúasamtakanna er afar hófsöm einkum ef litið er til nágrannaborga eins og t.d. Kaupmannahafnar þar sem hin almenna regla gildir að veitingastaðir séu lokaðir milli 2.00 og 5.00 að nóttu. Stjórn Íbúasamtakanna vill minna á bréf Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Borgarstjóra frá 12. nóvember 2008. Þar kemur m.a. fram að íbúar miðborgarinnar búa við mun minna öryggi en íbúar annarra hverfa og tíðni glæpa á sér mikla samvörun í staðsetningu og opnunartíma skemmtistaða. Samþjöppun skemmtistaða ásamt lengdum opnunartíma hefur haft í för með sér algjört ófremdarástand í miðborginni. Stjórn íbúasamtakanna ítrekar að tillögur stýrihópsins ganga alltof skammt og krefjast frekari úrbóta og vísast m.a. til bréfs til borgarstjóra dagsett 24. júní sl. þar sem fram kemur að ástandið versnar stöðugt sbr. bréf íbúa í nágrenni við Bar 11 að Hverfisgötu 16 dagsett 20.júní sem sent hefur verið borgarstjóra. Stjórn Íbúasamtakanna vill að lokum leggja sérstaka áherslu á að tekið verði upp mun virkara og samræmdara eftirlit með starfssemi vínveitingastaða en tíðkast hefur undanfarin ár og jafnvel áratugi. Einum aðila verði falið þetta eftirlit og honum veittar þær valdheimildir sem duga til að ná eðlilegum tökum á ástandinu sem tryggir að íbúarnir njóti þeirrar verndar af lögum og reglum sem þeim ber. Virðingarfyllst Magnús Skúlason Afrit sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |