ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Íbúasamtök úti í kuldanum

Borgarstjórn Reykjavíkur
Pawel Bartoszek forseti

Borgarstjórinn í Reykjavík
Dagur B Eggertsson

Ályktun: Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skorar á borgarstjóra og forseta borgarstjórnar að beita sér fyrir því að það sé tryggt að öll stór íbúasamtök sem starfa með lýðræðislegum hætti í hverfum Reykjavíkur eigi sæti í íbúaráðum þeim sem fyrirhugað er að stofna.

Greinargerð: Tíu hverfisráð hafa verið starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og hafa þau verið skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa setið í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Á seinni árum hefur sú gagnrýni orðið hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Eitt af verkefnum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs sem starfaði frá 2014-2018 var að koma með tillögur um úrbætur og eflingu hverfisráðanna og drög að þeim skiluðu sér í nóvember 2018.

Í drögum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs er gert ráð fyrir borgarhlutaráðum og eitt þessara ráða átti að þjóna vesturhluta borgarinnar, Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum. Fulltrúar í borgarhlutaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða áttu að verða 9, 2 kjörnir fulltrúar, 3 fulltrúar íbúasamtaka og 4 fulltrúar valdir með slembivali. Stjórn ÍMR gerði nokkrar athugasemdir við drögin, aðallega um fyrirkomulag slembivalsins en almennt ríkti sátt um þessar tillögur, aðkoma íbúa var tryggð og það leit svo út að rödd þeirra myndi heyrast skýrt og greinilega enda hefðu þeir drjúgan meirihluta í ráðinu.

En þegar endanlegar tillögur svo birtust og voru samþykktar í borgarstjórn í sumar kom allt annar veruleiki í ljós. Íbúaráð þau sem eiga að leysa hverfisráð af hólmi eru skipuð sex fulltrúum, þremur úr borgarstjórn og þremur fulltrúum íbúa, meirihluti íbúanna er horfinn og auk þess gert ráð fyrir að formaður komi úr hópi borgarfulltrúa. Og það sem verst er þá eiga íbúasamtök með lýðræðislega kjörnum stjórnum ekki skilyrðislausan rétt til þátttöku. Sú breyting hefur verið gerð að Vestubærinn fær sitt eigið íbúaráð en hverfin Miðborg og Hlíðar eru spyrt saman og þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einum fulltrúa íbúasamtaka í ráðinu þá þurfa ÍMR og Íbúasamtök 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) að skiptast á um að eiga fulltrúa í íbúaráðinu.

Þetta fyrirkomulag er ótækt að mati stjórnar ÍMR. Við höfum átt gott samstarf við Íbúasamtök 3. hverfis í gegnum tíðina og gerum ráð fyrir að svo verði áfram en þessi hverfi eru ólík og eiga mismunandi hagsmuna að gæta. Þau eiga því óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Því er brýnt að fulltrúar beggja íbúasamtakanna sitji í ráðinu.

Með vinsemd

Reykjavík 29. ágúst 2019
F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Samrit sent borgarfulltrúum, fjölmiðlum og formönnum íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is