ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Ályktun um íbúaráðMannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð Ályktun: Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skorar á Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð að beita sér fyrir því að við endurskoðun á starfsemi íbúaráða í Reykjavík verði tekin upp sama skipan og var á hverfisráðunum sem íbúaráðin leystu af hólmi. Miðborgin og Hlíðarnar fái sitt sitt hvort íbúaráðið þannig að grasrótarsamtök hverfanna þurfi ekki að skiptast á um að eiga fulltrúa í íbúaráðinu. Hverfin eru á margan hátt ólík og íbúar hafa mismunandi hagsmuna að gæta og mörg mál rekast ekki vel í sameiginlegu ráði eins og Íbúaráði Miðborgar og Hlíða. Greinargerð: Tíu hverfisráð voru starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og voru þau skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar sátu í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Sú gagnrýni var orðin hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Skipun íbúaráða með jafnmörgum kjörnum fulltrúum og fulltrúum íbúa var því mikið framfaraskref. Tveir fulltrúar íbúa koma frá grasrótarsamtökum, íbúasamtökum og foreldrafélögum og með því að spyrða saman hverfin Miðborg og Hlíðar var ekki lengur tryggt að íbúasamtök sem starfa með lýðræðislegum hætti í hverfunum ættu sæti í íbúaráðunum. Tvenn stór íbúasamtök starfa í þessum hverfum, Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur og Íbúasamtök 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar. Á síðasta ári var nokkurt jafnræði í búsetu fulltrúa í Íbúaráði Miðborgar og Hlíða, jafnmargir úr báðum hverfum en vegna útskipta var enginn fulltrúi grasrótarsamtaka úr miðbænum á janúarfundi ráðsins. Engin trygging er fyrir því nú að jafnræði sé á milli hverfanna að þessu leyti. Stjórn ÍMR finnst þetta afleit staða og mælist því til þess að þessu verði breytt þannig að íbúaráðin verði tvö því núverandi fyrirkomulag er ótækt. Við höfum átt gott samstarf við Íbúasamtök 3. hverfis í gegnum tíðina og gerum ráð fyrir að svo verði áfram en þessi hverfi eru ólík og eiga mismunandi hagsmuna að gæta. Þau eiga því óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Það er brýnt að leysa þetta mál svo allir megi una sáttir við og helst þannig að hverfin eigi hvort sitt íbúaráð og sitji þannig við sama borð og önnur hverfi. Reykjavík 29. janúar 2021 Samrit sent borgarfulltrúum og Íbúaráði Miðborgar og Hlíða Með vinsemd F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |