ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Bréfaskipti Íbúasamtaka Miðborgar og Reykjavíkurborgar vegna styrkja til Miðborgarinnar okkarBorgarráð Reykjavíkur 13. mars 2013 Erindi: Fyrirspurn um samning Borgarráðs. Með bréfi þessu óskar stjórn Íbúasamtaka Miðborgarinnar eftir upplýsingum um hvort endurnýjaður hafi verið samningur Borgarráðs við félag í eigu rekstraraðila í miðborginni, Miðborgin Okkar, sem gerður var á árinu 2009 og rann út þann 31.12.2012. Hafi samningur þessi ekki verið endurnýjaður er óskað upplýsinga um hvort áformað sé að endurnýja hann. Í ofangreindum samningi er m.a. ákvæða samkomulag um að Bílastæðasjóður greiði 5% af tekjum sínum af stöðu og mælagjöldum til félagsins Miðborgin Okkar auk annarra greiðslna frá Reykjavíkurborg. Vegna ákvæða um ráðstöfun tekna Bílastæðasjóðs til félagsins er einnig óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða heimildir liggi fyrir til greiðslu úr Bílastæðasjóði til félagasamtaka eins og hér er um að ræða. Svar óskast eins skjótt og unnt er.
Ítrekunarbréf Íbúasamtakanna til borgarráðs: Borgaráð Reykjavíkur Reykjavík, 14. maí 2013 Mál: Ítrekun á fyrirspurn um samning Borgarráðs við félagið Miðborgin Okkar. Íbúasamtök Miðborgar vilja með bréfi þessu ítreka fyrirspurn sína um ofangreint efni frá 13. mars s.l. þar sem erindi þessu hefur enn ekki verið svarað. Samkvæmt fundargerð Borgarráðs þann 8. maí s.l. hefur Reykjavíkurborg nú gert nýjan samning við félagið Miðborgina Okkar. Af því tilefni er auk svars við erindi samtakanna óskað eftir afrit af samningi þessum og upplýsingum um kostunarlið samningsins skv. meðfylgjandi bókun fundar Borgarráðs. 21. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra: Borgarráð samþykkir meðfylgjandi samning við Miðborgina okkar fyrir árið 2013. Kostnaður greiðist af kostnaðarstað 09510, verkefni 01236. Jafnframt lagður fram undirritaður samningur milli félagsins Miðborgin okkar og Reykjavíkurborgar, dags. 23. apríl 2013. R09090072 Virðingarfyllst Samrit: Borgarstjóri
Svar formanns Bílastæðasjóðs: Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur Reykjavík 31. maí 2013 Erindi: Svar við fyrirspurn vegna styrkveitingar Undirrituðum hefur verið falið að svara fyrirspurn formanns Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur varðandi heimildir til greiðslu úr Bílastæðasjóði til félagsins Miðborgin okkar. Tekjum Bílastæðasjóðs, öðrum en tekjum af stöðvunarbrotagjöldum, er heimilt að ráðstafa án sérstakra heimilda. Fyrir hönd Bílastæðanefndar Bílastæðasjóðs Karl Sigursson, formaður
Bréf Íbúasamtakanna umboðsmanns borgarbúa Umboðsmaður borgarbúa Reykjavík, 5. júní 2013 Mál: Afgreiðsla borgarráðs og Bílastæðanefndar Bílastæðasjóðs á erindi Íbúasamtaka Miðborgar. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgarinnar óskar með bréfi þessu eftir að Umboðsmaður borgarbúa taki til skoðunar og efnislegrar umfjöllunar afgreiðslu borgarráðs Reykjavíkur á erindi Íbúasamtakanna til borgarráðs frá 13. mars s.l. um samning borgarráðs við félag í eigu rekstraraðila í miðborginni, Miðborgin okkar, um styrki til félagsins sem greiddir eru úr Bílastæðasjóði Reykjavíkur. Aðdragandi máls þessa er sá að stjórn Íbúasamtaka Miðborgarinnar sendi borgarráði Reykjavíkur bréf þann 13. mars 2013, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort borgarráð hefði eða hygðist endurnýja fyrrgreindan samning sem borgarráð hafði gert við félagið Miðborgin okkar á árinu 2009 með gildistíma til 31. desember 2012. Auk þessa var vegna ákvæða í áður nefndum samningi um ráðstöfun tekna Bílastæðasjóðs til félagsins einnig óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða heimildir lægju fyrir til greiðslu úr Bílastæðasjóði Reykjavíkur til félagasamtaka eins og hér er um að ræða. Þann 14. maí ítrekuðu Íbúasamtökin erindi sitt með bréfi til borgarráðs þar sem engin svör höfðu borist. Samningurinn sem Íbúasamtökin höfðu leitað eftir svörum um hafði þó verið til umfjöllunar og afgreiðslu á fundi borgarráðs þann 8. maí. Á þeim fundi var samþykktur nýr samningur við félagið og greiðslur úr Bílastæðasjóði hækkaðar úr 5% í 7 % af tekjum sjóðsins af tekjum af stöðu og mælagjöldum. Þar sem ljóst var orðið eftir fund borgarráðs þann 8. maí að nýr samningur hafði verið gerður var í ítrekunarbréfi Íbúasamtakanna við erindi samtakanna frá 13. mars einnig óskað eftir afriti af hinum nýja samningi. Íbúasamtökunum barst afrit af títtnefndum samningi þann 12. maí en engin svör við þeim spurningum sem fólust í erindi samtakanna. Þann 5 júní barst Íbúasamtökunum bréf dags. 31 maí sl undirritað af Karli Sigurðssyni f.h Bílastæðanefndar Bílastæðasjóðs. Í svari þessu sem væntanlega er ritað í umboði borgarráðs segir. " Tekjum Bílastæðasjóðs, öðrum en tekjum af stöðvunarbrotagjöldum, er heimilt að ráðstafa án sérstakra heimilda." Í svari þessu er hvergi vísað til þeirra ákvæða í samþykktum Bílastæðasjóðs Reykjavíkur eða öðrum heimildum sem heimila greiðslur af því tagi sem hér er um að ræða til félags í eigu rekstraraðila í miðborginni. Í erindi samtakanna var óskað upplýsinga um hvort heimildir og þá hverjar væru til staðar til slíkra greiðslna úr Bílastæðasjóði. Enn hefur því erindi Íbúasamtaka Miðborgarinnar ekki verið svarað og er því þrautarlendingin að leita til Umboðsmanns borgarbúa með ósk um að erindinu fáist efnislega svarað og að kannað verði hvort eðlilegt geti verið að Bílastæðanefnd Bílastæðasjóðs telji að engar takmarkanir séu á ráðstöfun tekna Bílastæðasjóðs af stöðu- og mælagjöldum til óskyldra aðila og málefna. Til glöggvunar er hér bent á að gildandi samþykktir Bílastæðasjóðs frá árinu 1988 má sjá á heimasíðu Bílastæðasjóðs. Virðingarfyllst f. h. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Bréf Bílastæðanefndar til Umboðsmanns borgarbúa Ráðhús Reykjavíkur Dags. 11. október 2013 Efni: Svar við fyrirspurn umboðsmanns borgara Fjallað hefur verið um erindi þitt vegna fyrirspurnar Íbúasamtaka miðborgar til borgarráðs. Það er mat bílastæðanefndar Bílastæðasjóðs að ekki séu nægilega skýrt í samþykktum Bilastæðasjóðs hvernig tekjum hans skuli ráðstafað og við því þurfi að bregðast. Farið verður i nánari skoðun málsins í framhaldinu.
Álit umboðsmanns borgarbúa - Pdf skjal
|
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |