ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Frá Íbúasamtökum í vesturhluta Reykjavíkur

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Formaður borgarráðs Reykjavíkur

Ályktun frá sameiginlegum fundi stjórna Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, Íbúasamtaka Vesturbæjar og Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) sem haldinn var nýlega:

Borgaryfirvöld hafa gengið of langt í þéttingu byggðar í ofangreindum hverfum. Enda þótt þétting byggðar sé almennt af hinu góða er nú svo komið að á vissum svæðum er hreinlega um ofþéttingu að ræða. Borgaryfirvöld leggja áherslu á að þéttingin eigi fyrst og fremst að vera á eldri atvinnulóðum og öðrum vannýttum svæðum. Í reynd hefur óhikað verið gengið á græn svæði borgarinnar sem eru nú þegar af skornum skammti. Erlend úttekt frá 2018 leiddi í ljós að Reykjavík var þá í 37. sæti af 50 borgum heims þegar hlutfall grænna svæða innan raunverulegra borgarmarka var skoðað þar sem aðeins 18% borgarlandsins taldist grænt svæði, samanborið við tæp 57% í Prag sem tróndi efst á listanum*).

Úr Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030:
Útivistarsvæði myndi samfelldan vef eða grænt net um borgarlandið. Hann tengi saman hverfi, heimili, þjónustu og atvinnusvæði og tryggi tengsl íbúðarbyggðar við fjölbreytt náttúru- og útivstarsvæði.

Rannsóknir sýna sýna einnig í síauknum mæli að í borgarlandslagi eru græn svæði mjög mikilvæg vegna almennrar lýðheilsu. Í Reykjavík hefur endurtekið verið þrengt að skólalóðum og þar með útivistarsvæðum skólabarna í borginni og því er enn mikilvægara en ella að standa vörð um þau grænu og opnu svæði sem eru í nágrenni skólalóða sem eftir eru í stað þess að skipuleggja þau undir sífellt þéttari byggð.

Á sameiginlegum fundi íbúasamtaka í vesturhluta borgarinnar komu fram verulegar áhyggjur af því að sýn varðandi grænt net og gæði útivistarsvæða sé ekki að raungerast sem skyldi við þéttingu byggðar. Þá kom einnig skýrt fram að íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa, sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma, er áberandi. Fundurinn skorar á borgaryfirvöld í fyrsta lagi að íhuga alvarlega og með gagnrýnum huga gildandi stefnu um þéttingu byggðar og í öðru lagi að fjárfest verði í því að greina samráðsferlið með tilliti til skilvirkni, gagnsæis og notendavænni ferla.

Að lokum minnum við á að gefnu tilefni að Íbúasamtök hafa það að markmiði að vera rödd íbúa og augu yfirvalda í hverfunum. Íbúasamtök vakta gæði borgarrýmis með hagsmuni almennings fyrir augum, og enginn þekkir nærumhverfi sitt betur en íbúarnir sjálfir.

Kær kveðja

Ásta Olga Magnúsdóttir
Formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar

Benóný Ægisson
Formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur

María Hjaltalín
Formaður Íbúasamtaka 3. hverfis

*) Úttektin um græn svæði sem vísað er í er úttekt hollenska ferðaþjónustufyrirtækisins TravelBird á grænum svæðum í 50 borgum heims sem sagt var frá í kvöldfréttum Sjónvarpsins 22. apríl 2018. Reykjavík lendir í 1. sæti af 50 þegar fjöldi grænna fermetra per íbúa er skoðaður, en í Reykjavík eru 411 fm af grænum svæðum á íbúa. Þegar hins vegar hlutfall grænna svæða innan borgarmarka er skoðað hrapar Reykjavík niður í 37. sæti af 50, þar sem aðeins rúm 18% borgarlandsins telst grænt svæði, samanborið við tæp 57% í Prag sem trónir efst á listanum. Ástæðan er ekki síst sú að 223 fm af þessum 411 fm á mann telst friðland á borð við Heiðmörk. Þess utan eru tæpir 76 fm skóglendi, 58 fm eru grasfletir, 31 fm er ræktarland, 16 fm eru golfvellir en aðeins 5 fm á mann eru almenningsgarðar. https://travelbird.nl/green-cities-index-2018/

Samrit send borgarfulltrúum, fjölmiðlum, Miðborgarstjórn og Íbúaráði Miðborgar og Hlíða og Íbúaráði Vesturbæjar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is