ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Erindi frá formönnum íbúasamtaka

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð
Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður

Undirritaðir formenn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur og Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) fagna tilkomu íbúaráða sem nú eiga að leysa af hverfisráðin í Reykjavík. Það er ósk okkar og von að þau verði til þess að auka íbúalýðræði í borginni og efla samstarf grasrótarinnar við borgaryfirvöld í framtíðinni.

Hinsvegar gætir mikillar óánægju hjá báðum íbúasamtökunum með skipun íbúaráðs í hverfunum. Eins og málum er nú háttað þá þjóna íbúaráðin sömu hverfum og hverfaráðin þjónuðu áður nema í okkar tilfelli en hverfin höfðu áður hvort sitt hverfisráð en eiga nú að deila íbúðaráði. Við furðum okkur á þessari ráðstöfun þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einum fulltrúa íbúasamtaka í ráðinu og því þurfa ÍMR og Íbúasamtök 3. hverfis að skiptast á um að eiga fulltrúa í íbúaráðinu.

Íbúasamtök 3. hverfis og ÍMR hafa átt gott samstarf í gegnum tíðina og gerum við ráð fyrir að svo verði áfram en þessi hverfi eru ólík og eiga mismunandi hagsmuna að gæta. Þau eiga því óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Því viljum við skora á Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð að endurskoða þessa ákvörðun þannig að hverfin eigi hvort sitt íbúaráð og sitji þannig við sama borð og önnur hverfi.

Með vinsemd og von um skilning

Kær kveðja

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Íbúasamtök 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar)
Karl Thoroddsen formaður

Sent 21. september 2019 og samrit sent borgarfulltrúum og starfsmanni ráðsins

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is