ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Framkvæmd laga og reglugerðar um veitinga- og gististaðiReykjavík, 16. desember 2011 Borgarstjórn Reykjavíkur Efni: Framkvæmd laga og reglugerðar um veitinga- og gististaði. Íbúasamtök miðborgar héldu aðalfund 15. nóvember 2011. Á fundinum stofnuðust umræður m.a. um ályktunartillögu um áskorun á borgarstjórn Reykjavíkur um sjá til þess stjórnsýslunefndir á hennar vegum fylgi ákvæðum laga og reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þar sem kveðið er á um efni umsagna um rekstrarleyfi. Í þessu sambandi var einkum vísað til þeirrar skyldu heilbrigðisnefndar að meta grendaráhrif af þeirri starfsemi sem óskað er eftir heimild til að reka. Á fundinum var lýst nýlegri reynslu íbúa í næsta nágrenni við Ráðhúsið sem beindir eindregið til þess að framkvæmd stjórnsýslunefnda Reykjavíkurborgar á ákvæðum reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald sé vægt sagt mjög losaraleg. Þannig hefur heilbrigðisnefnd borgarinnar samþykkt fyrir sitt leyti umsókn um rekstur heimagistingar í einbýlishúsi í grónu íbúahverfi fyrir allt að 16 gesti án þess að séð verður að hún hafi fylgt ákvæðum um lögbundna rannsóknarskyldu. Sama gildir um byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Rekstur heimagistingarinnar hófst án tilskilinna leyfa. Nágrannar fengu þannig reynslu af starfseminni. Hún var ekki góð. Um var að ræða stöðugan straum af ferðamönnum sem voru að koma og fara frá húseigninni á öllum tímum sólarhringsins ekki síst síðla nætur og snemma morguns. Þessu fylgdi aukinn umferð bíla með tilheyrandi umferðargný, hurðarskellum og skvaldri fólks. Það kom einnig fram á fundinum að íbúar sendu borgarstjórn í lok ágúst 2011 undirskriftalista þar sem þessari starfsemi er mótmælt. Þegar þetta bréf er skrifað hafa þeir ekki orðið varir við nein viðbrögð af hálfu borgaryfirvalda. Tillögunni var vísað til stjórnar sem fjallaði um hana á fundi sínum 14. desember 2011. Á þeim fundi komu fram frekari upplýsingar um það í hvert óefni þessi mál eru komin ekki síst eftir þær breytingar sem gerðar voru á eldri laga- og reglugerðarákvæðum um heimagistingu og gistiheimili. Samanburður á veittum leyfum og auglýsingum frá þeim sem standa fyrir gistiheimilarekstri leiðir í ljós að um það bil 2/3 eru án tilskilinna opinberra leyfa. Þetta bendir til að lagaákvæði séu ófullnægjandi og torvelt sé að framfylgja þeim. Á grundvelli framangreinds samþykkti stjórn Íbúasamtaka miðborgar að beina þeirri eindregnu ósk til borgarstjórnar Reykjavíkur að sjá til þess að stjórnsýslunefndir á hennar vegum fari að ákvæðum reglugerðar um efni umsagna um leyfi til að reka heimagistingu og aðra starfsemi sem fjallað er um í lögum um þetta efni. Enn fremur að borgarstjórn beini því til hlutaðeigandi aðila að ákvæði um gististaði í lögum og reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtahald, lög nr. 85/2007 og reglugerð nr. 585/2007, verði endurskoðuð. Meginmarkmið endurskoðunarinnar verði að styrkja réttarstöðu borgaranna gagnvart því að ekki verði sett niður starfsemi í nágrenni þeirra sem sé þvert á samþykkt skipulag og stórlega dragi úr lífsgæðum og öryggi vegna aukinnar umferðar og margvíslegrar truflunar á nóttu sem degi. Virðingarfyllst Magnús Skúlason Afrit: Innanríkisráðherra |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |