ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Aðalskipulag 2010 - 2030Reykjavík 19. september 2013 Umhverfis- og skipulagssvið Efni: Athugasemdir við tillögu að Aðalskipulagi 2010 - 2030 Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar gerir eftirfarandi athugasemdir við kynnt Aðalskipulag Reykjavíkur sem ætlað er að gildi á árunum 2010 - 2030. Áformum um að heimila 5 hæða byggingar meðfram strandlengjunni norðanverðri í miðborginni og enn hærri byggingar á skilgreindum þróunarsvæðum einkum meðfram samgönguásum og strandlengju í norðri er harðlega mótmælt. Slíkar byggingar rýra gæði þeirra íbúahverfa sem fyrir eru og eru almennt ekki í samræmi við eldri byggð. Nægir hér að benda á skipulag við Skúlagötu þar sem háhýsi byrgja sýn og hafa rýrt gæði byggðarinnar sem stendur nú í hvarfi þeirra bygginga. Íbúasamtökin leggja til að á svæðinu innan Hringbrautar verði ekki heimiluð hærri hæð bygginga en tveggja hæða hús með risi og verði það hin almenna regla. Framangreind ákvæði um hæðir bygginga samrýmast ekki fögrum orðum í skipulagstillögu um gæði byggðar. Í þessu samhengi er minnt á hugmyndir um 5 hæða byggingar á Miðbakka. Með hugmyndum um þéttingu byggðar sem leiðarljós í nýju Aðalskipulagi er áformað að helsta þétting byggðar verði í vestur hluta borgarinnar þ.á.m. á miðborgarsvæðinu. Vegna þeirra áhrifa sem þétting byggðar hefur þegar haft á miðborgina, hafa Íbúasamtökin verulegar efasemdir um frekari áform um enn þéttari byggð í miðborginni. Tekið er undir hugmyndir um þróunarás byggðar sem liggi frá vestri til austurs upp að Úlfarsárdal. Íbúasamtökin telja að með eflingu byggðar og atvinnustarfsemi tengdum þeim þróunarási ásamt öflugum almenningssamgöngum megi létta á þeim þrýstingi sem verið hefur og fyrirhugaður er á vestur hluta borgarinnar. Í skipulagstillögunni er gert ráð fyrir að heimila megi rekstur veitingastaða í flokki III með takmarkaðar heimildir á svokölluðu miðborgarsvæði M1c. Slíkar heimildir munu óhjákvæmilega leiða til enn frekari ágangs og ónæðis fyrir íbúa miðborgarinnar vegna áfengisveitinga á mörkum skilgreindra íbúasvæða annars vegar og miðborgarsvæða hins vegar. Með þessari tillögu er hagsmuna íbúa ekki gætt en hagsmunir áfengissala augljóslega hafðir í huga. Íbúasamtökin mótmæla nýrri skilgreiningu á íbúasvæði M1c í miðborginni sem fram er sett í skipulagstillögunni. Nýja skilgreiningin: Miðborgarsvæði M1c - íbúabyggð, felur m.a. í sér að efri hluti Frakkastígs og stórt svæði neðan Hverfisgötu telst ekki lengur skilgreind íbúasvæði og því opið fyrir veitingahúsarekstur í flokki III. Íbúasamtökin telja að með þessu sé verulega vegið að hagsmunum íbúa og er harðlega mótmælt öllum frekari heimildum til reksturs veitingahúsa í flokki III. Í þessu sambandi er minnt á skilgreiningu á veitingstöðum í flokki III í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Flokkur III: Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu. Virðingarfyllst f. h. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Afrit. Fjölmiðlar |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |