ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aðstaða barna og unglinga

Reykjavík 15. nóvember 2013

Borgaráð Reykjavíkur

Ráðhúsinu við Tjörnina 

101 Reykjavík

 

Mál: Aðstaða barna og unglinga í Austurbæjarskóla

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar vill með bréfi þessu vekja máls á óásættanlegum aðstæðum barna og unglinga við Austurbæjarskóla. Hér er átt við áralangan vanbúnað sem frístunda- og félagsstarf skólans hefur mátt búa við vegna algjörs aðstöðuleysis til fjölda ára. Ljóst er að þegar aðstæður barna og unglinga í Austurbæjarskóla eru bornar saman við aðstæður barna og unglinga í nágrannaskólum, að ótrúlegt ójafnræði hefur verið làtið viðgangast. Börnunum okkar sem hér búa hafa engan veginn verið búnar sambærilegar aðstæður til frístunda- og félagsstarfs og almennt tíðkast. 


Í ljósi þeirra aðstæðna sem hér hefur verið lýst og þess að Íbúasamtök Miðborgar, Foreldrafélag Austurbæjarskóla og Hverfisráð Miðborgar hafa um árabil barist fyrir nauðsynlegum úrbótum er hér með skorað á borgarfulltrúa að bæta nú úr þeim ójöfnuði sem hefur verið látinn viðgangast með því  að tryggja með raunhæfum hætti nauðsynlegt fjármagn á árinu 2014 til verkefnisins "Spennistöðin við Austurbæjarskóla"


Eins og borgarfulltrúum er kunnugt um er ráðgert að lagfæra og nýta húsnæði sem stendur autt  á lóð skólans   og í daglegu tali er nefnt Spennistöðin. Hús þetta hýsti áður rafspenna í eigu Rafmagnssveitu Reykjavíkur. Hugmyndir um nýja nýtingu Spennistöðvarinnar komu fram á vettvangi Íbúasamtaka Miðborgarinnar, skólastjóra, foreldrafélagsins og starfsmanna ÍTR. Þegar fallist hafði verið á hugmynd þessa var settur á fót starfshópur sem fenginn var til að koma með tillögur um umfang og verkáfanga. Starfi þess hóps er löngu lokið en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum enn sem komið er. Til verksins voru áætlaðar 20 mkr. á yfirstandandi ári, en alls óvíst er hvort sú fjárveiting verði nýtt á yfirstandandi ári. 


Allur sá dráttur sem orðið hefur á að koma í framkvæmd löngu tímabærum úrbótum á aðstöðu barnanna í Austurbæjarskóla er lítt skiljanlegur og er því skorað á borgarfulltrúa að koma nú myndarlega að málinu og láta ekki lengur viðgangast þann ójöfnuð sem börnunum okkar hefur verið búinn. Til frekari skýringa skal hér nefnt að fjöldi fm. á hvert barn í Austurbæjarskóla sem ætlaður eru til  frístunda og félagsstarfs er u.þ.b. 1/8 af fermetrafjölda í nágrannaskólum.

 

Virðingarfyllst

f. h. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Sverrir Þ. Sverrisson formaður

Afrit. Fjölmiðlar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is