ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Ábending vegna breytingartillögu við aðalskipulag

Bréf þetta er sent:
Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs, Haraldi Sigurðssyni deildarstjóra aðalskipulags, Ernu Hrönn Geirsdóttur sviðsstjóra, Jóni Kjartani Ágústssyni skipulagsfræðingi, Halldóru Hrólfsdóttur skipulagsfræðingi og borgarfulltrúum í Reykjavík.

Stjórn Íbúasamtaka miðborgar gerir alvarlegar athugasemdir við eftirtaldar hugmyndir sem kynntar voru á opnum fundi 21.6.2017 um ,,Drög að breyttum heimildum um veitinga- og gististaði eftir landnotkunarsvæðum”:

1. Að Freyjugata og Bergstaðastræti séu skilgreindar sem ,,Aðalgötur”.
2. Að hornhús með númerum við aðliggjandi götur verði með sömu heimildir til gistireksturs og hús við ,,Aðalgötur”.
3. Að opnað verði á möguleika á að heimila veitingastöðum sem í dag mega hafa opið til kl. 23 að hafa opið til kl. 1 um helgar.

Ennfremur fara Íbúasamtökin fram á að ákvæðið um ,,Aðalgötur” í aðalskipulagi Reykjvíkurborgar 2010-2030 verði tekið til endurskoðunar, það fellt niður í miðborginni eða að heimildir til gisti- og veitingahúsareksturs verði þrengdar verulega þar.

Síðastlin vetur hélt stjórn Íbúasamtaka Miðborgar nokkra opna fundi. Skýrt kom fram að íbúum finnst meir en nóg komið af rekstri gististaða í hverfinu. Mikið var kvartað yfir ónæði (á nóttu sem degi) frá ferðamönnum á gistiheimilum. Bent var á að íbúðabyggð í miðborginni er í mikilli hættu vegna fólksflótta og lokanir á deildum í leikskóla hverfisins sökum skorts á börnum sýna að íbúarnir hafa rétt fyrir sér. Á fundinum komu fram efasemdir um að tölur opinberra aðila um íbúafjölda væru réttar. Mun meiri fækkun hefði orðið því mikið væri um að fólk sem byggi annar staðar væri með skráða búsetu í hverfinu til að ,,leppa” gististarfsemi.

Það hlýtur að vera borgaryfirvödum verulegt áhyggjuefni að á meðan í öðrum hverfum borgarinnar fjölgar íbúum þá er fækkun í miðborginni - þrátt fyrir að nýtt íbúðhúsnæði hafi verið byggt þar. Með öllum tiltækum ráðum þarf að bregðast við þessari þróun og að skilgreina tvær grónar íbúðagötur sem aðalgötur, Freyjugötu og Bergstaðastræti, sem eru inni í einni elstu byggð borgarinnar gengur þvert á þá hugsjón að hér verði blómleg byggð fjölskyldufóks.

Stjórn íbúsamtakanna kynnti, á opnum fundi í vetur, ný lög um skammtímaleigu. Þau vöktu vonir íbúanna um að því ófremdarástandi linnti sem þeir hafa mátt búa við vegna mikillar skammtímleigu húsnæðis í hverfinu. Þau drög að reglum um auknar heimildir, sem kynntar voru á fundinum 21.06.2017, eru því eins og ,,blaut tuska” í andlit íbúa miðborgarinnar og enn var bætt um betur með nýlegri leyfisveitingu fyrir íbúðahóteli á Barónsstíg 28 þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna í Reykjavíkurborg um að ekki yrðu gefin út fleiri leyfi fyrir hótelum í miðborginni. Leyfisveitingin veldur okkur verulegum áhyggjum því um mjög slæmt fordæmi er þar að ræða.

Í gögnum sem kynnt voru á fundinum 21.06. (glæra: Gististaðir í flokki I-V Heimild: Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu) má sjá að nú eru aðeins tveir aðilar með gistileyfi á Freyjugötu og á Bergstaðastrætinu eru þeir sjö. Að skilgreina þessar götur sem ,,Aðalgötur” gæti í versta falli þýtt að þarna megi heimila óheftan fjölda gististaða. Slíkt væri í raun að gefa ,,skotleyfi” á íbúabyggð við þessar götur. Jafnvel þó að heimildir væru verulega þrengri þá mundi af því hljótast alvarlegur skaði. Það sama gildir um þær hugmyndir að heimila megi að hornhús með númerum við aðrar götur verði með sömu heimildir til gistireksturs og hús við ,,Aðalgötur”. Hugmyndir um að opna á möguleika á að heimila veitingastöðum sem í dag mega hafa opið til kl. 23 að hafa opið til kl. 01 um helgar vekja upp hræðslu um aukið ónæði fyrir íbúa miðborgarinar – nóg er það fyrir.

Það er einlæg von og trú stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar að þessar hugmyndir verði ekki samþykktar og að ákvæðið um ,,Aðalgötur” verði tekið til gagngerrar endurskoðunar.

Með vinsemd og virðingu

Fyrir hönd stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Benóný Ægisson formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is