ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Hávaði frá Bar 11

Reykjavík, 9. desember 2010

Borgarráð Reykjavíkur
Ráðhúsinu við Tjörnina
101 Reykjavík

Á aðalfundi Íbúasamtaka miðborgar þann 16. nóvember sl. var samþykkt einróma að beina því til nýkjörinnar stjórnar íbúasamtakanna að styðja við kröfur íbúa, stofnana og fyrirtækja í nálægð við Bar 11 um úrbætur, en staðurinn er til húsa að Hverfisgötu 18

Eftirfarandi ályktun stjórnar íbúasamtakanna var samþykkt á stjórnarfundi þann 7. desember 2010.

Íbúasamtökin hafa ítrekað bent yfirvöldum, þeim sem með málaflokkinn fara, á þann órétt sem íbúar í nágrenni veitingahúsa eru beittir með sífellt fleiri veitingahúsum með enn meiri hávaða frá gestum og hljómflutningastækjum. Íbúasamtökin hafa ennfremur bent á að opnunartími veitingastaðanna og ástand miðborgarinnar um helgar sé í hróplegu ósamræmi við flestar borgir heims. Á fundi með lögreglustjóra og helstu yfirmönnum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu þann 23. nóvember sl. kom fram að þegar einungis eitt veitingahús með leyfi III hefur rekstur eða fullnýtir opnunartímann hefur það margfeldisáhrif á ofbeldisverk á þeim tíma sem opið er.

Fyrir skömmu breyttist rekstur veitingahússins að Hverfisgötu 18 verulega. Kennitölum breytt og nöfnum úr Café Kultura í Bar 11. Starfsemi virðist ekki hefjast fyrr en eftir kl. 2.00 að nóttu og stendur til morguns með þvílíkum látum innan sem utandyra að með ólíkindum er. Þarna er greinilega um næturklúbb að ræða í miðju íbúðahverfi.

Ítrekað skal að þetta er ekki eini staðurinn sem er til vandræða í miðborginni. Þetta er ein viðbótin þegar fullnýttur er leyfilegur opnunartíminn og hljómflutningstækin misnotuð.

Það skal einnig ítrekað að stytting opnunartíma um klukkustund í tveim áföngum á næsta ári skilar afar litlu. Krafan hlýtur að vera að opnunartími veitingahúsa í íbúðahverfum sé styttur verulega til samræmis því sem tíðkast í nágrannaborgum. Síðan komi til næturklúbbar í hverfum þar sem svefnfrið fólks sé ekki raskað.

Það er skýlaus krafa okkar meðan núverandi reglur um opnunartíma eru við líði sé farið eftir þeim lögum og reglum sem í gildi eru þ.á.m. 4. grein Lögreglusamþykktar Reykjavíkur. Þá er sérstaklega bent á 24. gr. reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald frá 29. 6. 2007 þar sem kveðið er á um að viðkomandi heilbrigðisnefnd skuli meta grenndaráhrif veitingastarfsemi. Að framansögðu verður ekki séð að slíkt mat, ef fram hefur farið, eigi við rök að styðjast hvað varðar Bar 11. Er því farið fram á að úr því verði bætt.

Virðingarfyllst

Magnús Skúlason
formaður

Afrit sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Umhverfis-og samgönguráði Reykjavíkur
Úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is