ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Athugasemdir vegna álits umboðsmannsBorgarstjórinn í Reykjavík Umboðsmaður borgarbúa hefur í nýlegu áliti gert alvarlegar athugasemdir við gildandi samstarfssamning Bílastæðasjóðs og samtakanna Miðborgin okkar. Samningurinn felur í sér verulega háar árlegar greiðslur úr bílastæðasjóðnum til umræddra samtaka. Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við umboðsmanninn í þessu máli. Jafnframt furða Íbúasamtökin sig á afstöðu forsætisnefndar Reykjavíkurborgar 16. júní sl. til álits umboðsmannsins. Forsætisnefndin ákvað að gera athugasemd við niðurstöðu umboðsmannsins í stað þess að sjá til að við álitinu yrði brugðist strax og greiðslurnar stöðvaðar. Vegna máls þessa er rétt að minna á að Íbúasamtökin áttu á sínum tíma frumkvæði að því að vekja athygli á þessu máli og hafa á undanförnum árum ítrekað beint máli sínu bæði til borgarstjóra og borgarráðs og kvartað yfir umræddum greiðslum. Athugasemdir Íbúasamtakanna breyttu því miður engu og héldu greiðslur úr sjóðnum áfram. Leituðu samtökin því til nýstofnaðs embættis umboðsmanns borgarbúa strax árið 2013 og aftur 2015. Umboðsmaður hefur nú tvisvar staðfest að Íbúasamtökin höfðu rétt fyrir sér. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar lítur viðbrögð borgaryfirvalda við áliti umboðsmanns mjög alvarlegum augum. Ef ekki er farið eftir áliti hans getur embættið aldrei orðið sú vörn borgarbúa gegn óvönduðum stjórnvaldsaðgerðum sem því er ætlað að vera og stofnun embættisins því sýndargjörningur og sýndarlýðræði. Virðingarfyllst Afrit. Borgarfulltrúar og fjölmiðlar Greinargerð Borgaryfirvöld brugðust ekki við á fullnægjandi hátt og því kvörtuðu íbúasamtökin aftur til umboðsmanns. Síðara álit umboðsmanns var birt 3. júní 2016 og segir þar í niðurstöðuorðum: „Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er niðurstaða mín annars vegar sú að bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hafi verið óheimilt að ráðstafa tekjum sjóðsins með þeim hætti sem samningar hans við "Miðborgina okkar" fólu í sér og hins vegar, með hliðsjón af áliti borgarlögmanns og svörum bílastæðasjóðs til mín, að brotið hafi verið í bága við reglur Reykjavíkurborgar um styrkveitingar.“ Það er því ljóst að umræddar greiðslur (sem enn hafa ekki verið stöðvaðar) standast hvorki reglur borgarinnar um innkaup né styrki að áliti umboðsmanns borgarbúa. Eðlilegra hefði verið að forsætisnefndin leitaði leiða til að bregðast við áliti umboðsmanns með því að stöðva umræddar greiðslur samstundis í stað þess að gera athugasemdir við álitið. Ábendingar umboðsmanns um brot á reglum borgarinnar eru alvarlegar og ber að taka sem slíkar.
|
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |