ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Veitingaleyfi í Reykjavík

Reykjavík, 9. mars 2011

Til Borgarráðs Reykjavíkur/ Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur

Málefni: Veitingaleyfi í Reykjavík.

Á fundi stjórnar Íbúasamtaka miðborgar Rvíkur þann 8. mars sl. var eftirfarandi samþykkt gerð:

Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur lýsir yfir stuðningi við kröfu nágranna tveggja veitingastaða við Laugaveg (Monaco og Monte Carlo) og skorar á borgarráð að mæla ekki með framlengingu veitingaleyfa staðanna. Veitingastaðir þessir eru nú á bráðabirgðaleyfi og eru mjög umdeildir enda hafa verslunareigendur og íbúar í nágrenninu oft þurft að kvarta yfir þeim eins og kom fram á borgarafundi í Ráðhúsinu 14. febrúar s.l. en þar lásu leikarar upp reynslusögur nágrannanna sem ekki vildu tjá sig undir nafni af ótta um öryggi sitt.

Réttur eins rekstraraðila má ekki ganga svo langt að hann gangi á rétt annarra rekstraraðila eða íbúa og valdi þeim tjóni. Í fréttum vikunnar hefur komið fram að fyrirtæki á svæðinu velta 300 milljörðum og því er um gríðarlega hagsmuni að ræða og í meira lagi vafasamt að stefna þeim í hættu. Ekki ber að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Stjórn Íbúasamtakanna kallar á skýrari reglur um veitingarekstur og að rekstraraðilar séu látnir bera ábyrgð á rekstri sínum. Brýn þörf er á að hægt sé að áminna veitingamenn fyrir brot á reglum og svipta þá leyfum ef um ítrekuð brot er að ræða. Núgildandi lög og reglugerðir virðast ekki halda, því veitingamenn komast ítrekað upp með brot á þeim og svo virðist sem veitingaleyfi í borginni séu eins og eilífðarkvóti sem ekkert fær haggað, hvorki kvartanir né lögbrot.

Ef Reykjavíkurborg mælir ekki gegn endurnýjun veitingaleyfa staða sem stöðugt hefur verið kvartað yfir og viðkomandi fær áframhaldandi leyfi væntanlega til fimm ára í senn, þá er það eins og köld gusa framan í íbúa og aðra sem hafa fengið nóg af hávaða, skemmdarverkum, ofbeldi og óöryggi sem fylgir næturlífi og veitingarekstri í miðborginni. Afleiðingin verður áframhaldandi flótti verslunareiganda og íbúa frá miðborginni, sem mun drabbast enn frekar niður og borgaryfirvöld geta engum um kennt nema sjálfum sér.

Ábyrgð kjörinna fulltrúa borgarinnar og þeirra embættismanna sem að málinu koma er mikil því með jákvæðri umsögn um veitingaleyfi er hugsanlega verið að greiða götu eins rekstraraðila á kostnað annars reksturs eða íbúa í nágrenninu Þessum aðilum ber að standa vörð um góðan rekstur í borginni og gott umhverfi með því að stuðla ekki að forréttindum þeirra, sem ekki geta stundað rekstur sinn án þess að skaða aðra. Stór og smá dæmi um afskiptaleysi yfirvalda af rekstri, sem ekki hlítir reglum eru mörg og alvarleg undanfarin ár og hafa reynst þjóðfélaginu mjög dýrkeypt. Borgarfulltrúar og embættismenn borgarinnar þurfa að horfast í augu við þá sögu og gera sér grein fyrir því að þeir bera ábyrgð á athöfnum sínum."

Virðingarfyllst

fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Magnús Skúlason formaður

Afrit: Lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu. Miðborgin okkar. Hverfisráð Miðborgar

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is