ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Ábending vegna fjármála hverfaHalldór Auðar Svansson Efni: Ábending frá stjórn Íbúasamtaka Miðborgar vegna tillögu um að gera fjármál einstakra hverfa aðgengileg á netinu. Stjórnin bendir á að ef slíkt verði að veruleika sé nauðsynlegt að vanda mjög til verka og greina á milli þess hvað sé nærþjónusta við íbúa miðborgarinnar og hvað sé þjónusta við alla höfuðborgarbúa og gesti höfuðborgarinnar. Einnig bendir stjórnin á að breyta þurfi forsendum við atkvæðagreiðslu verkefnisins Hverfið mitt. Nýlega samþykkti borgarstjórn að vísa tillögu Áslaugar Friðriksdóttur, um að gera fjármál einstakra hverfa aðgengileg á netinu, inn í fjárhagsáætlunargerð stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Ástæður tillögunnar segir flutningsmaður vera ,,að borið hefur á því að borgarbúum finnist að ójafnt sé skipt hvað varðar fjárfestingar í ólíkum hverfum” (viðtal við Áslaugu Friðriksdóttur, Fréttablaðið, 17.05.2017, s. 8). Jafnframt segir Áslaug að skilgreina þurfi hvaða þjónusta flokkist sem nærþjónsuta við íbúa og oft hafi heyrst að of mikið sé gert fyrir íbúa miðborgarinnar sem á hinn bóginn finnist of lítið gert. Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar vill benda á að mjög þurfi að vanda til verka ef/þegar forsendur verða settar fram um hvað falli undir nærþjónustu við íbúa. Ef ekki takist vel til geti gífurlegt óréttlæti falist í samanburði miðborgarinnar við önnur hverfi borgarinnar. Miðborgin er á engan hátt sambærileg við önnur hverfi, því íbúarnir eru aðeins brotabrot af þeim fjölda sem dvelur í henni á nóttu sem degi. Gestir, innlendir og erlendir, eru á hverjum tíma margfalt fleiri en íbúarnir. Áhyggjur stjórnar Íbúasamtakanna eru ekki ástæðulausar. Hin ágæta lýðræðistilraun Hverfið mitt sem felst í því að gefa borgarbúum kost á að kjósa um hvað sé gert í einstökum hverfum, varðandi nýframkvæmdir og viðhald, hefur oft skilað íbúum miðborgarinnar afskaplega sérkennilegum niðurstöðum svo sem þegar fénu sem ætlað var til hvefisins var í tvígang að stórum hluta varið í að endurnýja steinhleðslur á tjarnarbakkanum, sem ekki getur talist sérmál íbúanna í miðborginni. Stjórnin hvetur borgaryfirvöld til þess að breyta fyrikomulaginu frá því sem nú er; að borgarbúar velji til hvaða hverfis þeir láti atkvæð sín falla. Í staðinn komi að aðeins þeir sem eigi lögheimili í hverju hverfi geti greitt atkvæði um málefni þess. Slíkt væri í samræmi við heiti verkefnisins: Hverfið mitt. Að sjálfsögðu væri hægt að hugsa sér að hafa tvo ,,potta” fyrir miðborgina. Annar væri fyrir þá sem hér eiga lögheimili, en hinn væri fyrir alla íbúa borgarinnar til að kjósa um hvað ætti að setja í forgang í miðborginni þeirra. Með vinsemd og virðingu F.h. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |