ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Útisundlaug við Sundhöllina
Reykjavík 8. mars 2012 Kristín Einarsdóttir Mál: Sundhöll Reykjavíkur. Í framhaldi af fundi fulltrúa Íbúasamtaka miðborgar, sviðsstjóra ÍTR og aðstoðarsviðsstjóra FER um málefni Sundhallar Reykjavíkur ræddi stjórn Íbúasamtakanna þau á stjórnarfundi 7. mars sl. Ljóst er að Sundhöllin þarfnast viðhalds auk þess að aðgengi er slæmt einkum að búningsklefa kvenna í kjallara sundhallarinnar. Búast má við að viðhald og breytingar verði nokkuð kostnaðarsamar einkum vegna þess að Sundhöllin er merkileg bygging og friðuð vegna aldurs og byggingasögulegs gildis. Sjórn Íbúasamtaka miðborgar lýsir sig fylgjandi því að aðgengismál Sundhallarinnar verði leyst með viðbyggingu og samhliða verði löngu tímabær útisundlaug byggð sunnan sundhallarinnar. Er það í samræmi við óskir íbúa á vefnum Betri Reykjavík og óskir sem komu fram á málþingi sem haldið var að frumkvæði Íbúsamtaka og foreldrafélaga hverfisins um miðborgina sem íbúabyggð. Á málþinginu var félags- og menningarmiðstöð í spennistöð OR við Austurbæjarskóla efst á óskalista íbúanna en útisundlaug við Sundhöllina var í öðru sæti. Sundhöll Reykjavíkur er eina íþróttamannvirkið í miðborginni, byggt 1937. Höllin er auðvitað barn síns tíma og fullnægir ekki öllum nútímakröfum eins og eðlilegt er. Það er aftur verra að sundhöllin annar ekki þeirri aðsókn sem nú er að henni. Níu grunnskólar stunda skólasund í sundhöllinni og þar er svo þröngt á þingi að skólarnir geta ekki uppfyllt kennsluskyldu sína í sundi eins og málum er háttað. Einnig er sundhöllin mikið sótt af ferðamönnum og eldri borgurum. Útisundlaug væri kærkomin viðbót til að leysa þennan vanda og einnig yrði sundhöllin þá álitlegri kostur fyrir fjölskyldufólk en það kýs heldur að fara í útilaugarnar. Þegar öllu er á botninn hvolft er ekki víst að það yrði svo mikill kostnaðarauki að bæta við 25m laug, heitum pottum og útisvæði ef það yrði ofaná að leysa aðgengismálin með viðbyggingu og einnig mætti búast við að tekjur Sundhallarinnar myndu aukast með betri aðstöðu. Íbúasamtök miðborgar hvetja til þess að þessi leið verði farin og fundin verði lausn sem bætir aðstöðuna en sýnir þessari fallegu byggingu sem hún á skilið. Virðingarfyllst fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Meðfylgjandi mynd er hugmynd Ívars Arnar Guðmundssonar arkítekts að útisundlaug sunnan við Sundhöllina |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |