ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Breyting á deiliskipulagi Frakkastígsreits

Reykjavík, 6. mars, 2011

Til Skipulagsráðs Reykjavíkur

Athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi Frakkastígsreit. Reitur 1.172.1

Tillaga að breytingu á núgildandi deiliskipulagi felur í sér umtalsverða bót frá gildandi tillögu, um það er ekki deilt. Hins vegar er rétt að halda því til haga að sú tillaga er hluti vinnu við deiliskipulag við Laugaveg unnin á árunum eftir 2000 og hlýtur ekki mikið hrós.

Ekki verður séð nauðsyn þess að rífa viðbyggingu við Laugaveg 33. Hún er mikilvægur hluti götumyndarinnar og væri nær að lagfæra útlit hennar með því að færa hana til upphaflegs horfs. Þá veldur niðurrif hennar og flutningur aðalhússins nr. 33 auknum kostnaði sem nær væri að nota til viðgerða. Flutningur hússins er fremur til skaða fyrir skemmtilegri torgmyndun sem opnast frá Vatnsstíg. Torgið er innrammað af hornhúsinu Laugaveg 33 að sunnan, Laugaveg 33b að austan og Laugavegi 33a að norðan en það hús er ráðgert að rífa. Lögð er áhersla á að varðveita það hús sem eðlilegum hluta af ramma torgsins.

Ummrædd tillaga ber með sé að unnt sé að byggja yfirþyrmandi nýbyggingar í litlu samræmi við fremur fíngerðan mælikvarða húsanna á umræddum lóðum. Þ.á.m. er verulega þrengt að Laugavegi 33B sem er einstakt hús með steyptu þaki.

Sama má segja um nýbyggingu við Vatnsstíg 4 og Laugaveg 33a. Afar neikvæð fyrir götumynd Vatnsstíg og áður nefnt lítið torg vegna mælikvarða og stærðar.

Við nánari rýni virðist einungis mögulegt, ef ekki á illa að fara, að reisa nýbyggingu á baklóð Laugavegar 35 sem tæki mið af mælikvarða húsann í kring, en kaffærði þau ekki. Þá er lagt til að húsið Vatnsstígur 4 verði varðveitt, en hugsanlegt er að hækka risið og jafnvel byggja við það bakatil.

Til þess að greiða fyrir leiðréttingu á misstökum fyrri ára, þ.e. að leyfa of mikið byggingarmagn og niðurrif, mætti skoða hvort unnt væri að fella niður neðanjarðarbílastæði og ennfremur bílastæðagjöld. Þannig mætti lækka nýtingarhlutfall og kostnað við framkvæmdir. Aðalatriði málsins er hins vegar hvernig forða má enn einu skipulagsslysinu. Það ætti að vera kleift ef tekið er mið af ofangreindum athugasemdum þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar.

Virðingarfyllst

Magnús Skúlason
formaður ÍMR

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is