ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Aths. v. deiliskipulagsbreytingar

Skipulags og samgönguráð Reykjavíkur

Frakkastígsreitur 1.172.1 – Athugasemdir stjórnar ÍMR

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur hefur fjallað um breytingu á deiliskipulagi í Reykjavík á svonenfndum Frakkastígsreit 1.172.1.

Stjórn ÍMR lýsir yfir ánægju sinni með að gera eigi upp húsin Laugaveg 33, 33B og 35 í sem upprunalegastri mynd en leggst gegn því að heimilað verði að rífa húsin Laugaveg 33A og Vatnsstíg 4. Ennfremur leggur stjórn ÍMR til að hús á baklóð verði þrílyft en ekki fjórlyft.

Húsin á horni Laugavegs og Vatnsstígs sem um ræðir eru öll friðuð, byggð á árunum 1895 – 1916. Þau mynda einstæða heild og ramma inn rými sem opnast að Vatnsstíg og telja má einstakt í borgarmynd Reykjavíkur. Umhverfisgildi Laugavegar 33A og þar með varðveislugildi er því mikið vegna þessa. Í kjallara hússins var lengi hesthús en íbúð á efri hæð. Nýbygging í stað þessa hús myndi rýra verulega gæði þessa sérstaka rýmis eins og tillaga að breytingu deiliskipulags ber með sér.

Vatnsstígur 4 er einnig friðað húsreist 1901 en byggt var við norðurhluta þess árið 1920 eftir teikningum Einars Erlendssonar. Húsið er illa farið vegna vanrækslu eigenda en vel viðgerðarhæft. Meira en nóg er komið af niðurrifi byggingararfleifðar okkar sem eru bárujárnsklæddu timburhúsin.

Að þessu sögðu yrðu fjórlyftar byggingar á baklóð of háar mundu og gnæfa yfir gömlu húsin. Því er lagt til að bakhúsin verði ekki meira en þrjár hæðir. Auk þess er ekki gert ráð fyrir neinu leiksvæði fyrir börn utandyra en eðilegt má telja að krafa um slíkt sé gerð við uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis.

Andi fyrirhugaðrar deiliskipulagsbreytingar er eftir þeim línum sem lagðar voru í skipulaginu frá 2003 og telja má úrelt. Þá stóð til að rífa um hundrað hús milli Laugavegs og Hverfisgötu en vafasamt er að þær fyrirætlanir njóti mikillar hylli í dag. Það er því kominn tími til að kveða niður þessa afturgöngu í skipulagi miðborgarinnar og láta nýbyggingar taka mið af hinni fínlegri eldri byggð að hæð og umfangi. Íbúar miðborgarinnar eru orðnir þreyttir á endalausum framkvæmdum með tilheyrandi hávaða, óþrifum, lokunum og öðru ónæði og því er mál að hætta leik og huga að því sem við höfum núna, áður en það verður of seint.

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is