ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Nýr Landspítali

Reykjavík, 4. október 2011

Athugasemdir stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar samþykktar 4. 10. 2011

Í forsögn skipulags- og byggingarsviðs sem sett var í keppnislýsingu er m.a óskað sérstaklega eftir eftirfarandi:

1. Að keppendur tryggi eins og kostur er ásýnd frá nýrri Hringbraut og Bústaðavegi á framhlið Gamla spítalans auk þess að byggingunni verði gefið viðeigandi andrými.

2. Æskilegt að byggingar sunnan gömlu Hringbrautar verði almennt ekki hærri en sex hæðir og rísi ekki hærra en vegghæð Gamla spítalans.

3. Almennt skulu húshæðir á núverandi lóð Landspítala á norðurhluta skipulagssvæðisins ekki vera hærri en fjórar hæðir. Salarhæðir nýbygginga miðast við 4.200 mm.

4. Mikilvægt er að við skipulag lóðarinnar og hönnun nýs Háskólasjúkrahúss verði tekið tillit til byggðar og byggðarmynsturs í aðlægum hverfum og að fyrirliggjandi niðurstaða úr hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrar verði höfð til hliðsjónar.

5. Keppendum er bent á að taka mið af núverandi byggingum á lóðinni varðandi hlutföll og að byggingar verði brotnar upp í minni einingar "arkitektónískt" eftir því sem við verður komið.

Undir alla framangreinda liði er tekið nema niðurlag 4. liðar um mælikvarða Vatnsmýrarskipulags. Ekki er hægt að taka undir að taka eigi mið af þeirri tillögu sem er utan miðborgarskipulagsins, hefur engan skipulagslegan "status" og þarfnast auk þess verulegrar endurskoðunar. Allir staðir sem skoðaðir hafa verið munu hafa sína kosti og galla. Val á núverandi staðsetningu sem að hluta byggir á samnýtingu og áframhaldandi notkun eldri húsa er ekki sannfærandi þar sem flest þau hús eru talin úrelt og þarfnast endurbyggingar að mestu leyti til að nýta megi þau áfram. Við sameiningu Landsspítalans á umræddri lóð verður til nokkurs konar borgvirki í útjaðri miðborgarinnar. Vandséð er hvernig slíkt borgvirki, sem er að stórum hluta sjálfu sér nógt um innri starfsemi, verður miðborginn til framdráttar. Þá er minnt á MENNINGARSTEFNU Í MANNVIRKJAGERÐ, stefnu íslenskra stjórnavalda í byggingarlist frá árinu 2007 þar sem segir á bls. 23: " Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar um". Ekki verður séð að við úrvinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi verið tekið nægilega mið af þessarri opinberu stefnu en um það hlýtur að vera skýlaus krafa.

Vinningstillaga Spital-hópsins í samkeppni um nýjan Landsspítala vakti þó væntingar um að þar væri komin lausn á því hvernig koma mætti fyrir hinu mikla byggingarmagni sjúkrahússins á jaðri gróins hverfis og í þokkalegri sátt við umhverfið. Grunnmynd skipulagsins gaf fyrirheit um byggð sem væri í nokkuð eðlilegu samhengi við nærliggjandi byggð hvað gatnaskipan og húsareiti varðar. Á skýringamyndum var yfirbragð bygginga sýnt litríkt og form þeirra uppbrotið til að ná fram mannlegri hlutföllum. Ákveðnir ágallar voru þó á tillögunni, t.d. lokaði ný álma samföst Læknagarði að hluta til sýn að framhlið gamla Landspítalans frá Hringbraut og Öskjuhlíð án nokkurrar rökstuddar ástæðu. Þess var sérstaklega óskað í samkeppnisskilmálum að tryggja bæri ásýnd að framhlið gamla spítalans og gefa gömlu byggingunni nægilegt andrúm sbr. lið 1 hér að ofan. Úr þessu atriði er auðvelt að bæta með því að hliðra viðbyggingunni til vesturs þannig að opið svæði kæmi í framhaldi af áformuðu torgi við inngang sjúkrahússins. Að auki væri hægt að víkka út torgið með hliðrun bráðadeildarhúss til vesturs ásamt færslu neðar í lóð til lækkunar og koma þannig til móts við 1. lið keppnislýsingar.

Það verða að teljast mikil vonbrigði að þau fyrirheit um gæði umhverfis og skipulags sem vinningstillagan fól í sér virðast hafa tapast við nánari útfærslu verkefnisins, eins og hún er nú kynnt í fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi. Skýringarmynd á örk nr. 8 efst tv., "Fyrsti áfangi til norðurs frá Flugvallarvegi", sýnir glöggt hvernig ásýnd sjúkrahúsbygginganna í samhengi við hina grónu byggð hefur þróast til verri vegar. Hækkun aðalbyggingar spítalans gerir að verkum að sjónarrönd Skólavörðuholts og miðborgarinnar, útlína byggðar og náttúrulegs landforms, verður ekki lengur sýnileg frá Öskjuhlíð, sem er fyrsta sjónarhorn sem opnast þeim sem til borgarinnar koma eftir Bústaðavegi. Einmitt úr þeirri átt hefur gamli Landsspítalinn verið helsta ein höfuðprýði Reykjavíkur í rúm 80 ár. Þaklína hans og efsta hæð áttu að verða sýnileg samkvæmt samkeppnistillögunni (sneiðing A-A) en hverfa sjónum að mestu leyti samkvæmt deiliskipulaginu.

Að byggja nýtt sjúkrahús á og við lóð gamla Landspítalans hefur ýmsa kosti en líka galla, sem taka verður tillit til. Einn af takmarkandi þáttum staðarvalsins er nálægðin við eldri byggð og fyrirsjáanleg áhrif nýbygginga á áberandi sjónarhorn í borgarmyndinni. Af því leiðir að til ná fram farsælli lausn í sátt við umhverfi og samfélag er óhjákvæmilegt að laga sjúkrahúsið að nánasta umhverfi jafnt í hæð húsa sem umfangi byggingarmagns. Skilgreina verður þann fagurfræðilega ramma sem umhverfið þolir og halda væntanlegu byggingarmagni innan hans. Ekki er hægt að vísa í óskyld sjónarmið til réttlætingar þess að sá rammi sé rofinn. Alvarleg og óafturkræf skemmd á borgarmynd Reykjavíkur verður ekki rökstudd með vísun í tæknilegar kröfum um innra skipulag og fjölda hæða. Ef tiltekin lágmarkshæð sjúkarhússins er ófrávíkjanleg forsenda fyrir byggingu sjúkrahússins hefði það átt að koma fram með ótvíræðum hætti sem hönnunarforsenda í samkeppnisskilmálum.

Sé raunin sú að óhjákvæmilegt sé að hækka sjúkrahúsbygginguna til að mæta kröfum starfseminnar um hagræði, tæknilausnir og innri virkni er ljóst að endurskoða verður staðarval sjúkrahússins. Í því sambandi má benda á Keldnaland sem er í eigu ríkisins. Þar eru staðhættir og afstaða til sólar að mörgu leyti hliðstæð því sem gerist á Landspítalalóðinni. Halli lands er þó meiri, byggingarsvæðið rýmra og nálægð byggð stendur ekki í vegi fyrir því að reisa hærri og hagkvæmari byggingu. Ýmsir fleiri kostir fylgja þeirri staðsetningu sem stuðlað geta að þróun Reykjavíkur í átt til aukinnar sjálfbærni, svo sem jöfnun álags á samgöngukerfi borgarinnar á annatímum og fjölgun atvinnutækifæra í þeim hluta borgarinnar þar sem mun fleiri búa en stunda vinnu. En íbúar hafa verulegar áhyggjur af þeim vandamálum sem aukin umferð hefur í för með sér í hverfinu þrátt fyrir fögur fyrirheit um breyttar ferðavenju, þ.e. aukna notkun reiðhjóla og efldar almenningssamgöngur. Reyndar er því fagnað að reynt verði að breyta ferðavenjum Reykvíkinga en uppi eru efasemdir um að slíkt takist nema á löngum tíma.

Tveir kostir eru í stöðunni. Annars vegar að laga mælikvarða og umfang fyrirhugaðara bygginga á Landspítalalóðinni að umhverfinu og laga innra skipulag og tæknilegar útfærslur að þeirri forsendu. Hins vegar að finna sjúkrahúsinu annan stað þar sem ytri aðstæður í umhverfinu takmarka ekki hæð og form fyrirhugaðrar byggingar. Sú útfærsla sem valin er í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu er óásættanleg í núverandi mynd og getur ekki leitt til farsællar niðurstöðu.

Virðingarfyllst

fh. stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar
Magnús Skúlason formaður

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is