ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Snjóhreinsun og hálkueyðing

Stjórn Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 2. febrúar 2009 að beina þeim tilmælum til Umhverfis-og samgönguráðs Reykjavíkur að endurskoðaðar verði reglur um snjóhreinsun og hálkueyðingar með það í huga að bæta umhverfið og ná einnig fram sparnaði með minni saltnotkun. Stjórnin leggur áherslu á eftirfarandi:

  • Að dreifing á salti verði að mestu takmörkuð við hraðbrautir, strætisvagnaleiðir og aðrar fjölfarnar götur.
  • Að salt sé einungis notað í brekkum og gatnamótum íbúðahverfa þar sem þörf er. Kannað verði jafnframt hvort ekki sé unnt að nota sand í stað salts.
  • Að gætt verði þess að ryðja gangstéttar og göngustíga í kjölfar gatnaruðnings.
  • Að sérstaklega verði hugað að hálkuvörnum á fjölförnum gönguleiðum úr og í miðborgina, t.d. með hitalögnum.

Greinargerð.

Um árabil hafa hálkuvarnir á götum borgarinnar falist í saltburði á götur en sandi á gangstéttar og göngustíga. Reglur um saltnotkun komu upphaflega frá Oslo en þáverandi gatnamálastjórar borganna tveggja höfðu áður fyrr heilmikil samráð.

Það er óumdeilt að salt er besta hálkuvörnin á hraðbrautum, strætisvagnaleiðum og öðrum fjölförnum götum, en sá háttur er hafður á á öllum Norðurlöndum og í Norður-og Mið-Evópu þar sem víða er snjókoma og frost á veturna. Hins vegar skal bent á að salt er ekki notað t.d. í íbúðahverfum í þrem stærstu borgum Noregs. Það þykir mengandi, þarflaust og óviðeigandi. Þar sem þörf er á, sem eru brekkur og gatnamót er notaður sandur. Annars er lögð áhersla á að moka ef snjór nær tiltekinni þykkt.

Salt er hins vegar mengandi einkum fyrir hvers kyns gróður ekki síst trjágróður og ber að því að nota það í hófi án þess þó að það komi niður á umferðaröryggi.

Í íbúðahverfum borgarinnar eru víða 30 km hraðatakarkanir og þar sem götur liggja lárétt eins og víða í borginni t.d í Þingholtunum er vandséð þörfin á söltun vegna umferðaröryggis. Þvert á móti veldur saltið miklum sóðaskap og umhverfispjöllum Hins vegar er full þörf á hálkuvörnum í brekkum og á völdum gatnamótum.

Þá hefur það tíðkast að götur eru ruddar og snjó rutt upp á gangsttéttir en þær ekki hreinsaðar þannig að fótgangendur leitast eftir því að ganga á götunni með tilheyrandi slysahættu (sjá mynd). Þannig virðist sem bílaumferð hafi forgang og ýtt sé fremur undir gegnumakstur íbúðahverfa. Hreinsun og hálkuvörn gangstétta og göngustíga er víða mjög ábótavant.

Reykjavík, 3. febrúar 2009,

fh. stjórnar Íbúasamtaka miðborgar

Magnús Skúlason formaður

Til Umhverfis-og samgönguráðs Reykjavíkur

Afrit: Borgarstjóri, Hverfisráð miðborgar, miðborgarstjóri.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is