ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR |
||||||||||
|
Staðsetning og opnunartími áfengisveitingastaðaReykjavík, 2. júlí 2010 Mál: Staðsetning og opnunartími áfengisveitingastaða. Álit Íbúasamtaka miðborgar. Á fundi borgarráðs þann 27. maí sl. var lögð fram greinargerð stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða. Á sama fundi lagði borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna einnig fram tilögu um sama mál. Tillögur stýrihópsins um styttingu opnunartíma um eina klukkustund í tveim áföngum um helgar er að mati íbúasamtakanna harla lítil breyting, en töluverður hluti veitingamanna kýs að loka veitingastöðum sínum kl. 4.00 þrátt fyrir leyfi til að loka kl. 5.30. Tillögur íbúasamtakanna um að eigi sé lokað seinna en kl. 3.00 eru afar hófsamar einkum ef litið er til nágrannaborga eins og t.d.Kaupmannahafnar þar sem hin almenna regla gildir að veitingastaðir séu lokaðir milli 2.00 og 5.00 að nóttu. Í bréfi Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til Borgarstjóra frá 12. nóvember 2008 kemur auk þess fram að íbúar miðborgarinnar búa við mun minna öryggi en íbúar annarra hverfa og tíðni glæpa á sér mikla samvörun í staðsetningu og opnunartíma skemmtistaða. Samþjöppun skemmtistaða ásamt lengdum opnunartíma hefur haft í för með sér algjört ófremdarástand í miðborginni. Þá er vandinn ekki einungis opnunartími heldur heldur hávaði, annars vegar frá fólki utandyra, og hins vegar háværri "tónlist" einkum bassatónum eins og íbúasamtökin hafa margoft bent á. Framangreint hefur svipt íbúana svefni nótt eftir nótt ásamt því að rýra verulega verðgildi húsnæðis þeirra. Stjórn íbúasamtakanna telja tillögurnar ganga alltof skammt og krefjast frekari úrbóta og vísast m.a. til bréfs til borgarstjóra dagsett 24. júní sl. þar sem fram kemur að ástandið versnar stöðugt sbr. bréf íbúa í nágrenni við bar 11 að Hverfisgötu 16 dagsett 20.júní sem sent hefur verið borgarstjóra. Virðingarfyllst Magnús Skúlason Afrit sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. |
Gömul myndGamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni |