ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Heil brú 2016-18

Verkefninu Heil brú var hleypt af stokkunum til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstövar miðborgarinnar, og eru einkunnarorð þess: Sköpum, ræðum og leikum okkur saman. Markmiðið með verkefninu er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og er það gert með því að halda smiðjur og málþing á laugardögum í Spennistöðinni og þær eru ætlaðar öllum íbúum í miðbænum. Veturinn 2016-17 var starfsemin mjög blómleg en dróst saman síðasta vetur vegna skorts á fjármagni.

Eftirtaldar smiðjur og málþing hafa verið haldin:

10. september 2016
Leikjadagur
Verkefnið Heil brú hófst á leikjadegi. Ingimar Guðmundsson, Anna Lilja Björnsdóttir og Gísli Felix Ragnarsson nemar á 3. ári í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands stjórnuðu leikjum og hópefli í Spennistöðinni og á skólalóð Austurbæjarskóla. Um 30 manns litu við á leikjadeginum og lærðu fullt af nýjum leikjum og nutu samverunnar en boðið var upp á kaffi og saft að leikjum loknum

24. september 2016
Málþing um miðborgina – Sambýlið við ferðaþjónustuna
Á fyrsta málþingi Íbúasamtaka Miðborgar þar sem íbúar höfðu orðið var rætt um sambýli miðborgarbúa við ferðaþjónustuna. Frummælendur voru Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu, Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi og félagi í hverfisráði, Anna María Bogadóttir arkitekt og Runólfur Ágústsson íbúi og verkefnastjóri Fluglestarinnar. Benóný Ægisson formaður Íbúasamtaka Miðborgar ávarpaði málþingsgesti og fundarstjóri var Katrín Anna Lund prófessor í land og ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Að framsöguerindum loknum var orðið laust og íbúar gátu tjáð sig um málið eða beint spurningum til frummælenda eða annarra fundargesta. Umræður voru mjög fjörugar en 70-80 manns mættu á málþingið.

12. október 2016
Blúsað í Heilli brú
Blúsfrömuðurinn Halldór Bragason, íbúi í miðbænum og fyrrum nemendi í Austurbæjarskóla og Pétur Hafþór Jónsson tónmenntakennari í Austurbæjarskóla leiddu blússmiðju en um 30 manns á aldrinum 6-70 ára mættu með hljóðfærin sín og blúsuðu af hjartans lyst.

10. nóvember 2016
Galdrastafa og flugdrekasmiðja
Flugdrekasérfræðingurinn Arite Fricke stjórnaði galdrastafa og flugdrekasmiðju í Spennistöðinni. Arete er grafískur hönnuður og foreldri í Austurbæjarskóla og kenndi hún fólki að búa til einfalda flugdreka úr símaskrám og bambusstöfum og kyngimagnaða galdrastafi með kartöflustimplum og þekjulitum. 40-50 manns mættu og gerðu galdrastafi eða bjuggu til flugdreka og léku sér með þá fyrir utan Spennistöðina.

12. nóvember 2016
Málþing um miðborgina – Börnin í miðbænum
Annað málþing vetrarins fjallaði um aðstæður barna og unglinga í miðborginni. Spurt var hvað sé fjölskylduvænt hverfi og hvort miðborgin uppfyllti öll skilyrði til að teljast fjölskylduvæn. Íbúasamtök Miðborgar, Foreldrafélag og Nemendafélag Austurbæjarskóla og foreldrafélög leikskóla í hverfinu stóðu að málþinginu en fundarstjóri var Áslaug Guðrúnardóttir. Málþingið var með þeim hætti að fyrst voru flutt stutt framsöguerindi en síðan var hópavinna. Hóparnir fjölluðu um efni eins og aðstöðu barna og unglinga til tómstundaiðkunnar, leiksvæði, Spennistöðina, umferðaröryggi og almenningssamgöngur. Hóparnir sammæltst um nokkrar hugmyndir og tillögur um úrbætur og beindu spurningum til stjórnmálamanna og embættismanna sem sátu í pallborði. Dagur B Eggertsson flutti framsöguerindi, ungt fólk í hverfinu talaði um hvernig það væriað alast upp í 101 og húsráð Spennistöðvarinnar var með innleggið  Spennistöðin fimm árum síðar. Í pallborði sátu: Dagur B Eggertsson borgarstjóri, Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Austurbæjarskóla, Sigþrúður Erla Arnardóttir framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Miðborgar, Skúli Helgason formaður Skóla og frístundaráðs, Þórgnýr Thoroddsen formaður Íþrótta og tómstundaráðs og Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri Umhverfis og skipulagssviðs.  Um 60 manns tóku þátt í málþinginu.
 
4. febrúar 2017
Leiksmiðja
Leynileikhúsið var með leiksmiðju fyrir alla fjölskylduna í Spennistöðinni og leiðbeinendur voru leynileikhússtjórinn Agnar Jón Egilsson og leikkonan María Heba Þorkelsdóttir. Á þriðja tug foreldra og barna mættu og skemmtu sér við leiklistaræfingar og leikspuna og mörg lítil skemmtileg leikrit urðu til þetta laugardagssíðdegi.

4. mars 2017
Málþing um miðborgina – Góðir grannar
Á málþinginu Góðir grannar var fjallað um nábýlið í miðborginni og var Viðar Eggertsson fundarstjóri.
Bryndís Héðinsdóttir lögmaður hjá Húseigendafélaginu fjallaði um grenndar- og nágrannarétt,
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði um veggjakrot, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn fjölluðu um afbrot í miðborginni og Benóný Ægisson formaður Íbúasamtakanna um nágrannavörslu og hverfisgöngur. Ýmsir reynsluboltar sögðu frá götu- og hverfishátíðum, Stefán Halldórsson sagði frá Skralli í Skaftahlíð, Margrét M Norðdahl frá Norðurmýrarhátíð og Gunnar B. Ólason frá Grettisgötuhátíð. Um 50 manns mættu og umræður voru líflegar.

13. maí 2017
Vorblót Íbúasamtaka Miðborgar
Íbúar í Miðborginni fögnuðu vorkomunni með vorblóti í Spennistöðinni. Kveikt var upp í grillum og grillaðar pylsur handa gestum og gangandi en tveir ungir lúðraþeytarar léku matarmikla músík undir borðhaldinu. Arite Handke kenndi gerð einfaldra flugdreka sem sem óspart voru prófaðir fyrir utan Spennistöðina en einnig var fjallað um vorverkin í okkar ágæta bæjarhluta. Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslustjóri Garðyrkjufélags Ísland fjallaði um hreinsun, beð, mosa, slátt, gróðursetningu o.fl. Bryndís Björk Reynisdóttir verkefnastjóri Garðyrkjufélags Íslands fjallaði um ræktun ætra plantna við þröng skilyrði og Hafsteinn Helgason íbúi á Baldursgötu saghði frá hvítlauksrækt sinni. Eftir að þau höfðu lokið máli sínu var orðið laust og upp hófust fjörlegar umræður um landbúnað í 101. 

16. september 2017
Dansað í Spennistöðinni
Íbúasamtökin og Kramhúsið buðu upp í dans í Spennistöðinni, félags og menningarmiðstöð miðborgarinnar en þar gefst öllum íbúum hverfisins tækifæri til að prófa dansa frá hinum ýmsu sveitum jarðar. Natasha Royal kenndi breikdans, Erna Guðrún Fritzdóttir skapandi dans, Margrét Erla Maack Bollywood dansa og Veska Jónsdóttir Balkandansa og skiptist þátttakan nokkuð eftir aldri, þeir yngri dönsuðu frekar breik og skapandi dans en þeir eldri Balkan og Bollywood.

27. janúar 2018
Tónsmiðja Péturs Hafþórs
Pétur Hafþór Jónsson tónlistarkennari stjórnaði tónsmiðju þar sem farið var í gegnum ýmis grundvallaratriði nýgildrar tónlista og mættu sumir þátttakendur með hljóðfærin sín en einnig voru hljóðfæri á staðnum sem þeir gátu nýtt sér. Tónlistarflutningur er félagslegt atferli ekki síður en listrænn gjörningur og nautn að taka þátt. Sjálf tónlistin skapar reglu og samhengi og auðveldar öllum að vera með. Ýmis hljóðfæri voru tekin til handargagns í tónsmiðjunni og sýnt fram á, að allir geta tekið sóló, leikið bassagang og verið virkir í góðum rytma. Ýmsum stílbrigðum var beitt, blús, suður-amerískum takti og óforskömmuðu poppi.

14. apríl 2018
Fundur með frambjóðendum í Spennistöðinni
Íbúasamtökin gengust fyrir málþingi þar sem fulltrúum allra framboða til borgarstjórnarkosninga var boðið á til að kynna stefnu sína í málefnum miðbæjarins og svara spurningum sem voru þannig til komnar að íbúum gafst kostur á að leggja til spurningar á Fb-síðu Íbúasamtakanna og voru spurningarnar þversumman af óskum íbúanna. Íbúarnir vildu fá svör við því hvaða áætlanir framboðin hefðu um að gera miðborgina fjölskylduvænni svo meiri líkur séu  á að hún héldist áfram í byggð, það var spurt um þéttingu byggðar og verndun eldri byggðarinnar, um hvernig framboðin hygðust takast á við umferðarvandann í miðborginni og hvernig þau ætluðu að verja útsvarspeningum miðborgarbúa. 70-80 manns mættu málþingið.

Fundarstjóri var Benóný Ægisson en eftirtaldir fulltrúar tólf framboða mættu í Spennistöðina:

Samfylkingin: Dagur B Eggertsson
Vinstri græn: Stefán Pálsson
Píratar: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir
Framsóknarflokkur: Snædís Karlsdóttir
Höfuðborgarlistinn: Björg Kristín Sigþórsdóttir
Miðflokkurinn: Baldur Borgþórsson
Sjálfstæðisflokkur: Hildur Björnsdottir
Viðreisn: Diljá Ámundadóttir
Alþýðufylkingin: Þorvaldur Þorvaldsson
Flokkur fólksins: Kolbrún Baldursdóttir
Sósíalistaflokkurinn: Sanna Magdalena Mörtudóttir
Frelsisflokkurinn: Gunnlaugur Ingvarsson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Graf Zeppelin-loftfari yfir miðbænum 1930. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is