ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Um þéttingu byggðar og þróun Miðborgar Reykjavíkur

Eftir Pétur H. Ármannsson

Íbúasamtök miðbæjarins / erindi flutt á aðalfundi 16.11.2010.

Kynni mín af húsverndarmálum og umræðunni um þróun Reykjavíkur á undanförnum árum hafa vakið eftirfarandi spurningu: Er sú afmörkun miðborgar sem áætlanir um þéttingu hennar og þróun byggja á of þröng? Í reynd nær miðlægt atvinnu- og þjónustusvæði Reykjavíkur yfir mun stærra svæði en núgildandi skilgreining miðbæjar sýnir. Eftir línulegum ás frá vestri til austurs, frá Kvosinni upp með Laugavegi og inn með Suðurlandsbraut allt að Mörkinni í austri. Á þessum austursvæðum miðbæjarins er meira svigrúm fyrir þéttingu byggðar til lengri tíma litið en í gamla bænum. Þar er mögulegt að byggja stórar einingar án þess að raska viðkvæmu umhverfi. Ný og framsækin byggingarlist fær þar notið sín í stærri sniðum þó markmiðið hljóti ávallt að skapa fallegt og lifandi borgarumhverfi.

Tímabært er orðið að elsti hluti miðbæjarins verði skilgreindur úr frá sérstöðu sinni sem hinn sögulegi kjarni borgarinnar, ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju. Þar yrði lögð áhersla á að efla og styrkja þau gæði í umhverfi og byggingarlist sem gerir þetta svæði einstakt og eftirsóknarvert. Fínlegur mælikvarði er dýrmætasti eiginleiki elsta hluta Reykjavíkur. Smáar einingar en fjölbreytilegar í litum og stíl. Þannig er gamla Reykjavík og þau einkenni hennar ber að standa vörð um. Miðborgin er ekki vandamálið heldur viðhorf okkar til hennar, oft það erum við sem erum blind á gæði hennar.

Að létta mestu pressunni af gamla miðbænum þýðir ekki að hann eigi hætta vaxa og þróast. En í grónum hverfum verður að nálgast viðfangsefnið á forsendum þess sem fyrir er. Það er misskilningur að varðveisla gamalla húsanna dragi úr möguleikum á hagkvæmri nýtingu í kraft við kröfur tímans. Ótal möguleikar að breyta og laga, flétta saman nýtt og gamalt. Í þróunarverkefnum getur verndun húsa skilað góðum arði. Hún getur verið leið til að skapa sátt um einstök verkefni og getur leyst þann vanda sem felst í því að laga stórar einingar að smágerðum mælikvarða gamla bæjarins.

HEFUR MIÐBÆR REYKJAVÍKUR VERIÐ SKILGREINDUR OF ÞRÖNGT?

Sérstaða Reykjavíkur í skipulagslegu tilliti mótast af þeirri staðreynd að hún er byggð á löngu en tiltölulega mjóu nesi. Elsti bæjarhlutinn liggur út við jaðarinn fyrir miðju nesinu. Sökum þess hafa aldrei verið forsendur fyrir jöfnum hringvexti borgarinnar í allar áttir út frá miðju. Fyrsta heildarskipulag Reykjavíkur frá árinu 1927 tók til þess svæðis sem í dag er þekkt sem póstnúmer 101. Á þeim tíma má segja að jafnvægi hafi verið milli miðbæjarins og íbúðasvæðanna umhverfis. Skilgreint þróunarsvæði miðborgar Reykjavíkur liggur enn innan marka skipulagsins frá 1927 enda þótt umfang byggðarinnar og allar vegalengdir hafi margfaldast. Fullvaxinn borgarlíkaminn er með höfuð hvítvoðungs.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sem unnið var á árunum 1960-65 skyldi nýr miðbær byggður ofan í þann gamla. Það þýddi stórfellt niðurrif gamalla húsa til að rýma fyrir stórbyggingum, bílastæðum og umferðaræðum. Til að létta á gamla bænum var jafnframt gerð tillaga um nýjan verslunarmiðbæ austar í borginni. Ýmsir staðir voru skoðaðir, m.a. svæðið við gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar, þar sem nú eru gatan Engjateigur og Nordica-hótel handan götunnar. Niðurstaðan varð, illu heilli, að reisa miðbæinn einum gatnamótum ofar við Kringlumýrarbraut, á núverandi Kringlusvæði. Þó svo að það svæði lægi að fjölfarnari gatnamótum hafði það þann veigamikla ókost að vera umlukið íbúðarhverfum og hlaut því að verða einangrað eyland, án möguleika á línulegri tengingu við gamla bæinn. Fyrri staðurinn hafði þann augljósa kost að vera í beinum tengslum við enda gamla miðbæjarins við Hlemm auk þess sem nægilegt svigrúm var til vaxtar austur eftir Suðurlandsbraut.

Eins og fram kemur í bók Trausta Valssonar, Reykjavík Vaxtarbroddur, dróst að framkvæmdir hæfust við uppbyggingu hins nýja miðbæjar á sjöunda áratugnum. Sú verslunarstarfsemi, sem þangað hefði átt að fara strax tók að dreifast um fyrirhugað iðnaðarsvæði inn með Suðurlandsbraut og í Skeifunni. Afleiðingin er sú að í því „einskis manns landi“ eru í dag margar þær stofnanir, verslanir og fyrirtæki sem eðlilegt væri að finna í hjarta miðbæjar. Starfsemin er í misvönduðum iðnaðarhúsum sem reynt hefur verið að endurbæta með ærnum tilkostnaði. Þessi þróun varð hægt og hljóðlaust, þrátt fyrir allt skipulag, á sama tíma og öll athygli skipulagsyfirvalda beindist að útfærsluatriðum í Kringlunni og í gamla bænum.

Nýjasti kaflinn í þessari þróun er fjármálahverfið við Borgartún. Það var vissulega endurskipulagt með tilliti til breyttrar landnotkunar og þéttingar byggðar. Mjög skortir á samræmi og listræna heildarsýn í mótun hinnar nýju byggðar, bæði hvað varðar ásýnd á móti hafinu og því að skapa vistlega og fallega götumynd. Engu er líkara að hver lóð við Borgartúnið hafi verið skipulögð ein og sér án nokkurs tillits til heildarinnar. Hin nýju og glæsilegu skrifstofuhús fljóta um, ósamstaðstæð og umkomulaus, í hafi bílastæða, án merkjanlegra tengsla við stað og umhverfi.

Brýnt er orðið að skoða hugmyndina um miðbæ Reykjavíkur í nýju ljósi og endurmeta samband hennar við aðra hluta borgarinnar. Til að svo megi verða þarf að líta til stærra svæðis en hingað til hefur verið gert. Áður en tekin verður ákvörðun um nýtingu Flugvallarsvæðis og hluta Vatnsmýrar undir byggð er nauðsynlegt að horfa á borgina í heild sinni, skoða virkni hennar og innbyrðis tengsl ólíkra hluta. Vandamálin liggja utan Vatnsmýrarsvæðisins en ekki innan þess. Að horfa einungis á hið óbyggða svæði og jaðra þess er ekki vænleg leið til greina möguleika þess. Ef markmiðið með uppbyggingu á flugvallarsvæðinu á að vera að efla gamla miðbæinn þarf að hafa í huga þá anmarka sem eru á tengingu svæðisins við Kvosina og Laugaveginn. Þar á milli, beggja vegna Tjarnarinnar, eru rótgróin og vernduð íbúðahverfi með þröngum götum sem gefa lítið svigrúm til greiðari tenginga. Ef illa tekst til gætu fyrri Kringlumistök borgarinnar endurtekið sig og nýja byggðin í Vatnsmýrinni orðið einangrað eyland í samkeppni við miðbæinn.

KVOSIN-KELDNAHOLT, LÍNULEGUR MIÐBÆR

Sem innlegg í umræðuna um skipulag Reykjavíkur vil ég vekja athygli á hugmynd, sem kalla mætti Kvosin-Keldaholt, línulegt miðbæjar-, þjónustu og atvinnusvæði Reykjavíkur frá austri til vesturs. Ólíkt hástemmdum hugmyndum um eyjabyggðir og landfyllingar er þessi hugmynd tiltölulega jarðbundin. Í reynd er hún aðeins ábending um þróun sem þegar hefur átt sér stað og teikn eru á lofti um að muni halda áfram, hvað sem öllum áætlunum líður. Hún í samhljóm við þá skoðun að eðlilegasta þróun borga sé sú sem gerist hægt og sígandi á löndum tíma. Hugmyndin felst í því að viðurkenna í hugsun og verki línulegan vöxt miðborgarinnar til austurs, frá Kvosinni í vestri að Mörkinni í austri, og til lengri tíma litið áfram yfir á Ártúnshöfða allt að Keldnalandi. Þetta felur í sér að gamli miðbæinn er skilgreindur út frá sérhæfðu hlutverki sínu og umhverfisgæðum, sem hinn sögulegi kjarni og aðsetur æðstu stjórnsýslu og menningarstofnana. Ekki sem hinn eini MIÐBÆR heldur sem elsti og mikilvægasti hlekkurinn í langri keðju.

Með því að endurhanna framhald Laugarvegarins austan við Hlemm og áfram inn með Suðurlandsbraut sem fallega borgargötu, yrði til línuleg hryggsúla eftir endilöngu nesinu. Þar yrðu öflugar almenningssamgöngur í báðar áttir, hjólastígar og gönguleiðir, auk hefðbundinnar bílaumferðar. Slík gata yrði manneskjulegur valkostur samsíða Miklu (hrað)brautinni, sem í dag er helsta tenging úthverfanna í austri við gamla miðbæinn. Með þessum umhverfisbótum er verið að nýta dýrmæta fjárfestingu sem fyrir er á svæðinu, t.d. í hótelum og skrifstofuhúsum, í stað þess að reisa ný hverfi frá grunni. Með því að framlengja hinn nýja Laugaveg enn frekar með nýrri brú yfir Breiðholtsbraut og Elliðaárósa yrði stigið mikilvægt skref í þá átt að tengja ytri úthverfi Reykjavíkur við byggðina á nesinu. Að hinum línulega ás liggja mikilvæg þróunarsvæði sem sjá má fyrir sér að gangi í gegnum sams konar endurnýjun og Borgartúnið. Þar má nefna Brautarholt og Skipholt (Hlemmur plús), Suðurlandsbraut og Múlahverfi, Skeifan, Fenin, Dugguvogur og Ártúnshöfði, allt inn að Keldnaholti. Öll svæðin uppfylla þau skilyrði sem hugmyndin um endurnýtingu lands felur í sér og mörg þeirri bjóða auk þess upp á heillandi staðhætti, t.d. við ósa Elliðaáa, vesturhlíð Ártúnshöfða og ströndin inn að Bryggjuhverfinu. Til yrði samhangandi atvinnu-, þjónustu- og íbúðarsvæði með blandaðri, þéttri borgarbyggð sem hefði þann ótvíræða kost að liggja að flestum stærri íbúðahverfum borgarinnar. Mun fleiri borgarbúar en ella ættu þess kost að búa í göngufæri við hið stækkaða miðbæjarsvæði. Í stað þess að einskorða þéttingu byggðar og eflingu mannlífs við vestanvert nesið myndu allir hlutar borgarinnar njóta góðs af og Reykjavík þróast í þá átt að verða ein borgarheild, fremur en aðgreindir hverfishlutar tengdir saman af neti hraðbrauta.

Byggt á greininni KVOSIN – KELDNAHOLT í Lesbók Mbl, 17.9. 2005.

Greinin birtist í endurbættri mynd í bók Snorra Freys Hilmarssonar, 101 Tækifæri, sem út kom á vegum Torfusamtakanna árið 2009.

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is