ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Staðirnir sem tengja okkur

Söguleg byggð skiptir alla máli og á að hafa lagalega sérstöðu

Almannahagur á að ráða miklu meira en nú er venjan við ákvarðanir um skipulag og framkvæmdir í hverfum og kjörnum þar sem byggðin er gömul eða merkileg af öðrum ástæðum, þar sem svæðið sjálft og sögu þess má telja mikilvæga sameign allra íbúa í sveitarfélaginu og í sumum tilvikum allra landsmanna. Með því að gefa þessum svæðum - sögulegri byggð - sérstöðu í skipulagslögum er hægt að styrkja almannarétt og auka svigrúm borgarfulltrúa og annarra sveitarstjórnarmanna við að vernda sérkenni og andrúmsloft þessara svæða: Kvosarinnar og Laugavegarins í Reykjavík, gömlu kjarnanna á Ísafirði og Akureyri, elstu hluta Seyðisfjarðar, Þingeyrar, Flateyrar og miklu fleiri byggða.

Þetta er kjarninn í frumvarpi sem ég hef lagt fram á alþingi ásamt sjö öðrum þingmönnum í þeirri þingnefnd sem fjallar um skipulagsmál, fólki úr samtals fjórum flokkum og einum utan þingflokka. Þar er lagt til að sveitarstjórnirnar geti skilgreint svæði sem sögulega byggð í skipulaginu, og um slík svæði gildi síðan sú regla að fasteignareigandi á því aðeins rétt á skaðabótum vegna breytinga á skipulagi að hann hafi fengið byggingarleyfi fyrir tiltekinni framkvæmd, sem ekki passar við nýja skipulagið. Með mér í þessu eru Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Þór Saari.

Vandinn kringum Ingólfstorg

Kveikja frumvarpsins eru umræðurnar í sumar um hugmyndasamkeppnina kringum Ingólfstorg í Reykjavík. Þar eru borgarfulltrúar og borgarbúar í þeirri klemmu að peningamaður hefur keypt fjölmörg hús og lóðir. Viðhorf til þessa reits - sem er hluti af elstu byggð í Reykjavík, upphaflega tún og beitarland Ingólfs og Hallveigar - hafa breyst mjög frá því misvitrir ráðamenn í borginni samþykktu deiliskipulag fyrir Kvosina árið 1986, fyrir rúmum aldarfjórðungi. Vegna ákvæða í skipulagslögum um sérstakar bætur (51. grein í núverandi lögum, 123/2010) ef nýtt skipulag telst skerða verðmæti eða nýtingarmöguleika fasteignar standa borgarfulltrúar nú frammi fyrir því að peningamaðurinn gæti krafist verulegra skaðabóta ef skipulaginu yrði breytt þannig að æstustu byggingardraumar yrðu ekki að veruleika. Þeir telja því aðeins þann kost í boði að reyna samninga við eigandann til að stefna ekki fjárhag borgarinnar í voða. Niðurstaða: Hugmyndasamkeppnin, sem mér sýnist reyndar hafa tekist ágætlega miðað við þær forsendur sem til grundvallar lágu.

Í umræðum um Ingólfstorg og nágrenni bentu bæði gagnrýnendur og verjendur hugmyndasamkeppninnar á bótagreinina í skipulagslögum, og rifjuðu upp að alþingi hefði ekki treyst sér til að breyta henni þegar samþykkt voru endurskoðuð lög fyrir aðeins tveimur árum. Það er rétt - mea culpa,okkar sök, getum við sagt sem þá sátum í umhverfisnefnd. Það þurfti meiri undirbúningsvinnu en hægt var að ráðast í á þeim tíma. Slík vinna er nú í gangi í umhverfisráðuneytinu, en með frumvarpi okkar er tekið á brýnasta vandanum.

Ekki óyggjandi

Að vísu telja ýmsir fróðleiksmenn um skipulag og lögfræði að dómar sem fallið hafa í málum af þessu tagi séu ekki óyggjandi, en áhættan er vissulega fyrir hendi, og út af fyrir sig eðlilegt að sveitarstjórnarmenn leiti annarra lausna en að fara dómstólaleiðina. Hvað sem líður viðhorfum manna til tillagnanna í hugmyndasamkeppninni um byggð við Ingólfstorg er þó ekki sæmandi að loftkenndur réttur fasteignareiganda vegi í raun þyngra en almannahagur. Samkvæmt ýtrustu túlkun bótaákvæðisins á fasteignareigandinn ekki rétt á bótum vegna þess sem hefur gerst, að nýtt skipulag þrengi að húseign hans, hindri til dæmis aðgang að henni eða ný hús skyggi á útsýni frá henni - heldur vegna þess sem hefði getað gerst, að nýtt skipulag kemur í veg fyrir að eigandinn hefði til dæmis getað byggt nýtt 8 hæða hús en geti nú ekki byggt nema 6 hæðir, eða sitji jafnvel uppi með það sem honum finnst vera gamlar fúaspýtur á tveimur hæðum þótt aðrir líti á þær sem menningarverðmæti gulls ígildi. Það hlýtur að vera eðlilegt að fasteignarkaupandi taki að þessu leytinu áhættu, og að fasteignaverð miðist í minna mæli við óljósa framkvæmdakosti í framtíðinni, sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæm hverfi með sérstakt gildi fyrir sveitarfélagið allt.

Á hinn bóginn eiga peningar og peningamenn vel heima í gömlum hverfum - því fé er afl þeirra verka sem fram skal koma, sagði gamli Cicero fyrstur manna. Engin ástæða er til að amast þar við eðlilegum breytingum, annarskonar nýtingu, verslun og viðskiptum, enda eru mörg þessara hverfa einmitt til orðin utan um ýmiskonar athafna- og viðskiptalíf.

Söguleg byggð

Söguleg byggð er þannig skilgreind í frumvarpinu að um sé að ræða hverfi eða hverfiskjarna þar sem byggð er að stofni til frá því fyrir 1920, eða þar sem byggð hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi, eða þar sem byggð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi. Svæðið þarf aðeins að uppfylla eitt þessara skilyrða til að hægt sé að kalla það sögulega byggð.

Víða erlendis er slíkum skipulagshugtökum beitt til að auka vernd gamalla byggðarkjarna eða sérstæðra, en í íslenskri löggjöf hefur skort á með þeim afleiðingum að um framkvæmdir og skipulag í sögulegum kjörnum hefur staðið styr áratugum saman, og margir þeirra verið eyðilagðir að hluta eða heild.

Ártalið 1920 er valið vegna þess að þá eru ákveðin þáttaskil í byggingarsögunni, steinhús verða allsráðandi samfara batnandi kjörum eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftir sem áður gilda lög um menningarminjar um einstök hús eldri en 100 ára og frá því fyrir 1925. Við gerum ráð fyrir að einnig sé hægt sé að afmarka sögulega byggð annars vegar út frá byggingarsögulegu gildi og hins vegar menningarsögulegu gildi. Mörg hverfi með húsum frá 4., 5. og 6. áratug síðustu aldar teljast nú hafa mikið byggingarsögulegt gildi, og ýmis önnur byggð getur haft verulegt menningarsögulegt gildi, svo sem þegar tilteknu svæði tengist saga sérstakra viðburða eða mannlífsminningar.

Staðirnir sem tengja okkur

Þetta hljómar flókið en í daglegu lífi er einfalt að koma auga á svæði með sögulegri byggð. Það eru svæðin þar sem fjölskyldurnar koma á hvíldardögum, sem ferðamenn sækja í, kjarnarnir þar sem við viljum koma saman á mannamót, fagna áföngum eða minnast liðinna stunda. Staðirnir sem tengja okkur og sameina okkur.

Lög eru ekki afturvirk, og þetta frumvarp leysir ekki vandann sem við blasir á Ingólfstorgi. Þar verður að ná samningum við fasteignareigandann eða láta reyna á bótagreinina fyrir dómi. Á hinn bóginn gætu svobreytt lög dregið úr vanda af þessu tagi á komandi tímum, og ekki er með öllu útilokað að skýri vilji löggjafans um almannarétt í þessu efni kynni að hafa áhrif á gang samtímamála, að minnsta kosti áður en kemur að dómstólunum.

Mörður Árnason

Greinin birtist fyrst í vikublaðinu Reykjavík 2012

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is