ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Óbilgirni veitingamanna í 101

Rökræður yfir rekstri vínveitingahúsa í miðborginni hafa staðið linnulítið í heilt ár. Rökræður yfir rekstri vínveitingahúsa í miðborginni hafa staðið linnulítið í heilt ár. Á síðustu dögum hefur heyrst hátt í öflugasta talsmanni veitingamanna, Kormáki Geirharðssyni, þar sem til stendur að takmarka opnunartíma nokkurra staða við endurnýjun leyfa. Hann mótmælir því að hann og fleiri eigi að loka klukkan þrjú í stað þess að hafa opið fram undir morgun. Kormákur telur sig augljóslega ekki bera ábyrgð á þeim hávaða sem berst frá hans veitingastað heldur skýlir sér á bak við reykingarbann sem ástæðu þess er úrskeiðis hefur farið. Reykingarbannið er einfaldlega staðreynd sem veitingamenn eins og aðrir verða að laga sig að.

Hitt er annað að allir hafa þessir veitingamenn vitað með dágóðum fyrirvara að þeir þyrftu að endurnýja leyfi sín. Því er mér spurn af hverju þeir hafa ekki fyrir lifandis löngu gert þær ráðstafanir gagnvart sínu nærumhverfi sem nauðsynlegar eru til að þeir geti haft opið eins lengi og þeir vilja? Af hverju hafa þeir ekki skrúfað niður í danstónlistinni hjá sér til að koma í veg fyrir að svefnlausir íbúar kvarti? Séð til þess að ekki sé mannsöfnuður sem öskrar og lætur öllum illum látum fyrir utan hjá þeim? Komið í veg fyrir að áfengi sé borið út, glös brotin og migið upp við næsta vegg? Jafnvel séð sóma sinn í því að þrífa upp eftir viðskiptavini sína áður en borgarbúar fara á stjá? Ef þeir öxluðu ábyrgð af sínum rekstri er jafnvíst að enginn hefði neitt á móti því að fólk sæti saman yfir bjórkollu eða vínglasi fram á rauðamorgun. Svo fremi sem það truflar engan.

Eðlilegast væri að veitingamenn skilgreindu sjálfir ítarlega þá starfsemi sem þeir ætla sér að stunda í umsóknum sínum um vínveitingaleyfi. Þannig myndu þeir sem ætla að reka næturklúbb (eins og íslensk „kaffihús“ væru skilgreind í flestum löndum) þar sem dansað er undir háværri músík ekki fá leyfi fyrir starfseminni upp við húsgafla venjulegra heimila heldur þar sem enginn verður fyrir ónæði. Hinir sem stunda rólegri starfsemi byggðu rekstur sinn á sátt við granna sína. Slík sátt er t.d. forsenda þess að opnunartími hefur verið lengdur í Bretlandi og ef veitingamaður rýfur þá sátt verður hann að loka.

Óbilgirni veitingamanna í garð nærumhverfis síns í 101 er fáheyrð. Þeir hafa valtað yfir öll vinsamleg tilmæli og vísað allir ábyrgð frá sér. Yfirvöld bera þó ábyrgðina með þeim því þau hafa látið ástandið viðgangast án þess að verja tilkall venjulegs fólks til friðhelgi á heimilum sínum og rétt til að nýta eignir sínar með þeim hætti sem þó er lögvarinn.

Frelsi eins til athafna má aldrei verða til þess að skerða frelsi annarra. Það hefur verið grundvallarregla í samskiptum manna í lýðræðissamfélögum þar sem einstaklingsfrelsi er á annað borð í hávegum haft. Um leið og veitingamenn skilja það geta þeir farið fram á frjálsan opnunartíma.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Greinin birtist fyrst í Mbl. 2008

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is