ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Að bola burt hommum

Það er gömul aðferð í pólitík að bera andstæðinginn hinum fáránlegustu sökum og láta hann svo hafa fyrir því að bera af sér óhróðurinn. Þessa aðferð notar Ragnar Ólafur Magnússon vert á Q-bar í Ingólfsstræti þegar hann í viðtali við Fréttablaðið 1. nóv. s.l. ásakar nágranna sína um fordóma gagnvart samkynhneigðum þegar þeir kvarta undan hávaða og ónæði frá gestum hans. Hann hefur haldið því fram í nokkrum viðtölum að verið sé að reyna að bola þeim burt vegna þess að gestirnir séu samkynhneigðir en staðreynd málsins er hinsvegar sú að síðan Q-bar opnaði hefur hávaðinn frá staðnum aukist til muna. Líklegasta skýringin fyrir því er sú sem Ragnar Ólafur tiltekur sjálfur í viðtalinu, að 2-3000 manns skemmta sér þar um hverja helgi en það eru mun fleiri en sóttu fyrirrennara staðarins, Ara í Ögri, sem var fremur rólegur staður. Q-bar er í jaðri íbúðabyggðar og okkur íbúunum finnst nóg komið af hávaðasömum skemmtistöðum í Ingólfsstræti, sem meðeigandi Ragnars Ólafs kallaði eftirsóttasta horn næturlífsins í öðru viðtali. Það var ástæðan fyrir undirskriftalista nágrannanna gegn löngum opnunartíma en ekki kynhneigð gestanna. Íbúar miðbæjarins eru seinþreyttir til vandræða og mér er til efs að í öðrum borgarhlutum sé fordómalausara fólk enda höfum við þolað yfirgang veitingamanna meira og minna möglunarlaust á annan áratug. Ég held að málstaður homma og lesbía eigi á fáum stöðum meiri samúð en hér og þess vegna sárnar mér þegar Ragnar Ólafur notar slíkar smjörklípuaðferðir í málefnafátækt sinni.

Benóný Ægisson

Greinin birtist fyrst í Fbl. 2007

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hljómskálagarðinum á fjórða áratug síðustu aldar. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is