ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Skýrsla Stjórnar 2019

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi Íbúasamtaka Miðborgar sem var haldinn í Spennistöðinni þann 17. október.

Íbúasamtök Miðborgar
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (skammstafað ÍMR) er félag íbúa í Miðborginni eins og hún hefur verið afmörkuð sem hverfi á milli Suðurgötu og Garðastrætis í vestri og Snorrabrautar, Flugvallavegar og Hlíðarfótar í austri. Allir íbúar sem eiga lögheimili á þessu svæði og eru 18 ára og eldri hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum félagsins. um 8000.

Markmið
Tilgangur samtakanna og markmið er að efla samhug og samkennd íbúa, vera samstarfsvettvangur íbúa, félagasamtaka og hagsmunasamtaka á svæðinu, vinna að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu, standa vörð um sérkenni hverfisins og starfa með Hverfisráði Miðborgar og öðrum opinberum aðilum sem fara með málefni hverfisins og íbúa þess og íbúasamtökum annarra hverfa.

Stjórn ÍMR
Síðasti aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var haldinn 15. október 2018 og eftirtaldir skipuðu stjórn síðasta ár: Benóný Ægisson formaður, Ragnhildur Zoega varaformaður, Guðrún Erla Geirsdóttir ritari, Guðrún Janusdóttir gjaldkeri og Eva Huld Friðríksdóttir, Birgitta Bára Hassenstein og Vilborg Halldórsdóttir meðstjórnendur. Varamenn voru Aðalsteinn Jörundsson, Birna Þórðardóttir, Einar Örn Thorlacius og Kári Sölmundarson.

Starfið
Starf ÍMR felst aðallega í því að gæta hagsmuna íbúa miðborgarinnar og felst meðal annars í upplýsingagjöf til þeirra en ÍMR heldur úti Facebook síðu og vefnum www.midbaerinn.is með upplýsingum um fundi, störf stjórnar, uppákomur og fleira. Einnig gáfu Íbúasamtökin út fréttabréf sem borið var út með hverfisblaðinu, Miðborg og Hlíðar, nú í haust. Stjórn ÍMR ályktar og sendir frá sér ábendingar um ýmislegt sem varðar búsetu í miðbænum og stendur fyrir ýmsum verkefnum sem miða að því að bæta miðbæinn sem íbúahverfi. Þá kemur ÍMR að rekstri Spennistöðvarinnar, félags- og menningarmiðstöðvar miðborgarinnar og ÍMR á áheyrnarfulltrúa með tillögurétt í ýmsum nefndum og starfshópum Reykjavíkurborgar.

Skipulagsmál
Skipulagsmál eru alltaf fyrirferðarmikill þáttur í starfi stjórnar ÍMR og hefur stjórnin m.a. reynt að reka á eftir því að fyrirkomulag rútuaksturs um miðbæinnn frá 2017 verði tekið til endurskoðunar en það átti að gerast eftir tvö ár. Kannski fer eitthvað að gerast í þeim efnum a.mk. kom það fram í máli Þorsteins samgöngustjóra á málþingi í Spennistöðinni s.l. laugardag að það færi að koma að því. Aðalfundur Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur 2018 lýsti yfir vonbrigðum með að skipulagsyfirvöld í Reykjavík og þar með talið að borgarráð taki ítrekað ekki til greina athugasemdir íbúa miðbæjarins í deili- og skipulagsmálum, oft um breytingar sem skerða hagsmuni og lífsgæði íbúanna verulega. Fundurinn skoraði á borgarráð að taka meira tillit til almennra og víðtækra athugasemda íbúanna enda sé það í anda þess íbúalýðræðis sem er yfirlýstur vilji borgarstjórnar. Í greinargerð sem fylgdi ályktuninn var fjölgun hótela og gistiheimila mótmælt og einnig fjölgun veitinga og skemmtistaða í íbúabyggðinni. Þá stendur til að stjórnin mótmæli niðurrifi á gömlu timburhúsi við Vatnsstíg og hún hefur m.a. fjallað um skort á leiktækjum í almenningingsrýmum, verslun og þjónustu við íbúa, sorpmál og þá einkum hvernig fara skuli með lífrænan úrgang og garðaúrgang, hleðslustöðvar fyrir rafbíla og rútuumferð og almenningssamgöngur, svo nokkuð sé nefnt.

Samstarfsverkefni og seta í nefndum og starfshópum
Íbúasamtök Miðborgar taka þátt í mörgum samstarfsverkefnum og oft er leitað til þeirra um að tilnefna fulltrúa í ráð og nefndir Reykjavíkurborgar. Hér á eftir fer upptalning á nokkrum þessum samstarfsverkefnum:

Hverfisráð Miðborgar. ÍMR hefur frá stofnun átt áheyrnarfulltrúa í hverfisráði Miðborgar en hverfisráðin voru lögð niður í júní í fyrra og enn hafa íbúaráðin sem áttu að leysa þau af hólmi ekki tekið til starfa en ég mun koma að því síðar.

Húsráð Spennistöðvarinnar sem er ráð notenda þessarar félags og menningarmiðstöðvar hefur lítið starfað frá 2016. Fyrst kom rof þegar tveggja ára tilraunatímabili lauk en síðan var Spennistöðinni lokað í næstum heilt ár vegna framkvæmda og húsráðið hefur ekki komist almennilega af stað síðan en vonandi stendur það til bóta. Formaður ÍMR fór fram á viðræður við borgarstjóra um leiðir til að koma á meiri festu í starfsemi Spennistöðvarinnar sem íbúahúss í maí síðastliðnum en borgarstjóri hefur líklega ekki áhuga á slíkum fundi því hann hefur ekki virt mig svars.

Miðborgarstjórn. ÍMR hefur átt áheyrnarfulltrúa í miðborgarstjórn frá stofnun hennar 2017. Miðborgarstjórn er samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og allra hagsmunaaðila í miðborginni og heldur hún fundi mánaðarlega.

Samstarf íbúasamtaka. ÍMR hefur verið í samstarfi við íbúasamtök í vesturhluta Reykjavíkur, Íbúasamtök Vesturbæjar og Íbúasamtök 3. hverfis í Reykjavík - Hlíða, Holta og Norðurmýrar. Það samstarf hefur verið með ágætum enda eiga hverfin margt sameiginlegt og ályktuðu meira að segja sameiginlega um hverfisráðin en meira um það síðar.

Áramót á Skólavörðuholti. Formaður ÍMR hefur undanfarin ár tekið þátt í starfshópi sem hefur haft það að markmiði að gera áramótin á Skólavörðuholti á gamlárskvöld öruggari. Síðustu áramót vannst það að starfsmenn Reykjavíkurborgar stóðu þar vaktina, komið var upp ákveðnum skotsvæðum og holtinu lokað fyrir bílaumferð sem var til mikilla bóta og verður væntanlega framhald á því.

Ferðamálastefna. Formaður ÍMR hefur tekið þátt í starfi sem hefur það markmið að móta ferðamálastefnu fyrir Reykjavíkurborg og í starfi sem hefur það markmið að móta ferðamálastefnu fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Nýlega voru birt drög að ferðamálastefnu Reykjavíkur og bauðst stjórn ÍMR að gera athugasemdir við þau. Stjórnin vakti athygli á því að ýmsri nærþjónustu hefur hrakað í miðborginni að undanförnu og er það að miklu leyti vegna aukinnar þjónustu við ferðamenn. Verslanir og ýmis þjónustufyrirtæki sem áður þjónuðu íbúum hafa vikið fyrir veitingastöðum, ferðaskrifstofum og skjólfata og minjagripaverslunum. Þessari einsleitni þarf að vinna gegn, innviði þarf að styrkja á ný með einhverskonar stuðningi eða stjórnvaldsaðgerðum. Svo dæmi sé tekið þá þurfa íbúar miðbæjarins og þeir erlendu gestir sem þar kjósa að dvelja að aka í úthverfin til að sækja ýmsar nauðsynjar. Þetta eykur á umferðar og bílastæðavanda miðbæjarins sem er þó ærinn fyrir og er annað mál sem taka þarf á. Mikið er talað um samráð og sátt við íbúa um ferðaþjónustuna í drögunum en stjórninni fannst þó vanta að kveðið væri skýrar á um með hvaða hætti samráðið ætti að vera.

Verkefni ÍMR

Heil brú
Verkefninu Heil brú var hleypt af stokkunum 2016 til að tengja saman alla notendur Spennistöðvarinnar, félags og menningarmiðstövar miðborgarinnar, og eru einkunnarorð þess: Sköpum, ræðum og leikum okkur saman. Markmiðið með verkefninu er að bæta hverfisandann og samheldnina í hverfinu og er það gert með því að halda smiðjur, málþing og aðrar uppákomur á laugardögum í Spennistöðinni einu sinni í mánuði og eru þær ætlaðar öllum íbúum í miðbænum. Á síðasta ári var erfitt um vik með þessar uppákomur því Spennistöðin lokaði vegna viðhalds frá því í maí 2018 og opnaði ekki aftur fyrr en í mars 2019. Því þurftu Íbúasamtökin að halda aðalfund sinn í Iðnó og málþing með þingmönnum sínum í Ráðhúsinu.

Málþing með þingmönnum
Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur buðu þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis norður til málþings í Ráðhúsinu þriðjudaginn 12. febrúar 2019. Þá voru kjördæmadagar en þá er gert þinghlé svo þingmenn geti heimsótt kjördæmi sín. Öllum þingmönnum Reykjavíkur norður var boðið til málþingsins til að ræða við íbúa miðborgarinnar um þau málefni hverfisins sem að þeim snúa það er að segja með tilliti til lagasetningar um skipulagsmál, atvinnumál, velferðarmál og fleira. Á málþinginu gerðu þingmennirnir grein fyrir stefnu sinni í málum miðborgarinnar og svöruðu spurningum íbúanna um hvernig þeir hyggðust beita sér til hagsbóta fyrir hverfið.

Íbúasamtökin höfðu boðið til málþings með þingmönnum sínum á fyrri kjördæmadögum vetrarins í október 2018 en því var aflýst vegna dræmrar þátttöku þingmannanna en einungis þrír þingmenn af ellefu í Reykjavíkurkjördæmi norður þáðu boð ÍMR. Í febrúar höfðu helmingi fleiri boðað komu sína og því var málþingið haldið.

Þingmenn sem tóku þátt í málþingi ÍMR voru:
Andrés Ingi Jónsson – Vinstri græn
Halldóra Mogensen – Píratar
Helga Vala Helgadóttir – Samfylking
Ólafur Ísleifsson - Utan flokka
Steinunn Þóra Árnadóttir – Vinstri græn
Þorsteinn Víglundsson - Viðreisn var veðurtepptur úti á landi svo Pawel Bartozek kom í staðinn fyrir hann
Engir þingmenn komu frá Sjálfstæðisflokki

Opið hús
Í tilefni af því að framkvæmdum var lokið var ÍMR með opið hús í Spennistöðinni laugardaginn 9. mars en þar gátu íbúar skoðað nýjustu breytingar og endurbætur á félags- og menningarmiðstöðinni. Stjórn Íbúasamtakanna var á staðnum til að ræða við fólk um hvernig Spennistöðin geti best nýst sem íbúahús og um önnur mál sem brenna á íbúum en hugmyndafræði Spennistöðvarinnar hefur ætið verið sú að notendurnir eigi að móta starfsemi hennar og að uppbygging hennar ætti að mótast af þörfum þeirra.

Sambýlið við ferðaþjónustuna
Málþingið Sambýlið við ferðaþjónustuna var haldið í Spennistöðinni laugardaginn 6. apríl og hafði það markmið að íbúar miðbæjarins gætu rætt milliliðalaust við rekstraraðila í ferðaþjónustu.

Eftirtaldir voru með framsöguerindi á málþinginu og sátu í pallborði:
Egill Helgason, íbúi í miðbænum
Jakob E. Jakobsson, veitingamadur á Jómfrúnni Jóhanna Hreidarsdóttir, mannaudsstjóri Reykjavík Excursion
Oddný Eir Ævarsdóttir, íbúi í miðbænum
Sólborg Lilja Steinþórsdóttir, hótelstjóri á Hótel Holti
Stefán Eiríksson, borgarritari og formaður verkefnastjórnar miðborgarmála
Sölvi Melax frá Samtökum um skammtímaleigu og Heimaleigu
Jón Baldvinsson frá FETAR (félagi eigenda torfæruökutækja í atvinnurekstri)

Um 50 manns tóku þátt í málþinginu og voru umræður bæði málefnalegar og gagnlegar

Rannsókn á áhrifum Airbnb á miðbæ Reykjavíkur
Laugardaginn 27. Apríl kynnti Anne-Cécile Mermet niðurstöður af rannsókn sinni á áhrifum Airbnb á miðbæ Reykjavíkur í Spennistöðinni en Anne-Cécile er lektor við Sorbonne háskóla. Sérsvið hennar er félagslegar breytingar í borgum og skoðaði hún hvaða áhrif aukin heimagisting hefði haft á byggðamunstur í miðbænum og tók viðtöl við hagsmunaaðila og íbúa m.a. við formann ÍMR.

Vorblót Íbúasamtaka Miðborgar 2019b/
Það var gleði, grill, glens og gaman á vorblóti Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur sem var haldið laugardaginn 18. maí í Spennistöðinni. Hátt á annað hundrað manns mættu, gæddu sér á grilluðum pylsum og hlustuðu á Skólahljómsveit Mið- og Vesturbæjar yngri og eldri deild en eldri deildin fékk stuðning frá Vestmannaeyjum, frá skólahljómsveit eyjanna sem var í heimsókn. Sirkus Íslands kenndi sirkuskúnstir og gerði blöðrudýr fyrir börnin stór og smá og Birna Bragadóttir leiddi umræður um vorverkin í garðinum, ræktun, moltugerð og annað sem tilheyrir landbúnaði í 101. Dagskránni lauk svo með því að stiginn var dans við Evróvissjónlög enda Evróvissjónlaugardagur og einnig voru dansaðir fortnitedansar og hipphopp undir styrkri leiðsögn frá Berglindi og Söndru í Kramhúsinu, danshúsi miðbæjarins.

Málþing um samgöngur í miðbænum
Fyrsta málþing vetrarins var haldið laugardaginn 12. október í Spennistöðinni. Fjallað var um umferðarmál, almenningssamgöngur, akstur með ferðamenn og ýmislegt fleira sem lýtur að umferð um miðbæinn

Frummælendur og þátttakendur í pallborði voru:
Þorsteinn R Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar
Guðmundur Heiðar Helgason frá Strætó bs
Þorsteinn Sæmundsson íbúi við Hringbraut
Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir íbúi við Njarðargötu
Hlynur Snæland Lárusson fulltrúi hópbifreidafyrirtækja

Það var vel mætt á málþingið um samgöngur og umferð í miðbænum og umræður góðar og málefnalegar. Í framhaldi af málþinginum voru Íbúasamtökin með opið hús í tilefni af því að listakonan Sara Riel hafði lokið við vegglistaverk á gafli Spennistöðvarinnar og buðu þeim sem komu til að skoða verkið upp á veitingar.

Verk Söru er samansett úr plöntum sem nemendur í Austurbæjarskóla (2018 – 2019) völdu sem staðgengla sína, en þeir svöruðu spurningunni „Ef þú værir planta, hvaða planta værir þú og af hverju?“ með teikningu og skýringartexta. Verkið heitir Flóran og er hluti þessa 250 fermetra stóru veggmyndar þakin mosa. Vegglistaverkið er unnið sem hluti af íbúalýðræðisverkefninu „Hverfið mitt“ þar sem íbúar leggja inn hugmyndir og kjósa hvaða verkefni koma til framkvæmda.

Gestir á þessum tveimur uppákomum voru um 100 talsins. Nú stendur til að vera með uppákomur annan laugardag í mánuði í vetur og þann 9. nóvember verður málþing um verslun og þjónustu við íbúa í miðbænum.

Uppákomur í Heilli brú - Yfirlit

Málþing í Heilli brú:
Miðborgin sem íbúahverfi
Sambýlið við ferðaþjónustuna (2X)
Börnin í miðbænum
Góðir grannar
Framboð til borgarstjórnar
Kjördæmafundur með þingmönnum Reykjavík N
Samgöngur í miðbænum

Smiðjur í Heilli brú:
Leikjadagur
Blússmiðja Dóra Braga
Galdrastafa og flugdrekasmiðja
Leiksmiðja Leynileikhússins
Vorblót ÍMR (2X)
Tónsmiðja Péturs Hafþórs
Danssmiðja Kramhússins

UmHverfisgöngur
UmHverfisgöngur eru tilraunaverkefni Íbúasamtaka Miðborgar í samstarfi við verkefnisstjóra miðborgarmála. Þetta eru göngur um afmörkuð svæði eða götur í hverfinu og er tilgangur þeirra að vera samráðsvettvangur borgaryfirvalda við íbúa til að bæta umhverfi þeirra. Tvær UmHverfisgöngur hafa verið farnar, um Iðnaðarmannareit og gamla Austurbæinn.

Umhverfisgöngur skiptast í þrjá meginhluta: Fyrst er farin ganga um ákveðið svæði og það tekið út með tilliti til þess hvað þarf að gera til að bæta öryggi, ástand eigna og umhverfis, aðgengi að þjónustu og auka lífsgæði almennt á viðkomandi svæði. Síðan tekur við framkvæmdatímabil þar sem reynt er að færa allt til betra horfs. Að lokum er farin önnur ganga þar sem framkvæmdin er metin, árangur mældur og teknar ákvarðanir um framhald, sé þörf á því.

Fyrsta UmHverfisganga Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur var gengin 16. ágúst 2017 um Iðnaðamannareit, sunnan Skólavörðustígs neðanverðs. Þarna er blönduð byggð, íbúa og fyrirtækja, borgareignir og eignir í eigu almennings, veitingastaðir og ferðamannagisting svo nokkuð sé nefnt og vegna fjölbreytileikans þótti þetta svæði ákjósanlegt til að gera þessa fyrstu tilraun.

Þátttakendur í göngunni voru auk íbúa og rekstraraðila á svæðinu, fulltrúar frá Reykjavíkurborg og Lögreglustöð 1. Í göngunni var einkum hugað að baklóðum, gönguleiðum milli húsa og bílastæðum og það sem var skoðað var m.a. veggjakrot, lýsing, skemmdarverk, sóðaskapur og slæm umgengni og rætt um hreinsun og lagfæringar, ónæði frá næturlífi, fíkniefnaneyslu og sölu og hávaða frá flutningabílum.

Með samstilltu átaki íbúa og borgarinnar var svæðið hreinsað, veggjakroti eytt, lýsing bætt, girt fyrir gönguleið frá kránum í Ingólfsstræti og bætt við eftirlitsmyndavélum og viðvörunum. Enn eru eftir blettir á svæðinu þar sem má gera betur en það er mál manna á Iðnaðarmannareit að verkefnið UmHverfisganga hafi orðið þeim sem þar búa og starfa til góðs. Mikil samstaða hefur verið um að bæta ástandið og verkefnið hefur orðið til þess að stytta boðleiðir milli allra þeirra aðila sem þar búa og starfa og því er einfaldara að takast á við mál sem upp munu koma í framtíðinni

Seinni UmHverfisgangan var farin um austurhluta miðbæjarins fimmtudaginn 25. október 2018 og gengið um Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu milli Barónsstígs og Snorrabrautar og voru þær tvær síðastnefndu meðtaldar þar sem þær liggja að þessum götum. Kalt var í veðri þennan dag og hefði þátttaka mátt vera meiri.

En ýmsar góðar ábendingar komu þó fram í göngunni og var gripið til aðgerða vegna allra af hálfu borgarinnar en þar sem svæðið er flest allt innan einkalóða þurfti mikið samráð og samvinnu við íbúanna. Íbúasamtökin og verkefnastjóri miðborgarmála gripu því til þess ráðs að boða til fundar í Spennistöðinni þann 28. mars s.l. til að ræða útlit og ásýnd hverfisins. Yfir 70 húsfélög (stigagangar) eru í þeim þremur íbúðaþyrpingum sem gengið var um í umhverfisgöngunni og var reynt að fá fulltrúa þeirra allra á fundinn en því miður tókst það ekki sem skyldi. Eins og í fyrra skiptið var þátttaka lítil og fundurinn komst að þeirri niðurstöðu að það sem þyrfti væri að auka samkennd og samheldni íbúanna í hverfinu og rætt var um að halda hverfishátíð í sumar í þeim tilgangi. Ekki er mér kunnugt um hvort það var gert.

Þessu tilraunaverkefni er nú lokið og væntanleg er skýrsla um hvernig til tókst.

Íbúalýðræði
Nokkur tími hefur farið í að bregðast við tillögum Reykjavíkurborgar um arftaka hverfisráða en þau voru lögð niður í júní í fyrra. Ég ætla að lesa tvær ályktanir sem rekja ágætlega þessa sögu og bið ykkur að afsaka að nokkuð er um endurtekningar í þeim. Fyrst kemur ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur en þessi þrjú samtök furðuðu sig á því hve langan tíma tók að koma verkefninu á koppinn.

Dóra Björt Guðjónsdóttir
Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur

Ályktun: Á sameiginlegum fundi stjórna Íbúasamtaka Miðborgar, Vesturbæjar og 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) var rætt um hverfisráð og arftaka þeirra, borgarhlutaráð samkvæmt tillögum stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð frá því í nóvember 2018. Fundurinn lýsir yfir furðu sinni á því hve hægt gengur að koma þessari skipan á og skorar á borgarstjórn að ljúka þessari vinnu sem fyrst sem hefur það að leiðarljósi að auka skilvirkni, eflingu lýðræðis og bætt samstarf við íbúa.

Greinargerð: Tíu hverfisráð hafa verið starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og hafa þau verið skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa setið í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Á seinni árum hefur sú gagnrýni orðið hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Eitt af verkefnum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs sem starfaði frá 2014-2018 var að koma með tillögur um úrbætur og eflingu hverfisráðanna og drög að þeim skiluðu sér í lok kjörtímabilsins.

Þann 19. júní 2018 frestaði borgarstjórn kosningu í hverfisráð til áramóta 2018-2019 og ákvað jafnframt að leysa upp sitjandi hverfisráð og engin hverfisráð hafa verið starfandi síðan. Stofnaður var stýrihópur um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð og hélt stýrihópurinn opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar þar sem íbúar og aðrir hagsmunaaðilar voru hvattir til að tjá sína upplifun af hverfisráðum og starfsemi þeirra. Fundirnir voru haldnir á tímabilinu 3. október til 7. nóvember og fljótlega eftir það voru drög að skýrslu og tillögum hópsins birt og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma með umsagnir til 30. nóvember.

Síðan hefur ekkert gerst og því skora Íbúasamtök Miðborgar, Vesturbæjar og 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) á borgarstjórn að koma tafarlaust á þeim mikilvæga samráðsvettvangi við borgarana sem borgarhlutaráðin hafa alla burði til að verða.

Kær kveðja
F.h. Íbúasamtaka Miðborgar
Benóný Ægisson

F.h. Íbúasamtaka Vesturbæjar
Guðmundur Albert Harðarson

F.h. Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar)
Karl Thoroddsen

Þegar svo reglur um fyrirkomulagið litu dagsins ljós voru þær með öðrum brag en lagt hafði verið upp með og sendi stjórn ÍMR frá sér eftirfarandi ályktun:

Íbúasamtök úti í kuldanum

Borgarstjórn Reykjavíkur
Pawel Bartoszek forseti

Borgarstjórinn í Reykjavík
Dagur B Eggertsson

Ályktun: Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skorar á borgarstjóra og forseta borgarstjórnar að beita sér fyrir því að það sé tryggt að öll stór íbúasamtök sem starfa með lýðræðislegum hætti í hverfum Reykjavíkur eigi sæti í íbúaráðum þeim sem fyrirhugað er að stofna.

Greinargerð: Tíu hverfisráð hafa verið starfandi í Reykjavík frá árinu 2008 og hafa þau verið skipuð pólitískt en íbúar og aðrir hagsmunaaðilar hafa setið í þeim sem áheyrnarfulltrúar. Á seinni árum hefur sú gagnrýni orðið hávær að hverfisráðin gerðu ekki það gagn sem þeim væri ætlað að gera fyrir hverfin, að þau kæmu málum hverfisins ekki fram og væru í litlu sambandi við grasrótina. Eitt af verkefnum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs sem starfaði frá 2014-2018 var að koma með tillögur um úrbætur og eflingu hverfisráðanna og drög að þeim skiluðu sér í nóvember 2018.

Í drögum Stjórnkerfis og lýðræðisráðs er gert ráð fyrir borgarhlutaráðum og eitt þessara ráða átti að þjóna vesturhluta borgarinnar, Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum. Fulltrúar í borgarhlutaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða áttu að verða 9, 2 kjörnir fulltrúar, 3 fulltrúar íbúasamtaka og 4 fulltrúar valdir með slembivali. Stjórn ÍMR gerði nokkrar athugasemdir við drögin, aðallega um fyrirkomulag slembivalsins en almennt ríkti sátt um þessar tillögur, aðkoma íbúa var tryggð og það leit svo út að rödd þeirra myndi heyrast skýrt og greinilega enda hefðu þeir drjúgan meirihluta í ráðinu.

En þegar endanlegar tillögur svo birtust og voru samþykktar í borgarstjórn í sumar kom allt annar veruleiki í ljós. Íbúaráð þau sem eiga að leysa hverfisráðin af hólmi eru skipuð sex fulltrúum, þremur úr borgarstjórn og þremur fulltrúum íbúa, meirihluti íbúanna er horfinn og auk þess gert ráð fyrir að formaður komi úr hópi borgarfulltrúa. En það sem er verst er að nú eiga íbúasamtök með lýðræðislega kjörnum stjórnum ekki skilyrðislausan rétt til þátttöku. Sú breyting hefur verið gerð að Vestubærinn fær sitt eigið íbúaráð en hverfin Miðborg og Hlíðar eru spyrt saman og þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einum fulltrúa íbúasamtaka í ráðinu þá þurfa ÍMR og Íbúasamtök 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) að skiptast á um að eiga fulltrúa í íbúaráðinu.

Þetta fyrirkomulag er ótækt að mati stjórnar ÍMR. Við höfum átt gott samstarf við Íbúasamtök 3. hverfis í gegnum tíðina og gerum ráð fyrir að svo verði áfram en þessi hverfi eru ólík og eiga mismunandi hagsmuna að gæta. Þau eiga því óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Því er brýnt að fulltrúar beggja íbúasamtakanna sitji í ráðinu.

Með vinsemd

Reykjavík 29. ágúst 2019
F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

Upphófst nú mikið leikhús fáránleikans þar sem forsvarsfólk þessara lýðræðisumbóta virtist ekki heyra óskir okkar íbúanna né vilja nokkuð við okkur tala til að finna lausn á þessu máli svo við formenn viðkomandi íbúasamtaka rituðum bréf til Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs en formaður þess er Dóra Björt Guðjónsdóttir.

Undirritaðir formenn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur og Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar) fagna tilkomu íbúaráða sem nú eiga að leysa af hverfisráðin í Reykjavík. Það er ósk okkar og von að þau verði til þess að auka íbúalýðræði í borginni og efla samstarf grasrótarinnar við borgaryfirvöld í framtíðinni.

Hinsvegar gætir mikillar óánægju hjá báðum íbúasamtökunum með skipun íbúaráðs í hverfunum. Eins og málum er nú háttað þá þjóna íbúaráðin sömu hverfum og hverfaráðin þjónuðu áður nema í okkar tilfelli en hverfin höfðu áður hvort sitt hverfisráð en eiga nú að deila íbúðaráði. Við furðum okkur á þessari ráðstöfun þar sem ekki er gert ráð fyrir nema einum fulltrúa íbúasamtaka í ráðinu og því þurfa ÍMR og Íbúasamtök 3. hverfis að skiptast á um að eiga fulltrúa í íbúaráðinu.

Íbúasamtök 3. hverfis og ÍMR hafa átt gott samstarf í gegnum tíðina og gerum við ráð fyrir að svo verði áfram en þessi hverfi eru ólík og eiga mismunandi hagsmuna að gæta. Þau eiga því óhægt um vik með að tala máli hvers annars og í raun er ósanngjarnt að farið sé fram á það. Því viljum við skora á Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð að endurskoða þessa ákvörðun þannig að hverfin eigi hvort sitt íbúaráð og sitji þannig við sama borð og önnur hverfi.

Með vinsemd og von um skilning

Kær kveðja

F.h. Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur
Benóný Ægisson formaður

F.h. Íbúasamtaka 3. hverfis (Hlíða, Holta og Norðurmýrar)
Karl Thoroddsen formaður

Ein af söguhetjum í Djöflaeyju Einars Kárasonar er kallaður Grjóni heyrnarlausi. Grjóni er krimmi og fékk þetta viðurnefni sitt af því að í yfirheyrslum hjá lögreglunni heyrði hann ekki og svaraði því engu. Þennan eiginleika virðast formaður Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs og starfsmaður ráðsins hafa í ágætum mæli því óskum okkar hefur lítið verið svarað en klifað á því að við verðum að koma okkur saman um hvor íbúasamtökin eigi að hafa fulltrúa í íbúaráðinu. Í vikunni barst okkur eftirfarandi bréf frá Elísabetu Pétursdóttur starfsmanni ráðsins:

"Sæll,
unnið er að innleiðingu íbúaráða samkvæmt þeim tillögum sem lagðar voru fyrir borgarráð 2. maí 2019. Þar er m.a. kveðið á um fjölda og skipan fulltrúa í íbúaráð, ásamt fjölda íbúaráða. Um er að ræða tilraunaverkefni til eins árs og að þeim tíma loknum munu tillögurnar verða endurskoðaðar eftir þörfum. Ekki verða því gerðar breytingar á fjölda fulltrúa eða fjölda íbúaráða á meðan á tilraunaverkefninu stendur.

Þann 22. október kl. 16.30 -19.30 mun verða haldinn fræðslufundur fyrir fulltrúa íbúaráða og því mikilvægt að fá tilnefningu íbúasamtaka í íbúaráð Miðborgar og Hlíða sem fyrst. Er hér með því óskað eftir sameiginlegri tilnefningu íbúasamtaka Miðborgar og íbúasamtaka 3 hverfis fyrir næsta föstudag, 18. október.

Ef þið teljið ykkur ekki geta komist að samkomulagi varðandi þá fulltrúa sem taka sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í þessu tilraunaverkefni til eins árs, yrði dregið um útdeilingu sæta. Það er að segja hvor íbúasamtökin tilnefni fulltrúa.

Vonandi náið þið Karl samkomulagi um skipan."

Ekki finnst mér þessi tilskipunartónn mjög lofandi fyrir íbúalýðræðið og það fannst Karli formanni Íbúasamtaka 3. hverfis ekki heldur því hann svaraði á eftirfarandi hátt:

Sæl Elísabet

Við teljum ekki sanngjarnt gagnvart íbúum Hlíða og Miðbæjar að einn fulltrúi sé í forsvari fyrir bæði hverfin - ólíkt t.d. Vesturbæ. Þau mál sem brenna á íbúum þessara hverfa eru of ólík í dag.

Miðbærinn mun því senda fulltrúa en íbúar Hlíða sitja eftir.

Karl Thoroddsen

Sjálfur hef ég frest til morguns til að svara þessu erindi og mér þætti gott að heyra skoðun ykkar á allri þessari málsmeðferð.

Fjármál
Eins og heyra má er starfsemi Íbúaamtakanna orðin ansi umfangsmikil og þar sem rekstrarfé er af skornum skammti er hún að mestu leyti unnin af sjálfboðaliðum. Engin föst framlög eru til ÍMR og engin félagsgjöld eru innheimt og því höfum við orðið að leita eftir styrkjum og höfum m.a. fengið styrki frá Hverfisráði, Miðborgarsjóði og Forvarnarsjóði, einkum til að reka verkefnið Heila brú í Spennistöðinni og UmHverfisgöngurnar.

Við bundum nokkrar vonir við að fá fjármagn úr miðborgarsjóði þegar hann var stofnaður til að reka þessa starfsemi hérna í Spennistöðinn en höfum fengið frekar lítið úr honum a.m.k. samanborið við félag kaupmanna og rekstraraðila Miðborgina okkar sem er að fá u.þ.b 20 sinnum meira en við í hverri úthlutun. Ég hef eins og áður sagði beðið í fimm mánuði eftir viðtali við borgarstjóra en erindi mitt við hann er að freista þess að fá fasta fjárveitingu til íbúahússins Spennistöðvarinnar til að fá festu í félagsstarf íbúa miðbæjarins. Eg tel mig geta fullyrt að íbúahús í löndunum sem við viljum bera okkur saman við njóti flest öll styrkja frá sínum sveitarfélögum.

Lokaorð
Ég vil að lokum þakka stjórn Íbúasamtakanna og öllum þeim sem komið hafa að starfi samtakanna síðasta árið. Samstarfið í stjórn hefur verið með ágætum og það yrði afar dýrmætt veganesti fyrir þá sem veljast í stjórnina núna að fá ábendingar um hvar sé mikilvægast að hún beiti sér fyrir íbúana og hvað hún geri að baráttumálum sínum. Hugmyndum getið þið komið á framfæri núna í umræðum um skýrslu stjórnar eða síðar á fundinum undir dagskrárliðnum önnur mál.

Hér eru svo hin frægu lokaorð: Það er gott að búa í miðbænum!

Reykjavík 17. október 2019
Benóný Ægisson

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Skúlagötu 21 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is