ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 15. ágúst 2023

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn 15. ágúst 2023 kl. 20:00

Mætt: Sigrún Tryggvadóttir, Birna Eggertsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Pétur Hafþór Jónsson, Guðmundur Ólafsson, Guðjón Óskarsson, Bjarni Agnarsson og Sindri Freyr Ásgeirsson. Boðuð forföll: Holberg Másson.

Þetta var helst rætt á fundinum:

1. AUKIN GJALDSKYLDA Í BÍLASTÆÐI

Lengri gjaldskylda í bílastæði, t.d. á sunnudögum er atlaga að lífsgæðum fólks, sem býr í miðbænum. Það er tilhlökkunarefni alla vikuna fyrir fólk að fá afkomendur sína eða skyldmenni í heimsókn um helgar. Gjaldskylda upp á 500 - 600 kr. á klst þýðir jafnvel 2000 krónu kostnað á hvern fjölskyldubíl. Borgaryfirvöld verða að fara að átta sig á því, að þau eru farin að fæla íbúa burt úr miðbænum. Það viðhorf heyrist, t.d. á samfélagsmiðlum, að séu íbúar ekki sáttir við borgaryfirvöld, geti þeir bara flutt eitthvað annað.

2. SORPMÁLIN

Margrét tók að sér að ítreka svör frá embættismönnum borgarinnar við erindi ÍMR um sameiginlegar lausnir til söfnunar úrgangs við sameiginlegar lóðir/reiti.

3. HEIMASÍÐA ÍBÚASAMTAKANNA

Sigrún, Pétur Hafþór og Sindri Freyr ætla að fara yfir heimasíðu og facebook-síðu ÍMR.

4. MENNINGARNÓTT

Sigrún og Pétur fóru á fund í Ráðhúsinu um götulokanir vegna menningarnætur. Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri viðburða hjá Skrifstofu Borgarstjóra og borgarritara boðaði fulltrúa íbúa til fundar ásamt fulltrúum annarra hagsmunaaðila, s.s. Rekstraraðila veitingahúsa og verslanna. Árni Friðleifsson, aðalvarðsstjóri umferðardeildar LHR fór þar yfir fyrirhugaðar lokanir á götum og umferðaræðum auk annars því viðkomandi. Hann gerði grein fyrir því, að lokanir í ár verða ekki eins umfangsmiklar og oft áður.

Margrét Einarsdóttir sagði, að lokanir yrðu engu að síður miklar vegna Reykjavíkurmaraþonsins. Hún benti á, að handhafar langtímakorta í Stjörnuporti (bilastæðahúsi við Laugaveg) hefðu ekki fengið neinar tilkynningar um götulokanir. Hún vissi ekki fyrir víst, hvort bíll hennar yrði innikróaður í bílastæðahúsinu.

Það kom fram mikil ánægja með samskipti við verkefnastjóra viðburða (Björgu Jónsdóttur), sem hefur boðið stjórninni að senda athugasemdir í tölvupósti.

Guðjón Óskarsson sótti sem tyggjókallinn um styrk í Menningarnæturpottinn, sem er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Landsbankans. Ætlun Guðjóns var að bjóða gestum og gangandi að mæta á Vesturgötuna á Menningarnótt og hreinsa þar tyggjóklessur. Umsókn hans var hins vegar ekki svarað. Það þótti fundarmönnum mjög miður, þar sem Guðjón hóf átak sitt, Klessulaus 101 R, með pompi og prakt þann 1. júlí sl, þar sem forseti Íslands mætti meðal annarra við athöfn við veitingahúsið Rok við Frakkastíg.

5. STYRKIR TIL ÍBÚASAMTAKA

Margrét vill fá öll íbúasamtök í borginni til að fara fram á hærri styrki til starfseminnar. Styrkur sem ÍMR fékk til að halda síðsumarhátíð nemur einungis kr. 150 þús. og ljóst að hann nær vart þriðjungi af kostnaði við slíka hátíð, sem tókst mjög vel á síðasta ári og var fjölsótt. Sjálfur kostnaðurinn nam um hálfri milljón króna fyrir utan mikla sjálfboðavinnu og sérþekkingu stjórnar ÍMR og aðstandenda hennar.

Sindri Freyr velti fyrir sér fleiri fjáröflunarleiðum fyrir samtökin. Sú skoðun heyrðist að þá myndi borgin sjá sér leik á borði og draga enn frekar úr sínum styrkveitingum.

6. ÖNNUR MÁL

Vakin var athygli á illa hirtum gróðurbeðum neðarlega á Klapparstíg og spurt, hvort ekki væri betra að losna við þau, illgresið væri síst til prýði og sennilega betra að lengja hreinlega bílastæðin í staðinn.

Fundi slitið kl. 22:00.

Pétur Hafþór Jónsson ritari

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is