ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á FacebookStjórnarfundur 15. mars 2023

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar 2022-2023.

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn 15. mars 2023 kl. 17:00 í Spennistöðinni. Mætt: Sigrún Tryggvadóttir formaður, Birna Eggertsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Einarsdóttir og Pétur Hafþór Jónsson. Bjarni Agnarsson boðaði forföll.

1. Aðalfundur í apríl
Stefnt er að aðalfundin Íbúasamtaka Miðborgar þriðjudaginn 18. eða 25. apríl í Spennistöðinni kl. 20:00. Pétur tekur að sér að tala við Skólahljómsveit Austurbæjarskóla og athuga með að fá þau til að spila í upphafi fundar. Boða þarf aðalfund með tveggja vikna fyrirvara og með fundarboði. Þar þarf að kynna fyrirhugaðar lagabreytingar. Margrét mun koma með tillögu að lagabreytingu.

2. Upplýsingar af fundum Íbúaráðs
Formaður gerði grein fyrir að á síðasta fundi Íbúaráðs hafi áhersla verið lögð á umferðarmál, t.d. um hættu af akstri stærri ökutækja í Miðborginni, sjá fundargerð ráðsins.

3. Málþing um öryggi íbúa í umferðinni
Samþykkt að stefna að málþingi í Spennistöðinni 23. maí nk. í samvinnu við foreldrafélag Austurbæjarskóla. Helstu atriði sem fjalla á um eru gönguleiðir, lýsing og rútur og aðrir stórir bílar í hverfinu. Á næsta fundi stjórnar þarf að ákveða hver verða fengin sem frummælendur.

4. Fjölmenningarleg vetrarhátíð
Hátíðin var haldin laugardaginn 5. mars og skila þarf greinargerð um hana til borgarinnar, sem styrkti framtakið með 800 þús. kr. framlagi. Formaður, gjaldkeri og Pétur Hafþór (sem leiddi vinnu við skipulagningu) taka að sér að semja greinargerð. Styrkurinn gekk að mestu upp í laun til listamannanna sem komu fram eða stýrðu smiðjum, en hluta hans var varið til að kaupa veitingar og í auglýsingar.

Stjórnin, að frátöldum ritara, taldi að vel hefði tekist til. Fólk af ólíkum uppruna var fengið til að troða upp, dagskráin var fjölbreytt og höfðaði til íbúa á öllum aldri. Ætla má að á annað hundrað manns hafi komið á hátíðina, auk þeirra sem komu fram og stöldruðu svo við til að gæða sér á veitingum og njóta annarra atriða.

Ritari lýsti þeirri skoðun sinni á að þátttaka hefði ekki verið viðunandi miðað við háan styrk frá borginni, mikla sjálfboðavinnu stjórnar og að allt hafi verið gert til að vekja áhuga íbúa hverfisins á að mæta. Hún sagðist setja spurningarmerki við hvort íbúasamtökin ættu að stefna að fleiri hátíðum. Það að halda reglulega málþing um það sem brenni á íbúum þessa tíuþúsund manna hverfis væri brýnna verkefni.

Aðrir stjórnarmeðlimir minntu á að í ágúst síðastliðinn hafi samtökin haldið afar vel heppnaða og vel sótta síðsumarhátíð og þótt málþing um sambýli við næturlífið í haust hafi vakið athygli fjölmiðla hafi raunar mun færri komið á þann fund. Samtökin hafi bolmagn til að standa fyrir viðburðum af báðum toga, bæði fjölbreyttum málþingum um það sem er efst á baugi í hverfinu og menningar- og skemmtisamkomum fyrir íbúa, enda í boði að sækja um styrki í sjóði (bæði hverfissjóð og Miðborgarsjóð) sem ætlaðir eru til þess að auðga líf í hverfum borgarinnar. Eftir samkomubönn og ládeyðu í heimsfaraldrinum sé það þakklátt verk en tíma geti tekið að byggja upp stemmingu í kringum hátíðirnar, safna reynslu í viðburðahaldi og finna út hvað helst laðar að fólk.

5. Grein í hverfisblaðið
Pétur tekur að sér að hafa samband við ritstjórn og fá umfjöllun í blaðinu.

Fundi slitið kl. 18:00.

Guðrún Erla Geirsdóttir ritari
Sigrún Tryggvadóttir formaður

TilbakaGömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is