ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 10. október 2017

Stjórnarfundur ÍMR í Spennistöðinni þriðjudaginn 10. október kl 18:30

Dagskrá:
1. Nýkjörin stjórn skiptir með sér verkum
2. Spennistöðin
3. Úthlutun Miðborgarsjóðs
4. Fundur um rútuumferð í miðborginni
5. Fundur um hóteluppbyggingu
6. Seta í ráðum og nefndum
7. Önnur mál

Mætt eru: Benóný, Guðrún J., Guðrún Erla, Eva Huld og Aðalsteinn. Birgitta kom undir lok fundarins.

Verkaskipti stjórnar: Ragnhildur Zoega varaformaður, Birgitta Bára Hassenstein ritari, Guðrún Janusdóttir gjaldkeri og Aðalsteinn Jörundsson vararitari

Lögð fram samþykkt borgarráðs um Spennistöðina. Frístundamiðstöðin Tjörnin ákveður nýtingu húsnæðisins utan skólatíma í samráði við húsráð Spennistöðvarinnar sem er ráðgefandi varðandi nýtingu húsnæðis og starfsemi Spennistöðvarinnar. Ráðist verður í framkvæmdir við breytingar á húsnæði Spennistöðvarinnar, þ.e. hólfa húsnæðið niður til að auka nýtingarmöguleika þess og endurbæta lýsingu í húsnæðinu, fyrir allt að 25 m.kr. auk þess sem 5 mkr. verði varið í endurnýjun húsgagna og búnaðar. Samtals 30 m.kr. sem rúmast innan uppfærðrar fjárfestingaáætlunar. Tjörnin ráði starfsmann í 30% starfshlutfall til að sinna umsýslu og rekstri Spennistöðvarinnar utan skóla- og frístundatíma.

Benóný kynnti úthlutun úr Miðborgarsjóði en ÍMR fékk úthlutað einni milljón eða 4% úthlutaðs fjár. Formaður er afar óánægður með hlutskipti ÍMR og vill afþakka styrkinn því hann dugar hvergi nærri fyrir þeim verkefnum sem ÍMR vill ráðast í en sótt var um 5,5 milljónir. Til samanburðar fær Miðborgin okkar 15 milljónir eða 60% af úthlutuðu fé. Ákveðið að fresta því til næsta fundar að álykta um málið svo stjórn geti kynnt sér gögn málsins.

Undirbúningur fyrir fund 11. október um rútuumferð í miðborginni. Ákveðið að formaður taki íbúa á Njarðargötunni með á fundinn, hitti forstöðukonu á leikskólanum Grænuborg og safni saman sögum úr hverfinu um hvaða reynslu fólk hefur af takmörkunum á fólksflutningum um hverfið.

Rætt um íbúafundinn Hótel, íbúðahótel og heimagisting - Hvert skal stefnt? sem er opinn fundur hverfisráða og íbúasamtaka Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og borgarstjóra. Fyrirhugað er að halda fundinn 18. október 2017 Kl.17 - 18:30 í Tjarnarsal Ráðhússins en fulltrúi sýslumanns getur ekki mætt þá. Fundarmenn voru einhuga um að nauðsynlegt sé að fulltrúi sýslumanns mæti því annars sé lítið gagn að fundinum og því sé betra að fresta honum.

Seta í ýmsum ráðum og nefndum er orðin mjög íþyngjandi fyrir formanninn en hann situr í Hverfisráði, Húsráði Spennistöðvarinnar, Miðborgarstjórn, Aðventunefnd og starfshópum um rútuumferð og íbúafund um hóteluppbyggingu. Þetta eru 50 – 60 fundir á ári og miðborgarstjórn hafnaði því að formanni yrði greidd þóknun vegna vinnutaps þó öll þessi fundarseta sé að beiðni borgaryfirvalda og embættismanna þeirra og því þarf að finna annað fyrirkomulag í þessum málum eða velja og hafna.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum: Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur lýsir yfir stuðningi við Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur og Örn Úlfar Höskuldsson sem vilja flytja hús sem byggt var 1902 á Bergstaðastræti 7 en stendur nú á Vatnsleysuströnd á lóðina Bergstaðastræti 18. Gamla byggðin í miðborg Reykjavíkur hefur látið undan síga á undanförnum áratugum, mörg gömul hús hafa verið rifin eða þau flutt burt en í staðinn hafa verið byggð hús sem eru í allt öðrum hlutföllum en gamla byggðin. Stjórn ÍMR skorar á borgaryfirvöld að snúa þessari þróun við og hvetur þau til að fylgja fordæmi þeirra Vigdísar Hrefnu og Arnar Úlfars um að fylla skörð í götumyndum miðborgarinnar með gömlum húsum sem lent hafa á vergangi.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið um kl. 20. Benóný ritaði fundargerð.



Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is