ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 10. janúar 2023

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar 2022-2023.

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn 10. janúar 2023 kl. 17:00 í Spennistöðinni. Mætt: Sigrún Tryggvadóttir formaður, Birna Eggertsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Holberg Másson, Margrét Einarsdóttir og Pétur Hafþór Jónsson. Forföll boðuðu Ásdís Káradóttir og Bjarni A. Agnarsson.

Dagskrá

1. Snjómokstur
Rætt um að mikil vandræði hafi skapast á síðustu vikum vegna snjókomu og frosts. Starfsfólk Borgarinnar hafi ekki staðið sig í hreinsun gatna og gangstétta. Einnig vanti upp á að fyrirtæki og íbúar leggi sitt af mörkum. Rætt um hálkuslys og kostnað samfélagsins vegna þeirra. Samanburður við nágrannasveitafélögin sé ekki jákvæður. Samþykkt að senda bréf til Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og fara fram á að aftur verði komið fyrir sand- og saltkistum í Miðborginni og fjölga þeim frá því sem áður var. Auk þess að spyrjast fyrir um hver sé stefna Borgarinnar varðandi hitavatnslagnir í gangstéttum, svo sem þegar verið er að leggja nýjar stéttar í stað eldri.

2. Sorphirða
Vandræði hafa verið vegna ónógrar sorphirðu í hverfinu, t.d. sökum þess að að tæma þurfi tunnur oftar í kringum hátíðar. Frést hefur að fækka eigi grenndargámum. Samþykkt að fara fram á greinargóða kynningu á nýjum lögum og reglum um sorphirðu og flokkun sorps hjá íbúum. Jafnframt að mótmæla ef fækka eigi grenndargámum. Þvert á móti þurfi að fjölga þeim í þessari þéttustu byggð landsins.

3. Öryggi barna í umferðinni
Stefnt er að því að halda málþing um umferðaröryggi barna í Miðborginni eigi síðar en í lok febrúar, á laugardegi. Ákveðið að hafa samband við lögreglu, umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar, Foreldrafélag Austurbæjarskóla og foreldrafélög í leikskólum hverfisins og bjóða þeim að taka þátt, t.d. með framsögu eða í pallborði. Börn eru velkomin með forráðamönnum og fenginn verður listrænn einstaklingur til að vera með föndur með þeim meðan á þinginu stendur.

4. Rútur og hótel í miðbænum
Formaður greindi frá að Íbúaráð Miðborgar og Hlíða hefur þegar ályktað um að æskilegt sé að öll umferð stórra bíla verði færð úr þessu þrönga hverfi á stofnbrautir. Fylgst verður með hvort það gengur eftir. Væntanlega verður umferð rútna og annarra stórra bíla um hverfið hluti af því sem rætt verður um á málþinginu Umferðaröryggi barna í Miðborginni.

4. Önnur mál
Holberg greindi frá gagnlegum fundi sem Hollvinasamtök Sundhallarinnar héldu með borgaryfirvöldum og að framhald verði á samtali samtakanna við borgina.

Ákveðið að stefna á að halda aðalfund Íbúasamtaka Miðborgar þriðjudaginn 25. apríl.

Ákveðið að stjórnin haldi óformlegan aukafund þann 24. janúar nk.

Fundi slitið kl. 18:25.

Guðrún Erla Geirsdóttir ritari

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is