ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 8. nóvember 2022

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar 2022-2023.

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn 8. nóvember 2022 kl. 17:00 í Spennistöðinni. Mætt: Sigrún Tryggvadóttir formaður, Ásdís Káradóttir, Birna Eggertsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Einarsdóttir og Pétur Hafþór Jónsson.

1. Málþing um sambýli við næturlífið
Fyrir málþingið 3. nóvember sl. náðist að vekja athygli fjölmiðla og var þingið vel kynnt og ágætlega sótt. Nokkrir íbúar og fulltrúar lögreglu og heilbrigðiseftirlits tóku til máls, auk framkvæmdastjóra Betri svefns, og sátu í pallborði. Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs boðaði komu sína en mætti ekki og olli það vonbrigðum. Nokkrum fundargesta fannst skorta á að frummælendur hefðu raunhæfar lausnir á hávaðamengun sem skapast sökum langs opnunartíma veitingastaða og að ekki sé farið að lögum. Málefnið er bæði á borði hjá ríki og borg. Útgáfa veitingaleyfa og endurnýjun þeirra er í höndum Heilbrigðiseftirlits borgarinnar (svo virðist sem starfsfólk eftirlitsins starfi aðeins í dagvinnu) en ríkinu, þ.e. lögreglu, ber að sjá um að farið sé að lögum. Í ljós kom að tilfinnanlega vantar samhæfingaraðila sem hefði yfirsýn yfir mál sem varða veitingastaði og veitingaleyfi og að lög um hávaða bæði á veitingastöðum og á götum úti séu ekki brotin.

2. Fyrirhuguð stækkun á bílastæðasvæðum
Samþykkt að formaður íbúasamtakanna mótmæli því á næsta fundi Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða að fyrirhugaðar stækkanir gjaldsvæða í Miðborginni hafi ekki verið kynntar í ráðinu, eins og eðlilegt er ef fjallað er um málefni sem varða hverfin hjá öðrum nefndum og ráðum hjá borginni. Ákveðið var að senda borgaryfirvöldum ályktun þar sem mótmælt væri fyrirhugaðri stækkun gjaldskyldusvæða 1 og 2. Einnig á að koma fram í ályktuninni að íbúaráðið sé óánægt með stjórnsýslu sem varðar bílastæði. Á það við um Bílastæðasjóð, Umhverfis- og skipulagsráð og embættismenn þessara sviða borgarinnar.

3. Gagnasöfnun fyrir verkefnið um öryggi skólabarna í umferðinni
Samband er komið á milli stjórnar Foreldrafélags Austurbæjarskóla og stjórnar íbúasamtakanna. Til stendur að halda sameiginlegan fund stjórnanna. Einnig rætt um að vera með opinn vel auglýstan eftirmiðdagsfund (væntanlega á laugardegi) fljótlega eftir áramót, fyrir foreldra og aðra sem áhuga hafa á málinu. Aðalumræðuefni væri öryggi skólabarna á leið í Austurbæjarskóla.

4. Önnur mál
Pétur kynnti að Arite Fricke (sem sá um flugdrekasmiðju fyrir börn á síðsumarhátíðinni) sé tilbúin að sjá um aðrar smiðjur. Fjallað var um að fá hana til að vera með smiðju fyrir börn (t.d. gerð sprellikarla og -kerlinga) meðan á fundur um öryggi skólabarna stæði yfir (sjá 3. lið).

Fundi slitið kl. 18:05.

Guðrún Erla Geirsdóttir ritari

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is