ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 7. febrúar 2022

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar 2021-2022.
Stjórnarfundur haldinn 7. febrúar 2022 kl. 20:15 á Laufásvegi 20.

Mætt: Arnar Guðmundsson formaður, Ásdís Káradóttir, Einar Thorlacius, Guðrún Erla Geirsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Pétur Hafþór Jónsson og Sigrún Tryggvadóttir.

Gestur fundarins var Margrét Norðdahl, formaður Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða.

Margrét formaður Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða kynnti að ráðið hittist fjórða hvern þriðjudag í mánuði, sérstakur starfsmaður tæki við fyrirspurnum og erindum frá íbúum og samtökum. Fundargerðir ráðsins mætti nálgast á netsíðu Reykjavíkurborgar og þar birtist dagskrá fundar viku fyrir hvern fund. Fundirnir væru opnir íbúum og streymt á netinu. Þau sem fylgdust með á netinu hefðu tækifæri á að taka þátt með spurningum. Umræða var um hvort samskipti almennings við kjörna fulltrúa væru nógu greið. Kvartað var yfir lélegu upplýsingastreymi borgaryfirvalda til íbúa, t.d. vegna breytinga á götum, m.a. hefði það valdið því að fólk hafi fengið sektir. Arnar formaður Íbúasamtakanna vakti athygli á að samtökin væru góður farvegur fyrir upplýsingar frá borginni til íbúanna. Stjórnarmenn ræddu um að með tillit til dagsetninga funda Íbúaráðs væri æskilegt að fundir stjórnar verði í fyrstu viku hvers mánaðar til að tími vinnist til að koma málum okkar á dagskrá hjá ráðinu.

Umræður um daglegt umhverfi íbúa þessa þéttbýlasta hverfis borgarinnar: Minnt var á að Þingholtin hefðu verið fyrsta 30 km. hverfið og tilraunaverkefni. Miðaða við þau svæði sem síðar hefðu komið, s.s. Melana, vantaði á mörgum stöðum í íbúðagötum “tungur”, þ.e. þrengingar við gatnamót, sem kæmu börnum til góða þannig þau sæju vel út á götur. Í hverfinu væru “víð” gatnamót (Skálholtsstígs/Laufásvegar og Bragagötu/Laufásvegar) sem þyrfti að þrengja og væri þá hægt að nýta fyrir bekki og gróður og jafnvel hjólastæði. Ásdís benti á að þrengingar þyrfti einnig á Njarðargötu, enda færi fjöldi barna yfir götuna og mikið um hraðakstur. Umræða um að strætisvagnar keyrðu hér langt yfir 30 km hámarkshraða og rútur væru aftur orðnar vandamál.

Guðrún Erla ræddi um að á hverju ári væru óhöpp og slys á nemendum Kvennó vegna hálku - skólinn væri í þremur húsum og ekki upphitaðar gangstéttar á milli þeirra. Einnig rætt um þörf á upphituðum gangstéttum sem þveruðu hverfið austur/vestur og norður/suður, sem í snjó kæmu börnum á leið í skóla vel sem og ferðamönnum og eldri borgurum. Margir íbúanna hefðu valið sé bíllausan lífsstíl og hér væri gífurlegur fjöldi ferðamanna - mun meiri þörf væri því á snjólausum gangstéttum en annars staðar í borginni. Á mjög mörgum stöðum í hverfinu er ekki möguleiki fyrir íbúa að koma sér upp einkahleðslustöðvum og því var formaður Íbúaráðs spurð að hvenær borgin ætlaði að setja upp almennar hleðslustöðvar fyrir rafbíla í íbúagötum hverfisins. Formaðurinn sagðist mundu athuga hvað væri að frétta af því máli í borgarkerfinu og fylgja málinu eftir.

Pétur og Margrét spurðu um hvort leggja ætti niður Baróns- og Lindarborg. Ef svo væri legðu þau til að gera lóðirnar að svæði fyrir íbúa með grendargámum, hleðslustöðvum, gróðri og aðstöðu sem nýtist íbúum til að hitast.

Sigrún minnti á að Íbúasamtökin hefðu sent borginni bréf þar sem farið var fram á meiri sígrænan gróður, s.s. bergfléttur í almannarými hverfisins, t.d. á Óðinstorgi. Mæðragarðinn kom til umræðu og óskað eftir að hann fengi aftur sitt upprunaleg hlutverk; útivistarsvæði með leiktækjum fyrir yngstu börnin sem væri lokaður með lágir girðingu sem kæmi í veg fyrir að börn kæmust út á götu, en þannig var hann í upphafi.

Að lokum var rætt um að íbúasamtök borgarinnar þyrftu að fá fé til að halda úti góðum heimasíðum og minnt á  að borgin hreykti sér af að vera ein tölvuvæddasta borg heims. Því skiti skökku við að hafna beiðni Íbúasamtaka Miðborgar um að nýta hluta styrks  borgarinnar til að gera nýja heimasíðu í stað 20 ára gamallar úreltrar síðu sem samtökin væru nú með.

Fundi slitið kl. 22:15.

Guðrún Erla Geirsdóttir ritari

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is