ÍBÚASAMTÖK MIÐBORGAR REYKJAVÍKUR

News


Fréttir
Um samtökin
Lög
Starfið
Fundargerðir
Greinar


Íbúasamtökin á Facebook



Stjórnarfundur 4. október 2022

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar 2022-2023.

Fundur stjórnar Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur haldinn 4. október 2022 kl. 17:00 í Spennistöðinni. Mætt: Sigrún Tryggvadóttir formaður, Ásdís Káradóttir, Birna Eggertsdóttir, Bjarni Agnarsson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Holberg Másson, Margrét Einarsdóttir og Pétur Hafþór Jónsson.

Dagskrá

1. Málþing um sambýli við næturlífið
Vinnuhópur greindi frá að ákveðið hafi verið að halda málþingið 3. nóvember nk. kl. 20:00 í Spennistöðinni. Benóný Ægisson hefur samþykkt að starfa með vinnuhópnum. Með framsögn á fundinum verða væntanlega svefnráðgjafi, fulltrúi frá Heilbrigðiseftirlitinu, úr borgarstjórn og frá hótelum í Miðborginni. Fulltrúum allra flokka í borgarstjórn verður boðið á fundinn.

2. Veggjakrot - hvað kom fram hjá Íbúaráði?
Kynnt að rætt hafi verið um veggjakrot á fundi Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Fram kom að Reykjavíkurborg er með netsíðu þar sem almenningur getur haft samband ef krotað er. Íbúðaráð mun senda fyrirspurn til borgarinnar og óska eftir nánari upplýsingum, sem kynntar verða á næsta fundi ráðsins.

3. Umferðarmál og öryggi barna, í samvinnu við foreldrafélag Austurbæjarskóla
Hanna Björk formaður Foreldrafélags Austurbæjarskóla mætti og upplýsti að félagið hefði haft samband við borgina og eitthvað hafi verið gert í málefnum barna sem félagið taldi mikilvægt. Rætt um hraðahindranir, t.d. að oft sé óljóst hvað er gangbraut og hvað hraðahindrun. Margrét hvatti til að hraðahindranir væru þannig að hjólafólk færi í gegn án þess að hægja á sér. Ákveðið að búa til hóp sem skiptir sér niður á hverfið og skrásetji hvar þurfi umbætur til að tryggja betur gönguleiðir barna. Næstu skref í því máli verður í gegnum tölvusamskipti.

4. Önnur mál
A. Ásdís kynnti að á síðasta fundi Íbúaráðs hefði komið fram að sækja mætti um í sérstakan sjóð hjá borginni til að gera rampa fyrir hjólstóla. Einnig að opið væri fyrir umsóknir í tvo sjóði (“Borgin okkar 2022” og Covid-sjóð) þar sem væri fé eyrnamerkt til málefna hverfisins. Sjá fundargerð Íbúaráðs Miðborgar og Hlíða.

B. Holberg greindi frá vel sóttum fundi sem hann hélt með hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins um flugvöllin i Vatnsmýrinni. Þar hefði eldfjallafræðingur greint frá að flugvöllur í Hvassahrauni kæmi ekki til greina sökum hættu á eldsumbrotum. Tækniframfarir muni væntanlega breyta miklu og því þurfi að gera nýja skýrslu um hvaða kostir komi til greina. E.t.v. verði niðurstaðan fleiri enn einn flugvöllur í nágrenni höfuðborgarinnar. Í framhaldi af umræðum samþykkti Stjórn Íbúasamtakanna að stefna að opnum fundi um flugvallarmálið á næsta ári, t.d. um það sem mest brennur á íbúum Miðborgarinnar, einkaþotur og æfingarflug.

C. Holberg kynnti að hjá borginni lægju fyrir tillögur um (eða búið væri að samþykkja) breytingar á innanhússlaug Sundhallarinnar. Hann mun á næsta fundi koma með nánari upplýsingar.

Fundi slitið kl. 18:10.

Guðrún Erla Geirsdóttir ritari

Tilbaka



Gömul mynd

Gamla myndin er af Hótel Íslandi sem stóð á horni Austurstrætis og Aðalstrætis. Smellið á myndina til að stækka hana og hér má finna fleiri gamlar myndir úr miðborginni

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur - Þjónustumiðstöðinni Laugavegi 77 - 101 Reykjavík - midbaerinn@midbaerinn.is